Fara í efni
Mannlíf

Dýrgripir úr safni Erlings á Minjasafnið

Oft var líf og fjör sunnan við Kaupfélagshornið svokallaða í miðbænum. Ritstjórnarskrifstofa Dags var í húsinu sem sést í lengst til hægri, Hafnarstræti 90. Handan götunnar var Brauðgerð KEA og kjötbúð, og oft handagangur í öskjunni þegar sækja þurfti vörur eða koma með á staðinn. „Skemmilegt“ slabb á götunni þegar myndin er tekin.

Nýlega barst Minjasafninu á Akureyri mikill fjársjóður, hluti filmusafns Erlings Davíðssonar, sem var ritstjóri Dags frá 1955 til 1979. Þar er að finna margskonar ljósmyndir úr bæjarlífinu á Akureyri.

„Við fengum Ljósmyndasafn KEA árið 1992 og með því hluta af safni Erlings Davíðssonar. Þá vissum við að það var ekki allt safna hans, heldur var mjög mikið af filmum eftir hjá fjölskyldunni og nú fengum við það sem eftir var. Á sínum tíma fengum við um 500 filmublöð og nú bættust 300 við,“ segir Hörður Geirsson, safnvörður ljósmyndadeildar Minjasafnsins við Akureyri.net

„Dagur var framsóknarblað, fyrir kosningar snérist allt um að þjónusta Framsóknarflokkinn en þess utan var sagt frá öllu mögulegu í bæjarlífinu og í myndasafni Erlings er að finna mjög fjölbreyttar myndir af ýmsu sem gerðist á Akureyri á þessu árabili, mjög skemmilegar myndir úr hversdagslífinu,“ segir Hörður.

Hér má sjá fáeinar þeirra mynda sem Hörður hefur skannað upp á síðkastið af filmunum sem nýlega bárust safninu.

Meira á morgun!

Fyrsta göturyksugan! „Á laugardaginn mátti sjá nýtt tæki á götum Akureyrar. Það var göturyksuga sú hin mikla, sem í fyrravor kom, en var ekki leyst úr tolli fyrr en nú og kostar 1.8 millj. króna,“ segir í frétt á baksíðu Dags í apríl 1969. „Ekki kann blaðið á því skil hvað hún skilar afköstum margra hinna gömlu og góðu gatnahreinsunarmanna, en hún sýnist vinna sitt verk vel og veitir ekki af í baráttunni við rykið og annan óþverra.“  

Gamla kirkjan á Svalbarði handan fjarðarins flutt á gömlu kirkjulóðina á lóð Minjasafnsins árið 1970. „Ég hef sáð margar myndir af flutningnum en mér finnst þessi einstök. Það er svo áhugavert að sjá mynd frá þessum stað þar sem flugskýlið sést í fjarska,“ segir Hörður Geirsson.

Síldarsöltun á Akureyri 26. september 1968. Súlan kom „til Krossanesverksmiðju á Akureyri með 200 tonn af síld og 80-90 tonn af sjósaltaðri síld. Krossanesverksmiðja er í bæjarlandinu og verksmiðjan bæjareign, en þessi 200 tonn síldar átti ekki að mala í kvörnum til mjöls og lýsis heldur salta í tunnur, og framleiða á þann hátt fjórum sinnum verðmeiri útflutningsvöru,“ sagði í Tímanum, þar sem þessi mynd Erlings Davíðssonar birtist daginn eftir. Þar segir að 50 síldarstúlkur hafi unnið þennan dag. Þetta var fyrsta síldarútkall sumarsins, sagði Tíminn.

Ný og glæsileg bygging Amtsbókasafnsins á Akureyri við Brekkugötu vígð laugardaginn 9. nóvember 1968. Lengst vil vinstri er Árni Jónsson bókavörður, þá Gíslína Guðrún Friðbjörnsdóttir, eiginkona Bjarna Einarssonar bæjarstjóra, Eiríkur Hreinn Finnbogason borgarbókavörður, Guðmundur Gíslason Hagalín rithöfundur, Steindór Steindórsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri og Gísli Jónsson, menntaskólakennari, sem sæti átti í byggingarnefnd hússins.

Fyrsta klóakdælan sem sett var upp á Akureyri er við Aðalstræti neðan við Minjasafnið og reyndar enn í notkun, að sögn Harðar Geirssonar. Dælan er í steypta kassanum við bekkinn. „Þegar Drottningarbrautin var lögð var vildu menn skiljanlega ekki setja klóakið úr innstu húsunum við Aðalstræti í tjörnina, þess vegna var dælan sett upp og klóakinu dælt út að Höepfner,“ segir Hörður.