Fara í efni
Mannlíf

„Dagurinn ætti að vera hafður í heiðri“

Jonni í Hamborg – Jóhannes Gísli Vilhelm Þorsteinsson.

„Stór dagur fyrir Ísland og ætti að vera hafður í heiðri á Akureyri!“ segir tónskáldið Jón Hlöðver Áskelsson um 13. mars. Hvers vegna er Jón Hlöðver á þeirri skoðun? Jú, vegna þess er þetta er fæðingardagur Jóhannesar Gísla Vilhelms Þorsteinssonar sem var stjarna í íslensku tónlistarlífi skamman tíma laust fyrir miðja síðustu öld.

  • Jóhannes Gísli – jafnan kallaður Jonni í Hamborg – fæddist 13. mars árið 1924. Í dag er því 101 ár frá fæðingu hans og af því tilefni var fjallað um Jonna á Akureyri.net í gær, í vikulegum pistli þar sem eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins er rifjað upp. Tóndæmið um Jonna má lesa hér: Tónlistargoðsögnin Jonni í Hamborg 

„Hér áður voru flottustu afmælisveislurnar haldnar í kaupmannshúsinu Hamborg, gegnt Bautanum, þegar Jonni í Hamborg átti afmæli,“ segir Jón Hlöðver, sem hefur kynnt sér sögu Jonna vel.

„Auk borðanna sem svignuðu af veislukrásum, voru flutt heimatilbúin leikrit, spilað og sungið. Jonni lét ekki sitt eftir liggja og lék jöfnum höndum á píanó og trompet, jafnvel með trompetin í hægri hendi og sló bassann á píanóið með vinstri,“ segir hann og heldur áfram: „Þessi snilld entist honum og fullkomnaðist, þegar hann 22 ára, í apríl 1946, troðfyllti Gamla Bíó tvisvar sinnum á fyrstu jazztónleikum, sem Íslendingur hafði haldið og lék þar með 6 manna hljómsveit, jöfnum höndum á trrompet og píanó.“

Það er vegna þessa sögulega framtaks Jonna, og snilli hans í tónlist, sem Jón Hlöðver telur nauðsynlegt að halda minningu hans á lofti. Jonni lést af slysförum í Kaupmannahöfn þetta sama sumar, í júlí 1946.

Húsið Hamborg sem Jóhannes Gísli Vilhelm Þorsteinsson byggði árið 1909. Mynd: Minjasafnið á Akureyri.

Góðir verslunarmenn og vandaðir

Jón Hlöðver nefnir í leiðinni, sögu kaupmannanna, bræðranna Jóhannesar Gísla Vilhelms (sem Jonni í Hamborg er skírður í höfuðið á) og Sigvalda Þorsteinssona. Móðir þeirra, Sólveig Einarsdóttir, flutti ekkja til Akureyrar úr Skagafirði með drengina kornunga. Þrátt fyrir fátækt í æsku urðu þeir miklir athafnamenn á Akureyri; kaupmenn í Berlín inni í bæ á gömlu „Akureyri“ og víluðu ekki fyrir sér, þegar nýbyggt verslunarhús þeirra brann til grunna árið 1901, að byggja að nýju. „Stundum var sú búð kölluð Sigvaldabúð,“ segir Jón Hlöðver.

„Þeir efnuðust vel á verslun sinni, enda góðir verslunarmenn og vandaðir,“ segir Jón Hlöðver. Síðar byggðu þeir verslunarhús þar sem nú er miðbær Akureyrar, húsin fallegu, Hamborg á horni Kaupvangsstrætis og Hafnarstrætis, og París, steinsnar norðar.

„Jóhannes byggði húsið Hamborg árið 1909 og opnaði þá Verslunina Hamborg. Bróðir hans Sigvaldi byggði húsið París og opnaði þar Verslunina París árið 1914. Bræður, kaupmenn í bróðerni hlið við hlið, annar kallaður Jóhannes í Hamborg og hinn Sigvaldi í París Heyrt hef ég að börnum hafi þótt jafnvel betra að koma til Jóhannesar, því hann hafi oftar laumað að þeim góðgæti, að því er sagt var.“

Jón heldur áfram, í léttum dúr:

Aðra sögu höfðu Akureyrarkrakkar að segja af Gudman kaupmanni sem verslaði í búðinni í húsinu Gudmans Efterfölgere ef eitthvað er að marka húsganginn sem heyrðist sunginn í mínu ungdæmi á öskudaginn, en þar segir um Gudman:

þú lipur varst og laginnað loka á öskudaginn

Hann nefnir líka afa Jonna, Pál J. Árdal þjóðþekkt skáld; höfund fjölda leikrita og ljóða. Hann orti meðal annars þessa vísu:

Ó, hve margur yrði sæll
og elska mundi landið heitt,
mætti hann vera í mánuð þræll
og moka skít fyrir ekki neitt.