Fara í efni
Mannlíf

„Ef þú kemst ekki í tveggja manna úrslit ...“

Mynd af vef TV4

Birkir Blær Óðinsson var kosinn áfram í sænsku Idol söngkeppninni á sjónvarpsstöðinni TV4 í kvöld, eins og fram kom á Akureyri.net áðan. Hann söng lagið Leave The Door Open sem Bruno Mars og Anderson .Paak sendu frá sér fyrr á þessu ári. Kosningin sem kynnt var í kvöld var hins vegar vegna frammistöðunnar fyrir viku, þegar Birkir söng Coldplay lagið Yellow.

Dómararnir voru hæstánægðir með Birki Blæ sem fyrr og ekki síður áhorfendur; stemningin var slík í salnum að dómararnir ætluðu aldrei að komast að til að hrósa söngvaranum. Það hreinlega trylltist allt af fögnuði þegar Birkir lauk við lagið. Kynnir þáttarins tók þannig til orða að hann hefði aldrei upplifað annað eins í Idol.

Fjórmenningarnir við dómaraborðið hafa aldrei leynt hrifningu sinni á söng Eyfirðingsins unga. Í kvöld kom berlega í ljós að þeir gera fastlega ráð fyrir því að Birkir verða annar tveggja sem keppa í lokaúrslitunum í desember. „Ef þú kemst ekki í lokaþáttinn – í tveggja manna úrslit – látum við tattúvera nafnið þitt á okkur!“ sagði einn dómaranna í kvöld. 

Eftir þátt kvöldsins eru níu keppendur eftir.