Fara í efni
Mannlíf

„Ég er að verða meiri og meiri sérvitringur“

Stefán Sigríðar- og Tryggvason, myndin tekin við Leifshús, með Kaldbak í bakgrunni. Mynd RH

Evrópska nýtnivikan er að hefjast og þá er ekki úr vegi að taka púlsinn á einum nýtnasta íbúa Eyjafjarðar, honum Stefáni Tryggva- og Sigríðarsyni á Þórisstöðum. Blaðamaður heimsótti Stefán í Leifshúsum, þar sem hann var við sína uppáhalds iðju - að brasa og búa eitthvað til.

Breyttu fjósi í hótel

Þórisstaðir eru fyrir neðan Grenivíkurveg, skammt áður en keyrt er upp á Víkurskarðið. Þar býr Stefán ásamt konu sinni Ingu Árnadóttur, en þar er einnig Hótel Natur, sem þau hjónin ráku saman til ársins 2021 áður en þau seldu reksturinn. Þau sköpuðu hótelbyggingarnar árið 2004 með því að breyta fjósi sem var á bænum, en þar var endurnýtingin einmitt í hávegum höfð og allt notað áfram sem hægt var. Fyrir ofan veginn er svo jörðin Leifshús, en þar er nýjasta verkefni þeirra hjóna langt komið.

Ég er hættur að segja alltaf; já ég er sammála síðasta ræðumanni. Ég viðurkenni að þarna er ansi stutt í það að verða kverúlant og hafa allt á hornum sér og þá þar af leiðandi endalaust leiðinlegur!

Sérviskan blómstrar

„Eftir að við seldum hótelið höfum við getað eytt meiri tíma í að sinna hugðarefnum okkar,“ segir Stefán. „Ég er reyndar alltaf að verða meiri og meiri sérvitringur og mér finnst dásamlegt að geta leyft mér það, að sinna hugðarefnum mínum.“ Stefán segir að það sé einkenni sérvitringa að vera ekki alltaf að velkjast í meðvirkni samfélagsins. „Ég er hættur að segja alltaf; já ég er sammála síðasta ræðumanni. Ég viðurkenni að þarna er ansi stutt í það að verða kverúlant og hafa allt á hornum sér og þá þar af leiðandi endalaust leiðinlegur!“ segir Stefán og hlær. Sennilega er hann týpan sem lætur það ekki trufla sig mikið, hvað öðrum kann að finnast um hann.

Íbúðarhúsið í Leifshúsum er virðulegt. Bústaður listamannanna er til vinstri á myndinni. RH 

Vildi ekki verða ‘gamall bóndi’

„Ég held að ég hafi alltaf verið svolítill sérvitringur í mér. Ég er alinn upp í sveit og eyddi miklum tíma einn með sjálfum mér,“ segir Stefán. „Eftir að við hjónin förum í búskap, þá var Inga á kafi í að kenna og ég var enn og aftur frekar mikill lóner hérna í búskapnum. Við hófum búskap á Kjalarnesi en höfum verið síðustu 30 árin hérna á Þórisstöðum.“ Það virðist vera að Stefán hafi haft nægan tíma til þess að velta hlutunum fyrir sér, en eitt af því sem hann hugsaði um var að hann vildi ekki verða gamall bóndi. Honum leist illa á þróunina í landbúnaðarumhverfinu á Íslandi. „Þegar við tókum ákvörðun um að hætta búskap og breyta fjósinu í hótel, fékk ég enn frekar tækifæri til þess að fá útrás fyrir sérviskuna.“ 

Þá fór að vakna þessi þörf, að gera eitthvað annað og öðruvísi. Þá kom upp hugmyndin um þessa listamannabústaði, eða ‘residensíu’.

Umhverfisvitund og sjálfbærni

„Við breyttum öllum húsum, í staðinn fyrir að byggja nýtt,“ segir Stefán. „Bara það, að breyta og hanna allt umhverfið sjálf passaði vel inn í hugsjónina sem við höfðum, að vera umhverfisvæn í þessari uppbyggingu. Nafn hótelsins, Hótel Natur endurspeglar þessa vinnu.“ Það var ekki bara í byggingunum og byggingarefninu sem hjónin höfðu umhverfið og sjálfbærni að leiðarljósi, en þau hafa til dæmis alltaf verið með eigin moltugerð þar sem allur lífrænn úrgangur fær nýtt hlutverk á sama bletti. Einnig notuðust þau af fremsta megni við vinnuafl og hráefni úr nágrenninu. 

Lítil sena er í salnum og ýmislegt til staðar sem gæti komið til góðra nota fyrir listafólk. Mynd RH

Eftir að hjónunum áskotnaðist jörðin Leifshús, fyrir ofan veginn frá Þórisstöðum, byrjuðu þau á að breyta úthúsum þar, með það fyrir sjónum að nýta þau fyrir hótelið líka. „Þá fór að vakna þessi þörf, að gera eitthvað annað og öðruvísi. Þá kom upp hugmyndin um þessa listamannabústaði, eða ‘residensíu’.“ Það var hlaðan á Leifshúsum sem kveikti undir hugmyndinni. „Ég var búinn að sjá fyrir mér að breyta þessar stóru og flottu hlöðu í gistingu og hér væri hægt að búa til svo og svo mörg herbergi og græða meira, eins og flestir hugsa einmitt.“ segir Stefán. „Þegar við eignumst þetta, var ég svo búinn að ná þeim þroska að sjá að svo yrði ekki. Þegar við höfðum tæmt allt og sáum hvað rýmið bauð upp á, tókum við ákvörðun um að búa hér til sal sem yrði svona fjölnota salur.“

Nú stendur hér þessi fjölnota salur og við erum ofboðslega ánægð með nýtinguna hingað til

Pússaði og nýtti timburgólf úr 300 kinda fjárhúsi

Eftir að búið var að einangra salinn með steinull, kom í ljós að hljóðvistin var mjög góð og það kveikti ýmsar hugmyndir. „Það er eiginlega tvennt sem ég get sett fingurinn á; annars vegar myndband sem ég sá með hljómsveitinni Nirvana, þar sem þeir spiluðu unplugged í huggulegu og flottu hljóðveri, og hins vegar upptökur Memfismafíunnar úr hljóðveri á Kúbu, þar sem allt var viðarklætt,“ segir Stefán. Viðurinn á Kúbu setti tannhjólin af stað og Stefán þurfti ekki að leita langt yfir skammt til þess að útvega sér timbur á veggina í salnum. „Hér hafði verið 300 kinda fjárhús og ég reif upp allt timbrið sem féð hafði gengið á hér í tugi ára,“ segir Stefán. „Þetta var allt þrifið upp vandlega og pússað, sem var gríðarleg vinna. Úr þessu bjó ég til svona panel og einingar. Til þess að hafa fjölbreytni í þessu nýtti ég efnisstranga frá Lauru Ashley sem okkur hafði áskotnast fyrir löngu og lágu niðri í geymslu og klæddi hluta af panelnum með efninu.“ Það sem blaðamanni dettur helst í hug á þessu stigi er að það væri fróðlegt að skoða geymsluna á Þórisstöðum. 

Hér má sjá hvar viðurinn úr gömlu fjárhúsunum mætir litríku efninu frá Lauru Ashley á panelnum. Mynd RH 

Það gefur salnum svolítið forvitnilegan blæ, að skoða veggina og vita að þúsundir kinda hafi komið og farið í heim þennan, trampandi á nákvæmlega þessum við. Vilji Stefáns til þess að nýta og sjá möguleikana í hverju horni er einna bersýnilegastur hérna. Salurinn hefði allt aðra stemningu með nýjum og glansandi spýtum upp um allt. „Nú stendur hér þessi fjölnota salur og við erum ofboðslega ánægð með nýtinguna hingað til,“ segir Stefán. „Hingað hafa komið leikflokkar, hljómsveitir, tónlistarfólk, dansarar og ýmis myndbönd verið tekin upp hérna í kring um fjölbreytta listgjörninga.“ Nýtingarhugsjónininni lýkur ekki þar sem veggirnir enda, en listafólki er boðið að nýta aðstöðuna í Leifshúsum án endurgjalds. „Planið var að hafa umsóknarferli og fara mjög skipulega í að bjóða hingað listafólki, en Covid slökkti á því öllu,“ segir Stefán. Í staðinn fór tilvist listabústaðarins í Leifshúsum að spyrjast út, rólega í fyrstu. Sífellt fleira listafólk fór að hafa samband, nýta sér aðstöðuna og bera staðnum góða sögu til sinna kunningja og kollega.

Myndir af listafolkinu sem hefur heimsótt Leifshús eru komnar í ramma á verkstæðinu. 

Flest nefna það þegar þau fara, hvað það sé dýrmætt að geta verið hér og kúplað sig frá öllu til þess að einbeita sér að listinni

Eins og áður sagði, er aðstaðan í Leifshúsum ókeypis. „Við bjóðum fólki að búa hérna á meðan listsköpun fer fram, nýta salinn og sameiginlegt eldhús,“ segir Stefán. Listafólkið fær fría gistingu, en í byggingu við hliðina á salnum eru átta herbergi með tuttugu rúmum samtals. „Fólk bara kemur, hefur mat með sér og sér um sig sjálft. Flest nefna það þegar þau fara, hvað það sé dýrmætt að geta verið hér og kúplað sig frá öllu til þess að einbeita sér að listinni,“ segir Stefán, en hann sér helst fyrir sér að Leifshús geti skapað rammana fyrir sköpunarfasann. Hér geti listaverkin orðið til í ró og næði. „Við höfum svona óformlega sett þau skilyrði að listamennirnir vinni fyrir opnum tjöldum ef það hentar. Að það mætti til að mynda bjóða skólakrökkum, til dæmis, að koma og fylgjast með listafólki að störfum,“ segir Stefán.

Gefandi að kynnast listafólki

„Persónulega finnst mér gaman að fá að kynnast og spjalla við listafólk á öllum aldri,“ segir Stefán. „Það er mjög gefandi. Ég grínast stundum með það að ég hafi útbúið þennan sal fyrir erfidrykkjuna mína og mér finnst alveg sjálfsagt að sem flestir geti nýtt hann þangað til!“ segir Stefán að lokum. Alltaf með nýtingu hlutanna að æðsta leiðarljósi.

  • Nýjasta verkefni Stefáns og Ingu í Leifshúsum ber nafnið Sælureitur í sveit. Annað viðtal við Stefán um það verkefni og hvar það er statt birtist á Akureyri.net á næstu dögum.