Einfaldir en mikilvægir ljósgjafar í skammdegi
Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri
7. desember – Ljósgjafar
Nú styttist í dimmustu daga ársins þar sem sólargangur er sífellt styttri. Jól eru forn hátíð þar sem hækkandi sól er fagnað. Sjálft orðið jól er mjög gamalt, skylt orðinu Ýlir en svo hét annar mánuður vetrar samkvæmt gamla tímatalinu sem hófst 20.-26. nóvember og stóð til 19. -25. desember. Að líkindum var jólum fagnað undir fullu tungli í Ýli en það var talið gæfulegast að skemmta sér með fullu tungli. Með kristni varð þessi heiðna gleðihátíð að fæðingarhátíð frelsarans Jesú.
Til að færa ljós í hýbýli fólks var notast við einfalda ljósgjafa. Þar voru lýsislamparnir eða kolur ráðandi langt fram á 19. öld þar til olíulampinn kom til sögunnar. Með honum færðist aukið ljós inn í baðstofuna. Steinolían gaf frá sér meira ljós en lýsið og kveikurinn var einnig breiðari en fífuþráðurinn eða ljósgarnið sem notast var við í lýsislömpum. Þá var hægt að stýra ljósmagni olíulampans með því að skrúfa kveikinn upp eða niður.
Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.