Fara í efni
Mannlíf

Ein með öllu fyrir allt og alla – MYNDIR

Einni með öllu var slitið með glæsilegri flugeldasýningu á miðnætti á sunnudagskvöld. Ljósmynd: Hörður Geirsson

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu var á Akureyri um verslunarmannahelgina venju samkvæmt og fór afar vel fram að þessu sinni eftir því sem næst verður komist. Veður var gott og fólk skemmti sér á margskonar viðburðum sem haldnir voru um helgina. Mikill fjöldi fólks mætti á Sparitónleika á flötinni neðan við Samkomuhúsið í gærkvöldi, þar sem ýmsir tónlistarmenn komu fram og hátíðinni var síðan slitið með stórglæsilegri flugeldasýningu á miðnætti.

Neðst í fréttinni er tengill á fjölbreytta myndasyrpa frá ýmsum viðburðum helgarinnar.
_ _ _

KRAKKAHLAUP SÚLUR VERTICAL
Stór hópur tók þátt í krakkahlaupi Súlur Vertical fjallahlaupsins í Kjarnaskógi á föstudaginn.

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
_ _ _

ÓSKALAGATÓNLEIKARNIR
Óskar Pétursson, Eyþór Ingi Jónsson og Ívar Helgason sungu og spiluðu á árlegum Óskalagatónleikum í Akureyrarkirkju á föstudagskvöldið þar sem hann var þétt setinn, kirkjubekkurinn. Leynigestur á tónleikunum - sem reyndar búið að tilkynna um fyrirfram! - var Birkir Blær.

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
_ _ _

SÚLUR VERTICAL
Hátt í 500 manns tóku þátt í fjallahlaupinu Súlur Vertical  á laugardaginn í góðu veðri. Langflestir hlupu 18 kílómetra, á þriðja hundrað manns, rúmlega 100 fóru 28 km, 51 hljóp 43 km og 17 hetjur höfðu lagt hvorki meira né minna en 100 kílómetra að baki þegar þeir komu í mark.

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
_ _ _

MIÐBÆRINN
Markaðsstemning var á Ráðhústorgi bæði á föstudag og laugardag og báða dagana kom Ivan Vujcic sér fyrir á torginu og heilgrillaði skokk fyrir gesti og gangandi.


Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
_ _ _

BÍLAKLÚBBURINN
Íslandsmót í götuspyrnu fór fram á svæði Bílaklúbbs Akureyrar bæði laugardag og sunnudag. Á laugardag voru 10 ár frá hörmulegu slysi þegar sjúkraflugvél brotlenti á svæðinu og tveir létust, Páll S. Steindórsson flugstjóri og Pétur R. Tryggvason slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður. Svæði klúbbins var opið á laugardag og fram á kvöld fyrir þá sem vildu heiðra minningu þeirra við minningarstein sem vígður var 5. ágúst árið 2016.


_ _ _

SKÓGARDAGUR Í KJARNASKÓGI
Skógræktarfélag Eyfirðinga stóð fyrir samkomunni á sunnudag og var aðsókn gríðarlega góð; forsvarsmenn félagsins telja að um 3.000 manns hafi lagt leið sína í garðinn. Meðal annars var boðið upp á ketilkaffi, sem soðið var yfir opnum eldi.

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
_ _ _ 

MÖMMUR OG MÖFFINS
Fjöldi fólks mætti á viðburðinn Mömmur og möffins í Lystigarðinum á laugardag. Að þessu sinni voru bakaðar 2.630 bollakökur – „möffins“ – og allt seldist að vanda. Allt sem kemur í kassann rennur óskipt til fæðingardeildar Sjúkrahússins á Akureyri.

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
_ _ _

„AKUREYRI ER OKKAR“
Tónleikar fóru fram á veitinga- og kaffihúsum hér og þar um bæinn á laugardag; pop-up viðburðir, eins og stundum eru kallaðir, eða gorkúlu-tónleikar því þeir spretta upp hér og þar eins og gorkúlur ... Meðal þeirra sem fram komu var Páll Óskar Hjálmtýsson í Lystigarðinum.

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
_ _ _ 

SPARITÓNLEIKARNIR
Hátíðinni lauk með mjög vel sóttum Sparitónleikum á flötinni fyrir neðan Samkomuhúsið á sunnudagskvöld og að fjögurra klukkustunda skemmtiatriðum loknum tók við stórglæsileg flugeldasýning.

Ljósmynd: Hilmar Friðjónsson

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson