Fara í efni
Mannlíf

Dugnaður og samheldni kom KA í úrslit – MYNDIR

Sigurmarkið! Daníel Hafsteinsson með sigurbros á vör eftir að hann gerði þriðja mark KA í bikarleiknum. Andri Fannar Stefánsson er númer 14. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA leikur til úrslita í bikarkeppninni í knattspyrnu annað árið í röð eins og fram koma á Akureyri.net í gærkvöldi. KA fékk þá Val í heimsókn í undanúrslitum keppninnar og vann 3:2 í hörkuleik.

Valsmenn vildu augljóslega vera mikið með boltann og fengu það. KA-menn höfðu í sjálfu sér ekkert við það að athuga; þeir lögðu áherslu á mjög sterkan varnarleik, þar sem frammistaða liðsheildarinnar var til mikillar fyrirmyndar, og vildu sækja hratt þegar færi gafst. 

KA fékk hættulegri færi en Valur, m.a. tvö dauðafæri í blálokin þegar gestirnir settu allt púður í sóknarleikinn en sinntu vörninni nánast ekkert. Þegar grannt er skoðað má reyndar segja að varnarleikur Vals hafi ekki verið upp á marga fiska í leiknum og KA-menn nýttu sér það vel. Öll þrjú mörk liðsins urðu að veruleika þökk sé  dugnaði og krafti leikmanna liðsins, í bland við kæruleysi og sofandahátt gestanna.

_ _ _

KA SKORAR SNEMMA
Fyrsta markið kom strax á 6. mínútu. Daníel Hafsteinsson truflaði Guðmund Andra Tryggvason á miðjum vallarhelmingi Vals þannig að Sveinn Margeir Hauksson náði af honum boltanum, lék inn í vítateig og þrumaði að marki en Fredrik Schram varði. Boltinn hrökk út í miðjan teig þar sem Hallgrímur Mar Steingrímsson hafði ráðrúm til að leggja boltann fyrir sig og skora.

Aðeins mínútu eftir markið komst Ásgeir Sigurgeirsson í ámóta færi og Sveinn Margeir en Fredrik varði aftur og varnarmenn náðu boltanum.


_ _ _

VALUR JAFNAR
Valsmenn jöfnuðu þegar um það bil fimm mín. voru eftir af fyrri hálfleik. Gylfi Sigurðsson tók hornspyrnu frá hægri, boltinn barst út fyrir teig og aftur til Gylfa út á kantinn. Hann átti þá hárnákvæma sendingu inn á markteig þar sem Patrick Pedersen var ákveðnari en Sveinn Margeir og stýrði boltanum í markið.


_ _ _

KA KEMST YFIR Á NÝ
Stundum leyfa menn sér að segja að tölfræði vinni ekki leiki og kannski átti það við í gær. Valur hafði fengið níu hornspyrnur þegar KA fékk þá fyrstu, á síðustu andartökum fyrri hálfleiks. Daníel Hafsteinsson sendi fyrir markið, Ívar Örn Árnason skallaði boltann niður í markteiginn þar sem Jakob Snær Árnason hafði betur í baráttu við Birki Má Sævarsson og Fredrik markvörð; teygði sig af harðfylgi í boltann, og kom honum yfir marklínuna!


_ _ _

SIGURMARKIÐ
Skammt var stórra högga á milli fyrri hluta seinni hálfleiks. Rúmar 10 mínútur voru búnar þegar Guðmundur Andri átti laglegt skot sem small í þverslá KA-marksins en fimm mínútum síðar lá boltinn í marki Vals. Þá voru 62 mín. liðnar.

KA sótti fram hægri kantinn, Sveinn Margeir sendi á Hallgrím Mar við vítateigslínuna og hann renndi lengra til vinstri á Daníel Hafsteinsson sem var í vítateigsboganum. Daníel hafði tíma til að athafna sig og skoraði með hnitmiðuðu skoti neðst í hornið.


_ _ _

FIMMTA OG SÍÐASTA
Ekki voru nema um tvær mínútur frá því Daníel skoraði að gamla landsliðsbrýnið Birkir Már Sævarsson hafði minnkað muninn. Eftir laglegt spil var boltinn sendur fyrir mark KA frá vinstri og barst til Birkis hægra megin í teignum. Bakvörðurinn hamraði að markinu, Steinþór KA-maður hálfvarði boltann en í netið fór hann.


_ _ _

HART BARIST
Enn var hálftími eftir þegar Birkir gerði síðara mark Vals og við tók mikill bardagi. Valsmenn voru áfram mikið með boltann en ógnuðu lítið nema hvað Birkir skaut yfir markið nokkrum andartökum eftir að hann skoraði – úr svipuðu færi. KA-vörnin stóð annars vaktina með sóma og stóðst öll áhlaup gestanna.

Hinum megin fékk Hallgrímur Mar hins vegar tvö dauðafæri en hitti markið í hvorugt skiptið og einu sinni vann Daníel Hafsteinsson boltann á eigin vallarhelmingi, hljóp alla leið að vítateignum með einn Valsmanninn á hælunum og átti bylmingsskot en Fredrik Schram varði mjög vel.


_ _ _

OG SVO VAR FAGNAÐ ...
Mikil gleði braust út meðal KA-manna þegar flautað var til leiksloka og skyldi engan undra. Þeir eru á leið í úrslitaleik bikarkeppninnar annað árið í röð. Hallgrímur Jónasson þjálfari og Elmar Dan Sigþórsson gátu ekki leynt gleði sinni, enda engin ástæða til.

Úrslitaleikurinn fer fram á Laugardalsvelli föstudagskvöldið 23. ágúst. KA mætir annað hvort Víkingi eða Stjörnunni í úrslitaleiknum. Þau leika í undanúrslitum á morgun.

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA og Arnar Grétarsson starfsbróðir hans hjá Val eftir leik. Arnar þjálfaði KA áður, Hallgrímur var aðstoðarmaður hans og tók við þegar Arnar hætti.

Handboltamaðurinn Dagur Gautason, leikmaður ØIF Arendal í Noregi, var á vellinum í gær og brá á leik í fagnaðarlátunum með því að ganga um með Kára bróður sinn á háhesti. Kári var hægri bakvörður í leiknum og stóð sig með prýði eins allir liðsfélagarnir.