Fara í efni
Mannlíf

Eik kemur fram á Jólagestum Björgvins

Akureyringurinn Eik Haraldsdóttir tekur þátt í jólatónleikum Björgvins Halldórssonar, Jólagestum, annað kvöld, 19. desember. Eik sigraði í keppninni Jólastjarna Björgvins árið 2013, þá 11 ára, og stígur nú aftur á svið, sjö árum síðar, ásamt öðrum sigurvegurum.

Þetta er í 14. sinn sem Jólagestir Björgvins eru haldnir og verður blásið til allsherjar jólaveislu sem streymt verður úr Borgarleikhúsinu. Þar kemur fram einvala lið söngvara, hljóðfæraleikara, kóra og dansara.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Eik verið áberandi í tónlistarlífi Akureyrar síðan hún vann keppnina, meðal annars tekið þátt í uppsetningum Leikfélags Akureyrar á Vorið vaknar og Pílu pínu. Eik, sem gefur út sína fyrstu plötu í janúar með vini sínum, lauk framhaldsprófi í rythmiskum söng í desember.

Eldri myndin af Eik er tekin 2013, þegar hún var 11 ára í forkeppni Jólastjörnunnar. Við píanóið situr Pálmi Sigurhjartarson.