„Ég opnaði bréfið og fór strax að gráta“
Fallegar sögur af góðhjörtuðu fólki eiga alltaf við en hugsanlega eru þær aldrei meira viðeigandi en um jólaleytið. Katrín Sylvía Brynjarsdóttir, 18 ára starfsmaður Bónuss í Naustahverfi, sagði Akureyri.net eina slíka sögu.
Katrín Sylvía var við vinnu á afgreiðslukassa í versluninni rétt fyrir jól þegar viðskiptavinur, sem hún var að ljúka við að afgreiða, rétti henni umslag. Viðskiptavinurinn, kona sem Katrín Sylvía hefur oft afgreitt, hélt svo sína leið.
„Ég opnaði bréfið við kassann og fór strax að gráta,“ segir Katrín Sylvía og er greinilega djúpt snortinn. „Í umslaginu var ótrúlega fallegt bréf, þar sem hún hrósaði mér mikið, og 10 þúsund króna seðill!“
Katrín Sylvía komst að því hvað konan heitir og hringdi í hana daginn eftir.
„Konan sagði að ég væri besti kassastarfsmaður sem hún hefði hitt og ég ætti þetta skilið. Hún hrósaði mér svo mikið, sagði að kúnnarnir skiptu mig greinilega öllu máli og það er alveg rétt hjá henni; mér finnst skipta öllu máli að koma vel fram við viðskiptavinina. Konan sagðist hafa farið með fimm svona bréf til kassastarfsmanna í bænum og ég hefði fengið bréf númer fimm.“
Í bréfinu þakkaði konan Katrínu Sylvíu fyrir allt sem hún hefði gert á árinu til að gera heiminn og umhverfið í kringum sig betra. „Ég skynja að þú hefur gert margt sem snertir aðra á jákvæðan hátt. Mun meira en þú gerir þér grein fyrir.“
Katrín segir: „Þetta var svo ótrúlega fallegt. Ég er bara 18 ára og var svakalega brugðið.“