Fara í efni
Mannlíf

Dagbækur Sveins: Pétur Havsteen – I

Í dag birtist 27. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk sl. sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur reglulega síðan. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Gefum Unu orðið:
_ _ _

Pétur Havsteen, húsbóndi Sveins, var margbrotinn persónuleiki og því er áhugavert að fylgjast með þróun hans í gegnum dagbækur Sveins. Fyrsta eiginkona hans hét Guðrún og var dóttir Hannesar Stephensen alþingismanns. Þau giftust árið 1847 og áttu saman tvö börn; Hannes og Þórunni. Í þessari grein eru flestar dagbókarfærslur Sveins sem minnast á Pétur og fjölskyldu hans frá 1848 til 1851 teknar saman. Fyrsta færslan er frá deginum sem Sveinn kynntist sýslumanninum en yfir næstu ár urðu miklar breytingar á fjölskyldu og lífi Havsteens sem höfðu djúpstæð áhrif á hann.

12. júní 1848

Norðan hríðinn sama, skánaði þá áleið dag. Við héldum frá Hoftegi og yfir Jökulsá á Trébrúnni sem mjer þókti eitt af þeim mestu stórvirkjum er eg séð hafði – náðum háttum að Kétilstöðum um kvöldið var mjer þar vel tekið með mikkilli viðhöfn BF Sýsl Havstein mætti mér um daginn.

16. júlí 1848

Sólskyn og hiti. Hér vakti allt fólk í nótt, vegna þess að Mad. Havst. var jóðsjúk, um miðjann dag ól hún sveinbarn – hennar fyrsta –; Læknir Hjálmarsen var hér. Eg las “Romaner„ um daginn. Mér er nú farið að batna kvefið og hóstinn, þó er eg hræddur um brjóstveiki í mér, og ekki þoli eg áreynslu.

Pétur Havsteen, húsbóndi Sveins, var margbrotinn persónuleiki og því er áhugavert að fylgjast með þróun hans í gegnum dagbækur Sveins.

30. júlí 1848

Norðangola og gott veður. Eg skrifaði bréf til Rentuk. las og lagfærði ýmislegt fyrir mig. Frammurskarandi blíðlyndis nýt eg alla jafna af húsbónda mínum. Eg leitaði ráða til Hjálmarsens við vesöld minni hann færði mer 4 loða glas með dropum, að inntaka 70–80 þvisvar á dag. Megn kvefsótt geyngur nú og liggur margt folk í henni.

3. ágúst 1848

Sama veður. Við slógum á kinninni. Mad. Havstein liggur; eg reið að Höfða eptir meðölum, sá þar Björgu frændstúlku mína.

9. ágúst 1848

Sunnan gola og solskinshiti. Við þurkuðum og sættum mikið hey á túni Havsteins; barn hans var skýrt Hannes. Hér voru margir herrar og dömur úr nágrenninu við skýrnarveislu.

10. desember 1848

Logn, frost og bjartviðri. Eg gékk með Havstein um dagin að skjóta rjúpur skutum 9. Við þetta litla gaungulag tók eg út, óbærilega kvöl í bakinu sem leggur innanum mig, og frammí bríngsbalirnar, útí mjaðmirnar og ofaní fætur. þáráofan píndist eg um kvöldið af sorg og hugarángri útaf óláni mínu, nl. að hafa farið svo lángt frá ættíngjum og vinum; því þó eg nú hafi feingið þau ágjætustu kjör og komist í stöðu þá sem mest er að skapi mínu, lítur samt út til þess að eg héðanaf ekki géti orðið mínum góða húsbóna að þvi gagni sem vilji minn og skylda útheimta, og að eg megi á næsta vori ef líf mitt dregst þángað til, víkja héðan til að deya hjá ættíngjum mínum ✝ ölgerfa [fölger]

22. desember 1848

Sunnan hlívindi. Eg var við ýmsar skriftir. Havstein píndist óútseigjanlega af tannpínu, sendi eptir Hjálmarsen sem kom og var hér um kvöldið, og dró úr sýslumanni eina tönn (jaxl) og linaði pínan eptir það.

26. desember 1848 – Annar í Jolum

Sunnan gola og blíðviðri. Eg las og lagfærði hluti mína. Havstein fékk tannpínuflog, og dró Hjalmarsen úr honum 1 jaxl, Eg bjó til lítilfjörlega mind af Fiðlu og spilaði á um kvöldið hafði marga “tilheyrendur„ [...], Við drukkum hér púns um kvöldið, ofmikið.

23. janúar 1849

Sunnan frostgola, Eg byrjaði að smíða Gángstól handa Hannesi litla, skrifaði um kvöldið. Eg hef nú mikin bjúg á fótum og eru þeir nú farnir að verða sárir. Mér varð ílt um nóttina fékk mikil uppköst.

16. febrúar 1849 - Afmæli Havst.

Sunnan ofsa kulda stormur. Eg lauk við að gjöra spískamersið brúkanlegt. Afmælisdagur Havsteins; hér vóru Björn á Eyolfst og Hjalmarsen og fl. sem drukku púns frammá nótt. geo rakkdu foa„ikiðma, eldisu pui mua ottni naie [eg drakk ofmikið, seldi up um nott ina].

14. mars 1849

Sunnan gola og sumar bliðviðri. Eg lá í rúmi um dagin vegna pínu fyrir lífinu undir Dreifandi plastrinum. Hannes litli kom fyrst undir bert lopt.

2. apríl 1849

Sunnan gola og sumar blíðviðri. Eg gjörði við 1 stól og innfærði í Copíu bók. Vallanes klerkur kom híngað í hús vitjun (Vigfús Guttormsson) og vildi yfirheira vinnufólk sýslumanns, að undanteknum mér, enn vegna þess að Havst. ekki vildi láta það eptir nema ég væri examineraður líka hvartil klerkur var ófaanlegur varð ekkert af húsvitjuninni hér í húsi, og hentum við gaman að þessu.

15. apríl 1849 - 1 S. eptir Páska

Norðan hríð með frosti, Eg raðaði niður og batt í pakka öllum lagaboðum við “archivið„ fékk géfins hjá húsbónda mínum 1 exemplar af hverri löggjöf sem mér þókti ofur vænt um. [...].

3. júlí 1849

Logn og molla Eg lauk við að skrifa embættisbréfinn, hélt áfram að skrifa prívat-bréf mín. Póstur kom um kvöldið, við Havst. vöktum frama nótt við bréfa umbúnað og að koma þeim í töskuna (:omstka ppuæ mui refbo ittmæ eðmu eittriba øndhu.:) [komst upp um bref mitt með beittri hønd].

6. ágúst 1849

Sama veður. Eg var um daginn að hlaða kúaheyi sýslum, í dag vóru þarí bundnir 53 hestar enn áður komnir 47. Avhi„teinsæ arðibe goi iskaðipa Elgahu érhi, yrirfe itlarla akirso, vosi annhu ljophi ie urtba rui istve„niie [Havstein barði og piskaði Helga hér, fyrir litlar sakir, svo hann hljop i burt ur vistini].

11. ágúst 1849

Sólskin og sunnan gola Eg lagði net og línu, og negldi rámurnar utaná skúrin. Havst. og Magnús komu heim. Elgiha omku eimhæ pturai ie istinavo [Helgi kom heim aptur i vistina].

14. ágúst 1849

Norðan stormur og nokkur rigníng, Eg lá öldúngis rúmfastur með kvöl í öllum kroppnum, og einkum innanum mig í meinlætunum. Eg þykist nú sjá fyrir, að ef ég leggist til leingdar, muni eg ekki eiga notalega eða meðaumkunarsama húsmóðir og muni það með öðru géta flýtt dauða mínum. líka er hér matarverkun og meðferð öll svo miklu verri, ónotalegri og óþokkalegri enn eg hef vanist fyrir norðan, og mun það gjöra sitt til að spilla heilbrigði þeirra sem því eru óvanir.

Einnig er mér alla jafna að verða það óþolanlegra að verða að vera undir valdi vandalauss húsbónda því mér finnst, hvörsu góður sem húsbóndinn er, að eg vera sviptur öllu persónulegu frjálsræði, og að eg sé einsog viljalaust verkfæri í hendi hans, og að eg því ekki géti sýnt neina viðleitni til dugnaðar eða atorku við neitt af egin ramleik.

25. ágúst 1849

Alátta og rigndi um kvöldið. Eg skrifaði ímislegt og vitjaði um línu. Havstein og kona hans riðu með Svendsen og konu hans og fleyra fólki frá Seiðisfyrði sem her var allt í nótt sem leið – uppí Skriðdal. Alþingismenn komu að sunnan. Eg fékk N° 17 og 18 af Þjóðolfi frá Eigli Jonsyni bókbindara.

Frettist að syslum. í Sms. Þ. Jonsson væri settur stiptamtmaður og mundi því Havstein líklega einnig hafa Suðurmúla sýslu í vetur og þókti mér vænt um það því eg mun þá fá nóg að skrifa það eina sem ég gét unnið.

20. september 1849 - Haustm. eða garðl. mán byrj. Heyannir nýa stíls enda.

Sunnan hvassviðri. Eg var við skriftir samt að smíða hurð og hyrða um net. Havstein lofaði mér að ég “skyldi hafa mitt fulla kaup„ þó ég hefði verið heilsulasin. Sra Guttormur á Hofi var um nóttina. Byrjuð fjársöfn.

2. október 1849

Norðan kuldastormur og krapahríð. Eg var að smíða hér ýmisl. í kokhúsinu. Sýslum. talaði vist mína eptirleiðis og lofaði eg að vera, einúngis með því móti að ég væri heilbrigður annars ekki; hann fékk mer uppí þessa árs kaup 20rbd.

18. október 1849

Stilt veður, þikkt lopt fjúk og frost. Eg vo tólg og skrifaði, Jon Guðmundss. for með 2 áburðarhesta ofaná Eskifjörð. Seint um dagin urðum við Havstein veikir af óþolandi höfuðpínu og svima samt hjartslátt, sem eg helt að orsakast hefði af gífurlegum ón hita hér á Contoirnu, og einkum því að við snerum ventilnum fyrir rörið og innbyrgðum þannig hitann og loptið. Eg lá um kvoldið, batnaði um nóttina.

19. október 1849

Logn og bjartviðri. Eg var að innfæra í Copíubækur Norður– og Suðurmúlasýslu. Havstein sagði mer að hann ætlaði að útvega hjá amtinu Constitútion fyrir mig til að halda manntalsþíng í vor í Norðurmula sýslu og að gjöra fleyri sýslumannsverk. Eg setti “rullu=gardínur„ fyrir glugga

29. nóvember 1849

Austann fúlviðri og þoka. Eg var að skrifa umburðarbref til hreppstjora ↄ: reglur fyrir þá. Udrunge goi atrinku lugustfæ ae iu Lluie goi arðvu ikiðme ppui-laupha mui völdiðka emse ysluse-aðurmu karstsæ rjugumdi íe [Gudrun og katrin flugust a i Illu og varð mikið upphlaup um kvöldið sem syslumaður skarst drjugum í].

22. desember 1849

Logn og lítið frost; Veður afarblíðt. Eg smíðaði fyrir husbónda minn sleða til að leika sér á svelli, hjálpaði til að jarna hest og skrifaði útskrift af skiptabók um kvöldið.

20. janúar 1850

Þikkt lopt og frostlítið. Eg sat við að skrifa lángar afksriftir af brefum og fl. viðvíkjandi draugamalinu á Bárðarstöðum. Björn Skúlason var fengin til að skrifa eitt bréf, var það bón til amtmanns um að hann í vor mætti aðstoða husbónda minn við sýslumannsverk. Þareð Havstein hafði lofað mér þessum heiðri, kólnaði heldur en ekki velvild mín til hans.

Havstein bað mig að utvega sér vinnumann að norðan, og bað eg Jóhann Palson og m.m. fyrir það. Eg vakti mikið af nóttinni við að skrifa fyrir mig, fekk höfuðverk.

7. febrúar 1850

Sunnan frosthörku gola. Eg var að ganga í gegnum hreppsgjornínga og fleiri skjöl las um kvöldið í Knytlíngu. Avsth. arðve eiðurru jögme iðvo tulkursu [Havst. varð reiður mjög við stulkur].

14. febrúar 1850

Logn frost og bjartviðri. Eg skrifaði og setti rúður í brotna glugga sem Hannes litli var látin brjóta sér til skémtunar.

15. febrúar 1850

Norðan hríðar fjúk; hér var skiptamót í dánarbúi frá Gunnhildargerði og skipti ég því. Guðbrandur Þorláksson klagaði Egil í Rauðholti sambýlismann sinn fyrir heyþjofnað. Hannes brendi sig á ón.

18. mars 1850

Sama veður, eg var að skrifa í C. Bækur og manntalsbækur, er dálítið orðin hress, erme löskba„aðiri izkane goi iðila„egheitlu ushu„oðurmæ innarmi [mer blöskraði nizka og liðilegheit husmoður minnar].

20. mars 1850 - Jafnd. vorbyrj.

Sama veður, jörð sumarauð og þíð. Eg skrifaði og rölti hér í kríng og útí Beinahvam til að hræra mig. Eg hef nú nokkra daga ekkert kaffe drukkið þareð það er ódrekkandi skólp, og ætlaði eg að hætta því með öllu, enn nú er eg svo kvalinn í húngri að ég verð að fara að drekka það aptur. Allt það sem hér er gott er Havstein að þakka en allt íllt kémur frá konu hans.

31. mars 1850 - Páskadagur

Suðaustan feikna hvassviðri með rigníngu og krapahríð, valla komandi út fyrir dyr. Eg sat og skrifaði póstbréf mín allann daginn. hér var einginn viðhöfn og eingin skémtun. Híngað fréttist að Hafís væri rekin inn á Vopnafjörð og er því talið víst að hann sé við Norðurland.

Eg komst að því að Havstein hefði í vetur sókt um amtmanns embættið nyrðra.

30. apríl 1850

Logn og sólskins hiti. Sigbjörn var hér um daginn að semja fjárheimtureikníng, mikill gestagángur. Sra Sigurður og fl. voru um nóttina. Havstein varð vesæll gat ekki farið að halda uppboð á Hamragérði, gaf Steph. á Ulfsstöðum fullmakt til þess.

3. júní 1850

Sunnan vindur og sólskin. Eg var að skrifa skiptabréf og hjalpa til að búa til beð og setja fræ í allann garð sýslumanns. Havstein fór ofaná Eskifjorð og Stephán á Ulfsstoðum með honum.

5. júní 1850

Sama veður. Eg var að skrifa ýmsar útskriftir. Híngað voru send skipsskjöl frá Petræus & Thomsen á Seiðisfirði til áteiknunar og gjörði ég það eptir húsbonda mins “Ordre„. Bréf komu frá Kmh. til Havst sem Mdman. braut upp og bað mig að lesa, sá eg þá mér til óútsegjanl. gleði að hann er settur til amtmanns yfir Norður og Austur amtið. Einar Þorsteinss. kom með bréf frá Havst til konu hans sem hún gat ekki lesið og sendi hún því 2hʉ af nautakjöti ofaná Eskifjörð í staðin fyrir 2ʉ af the.

8. júní 1850

Norðan kuldi. Eg kepptist við að skrifa utskrift af málum Skula a Bondastöðum. Lokið að hreinsa tún. Farið er að verða orðfleigt um amtmannsembætti Havsteins.

9. júní 1850

Logn og blíðviðri. Eg var allann dagin að skrifa utskriftir og sitthvað annað. Havstein kom heim um kvoldið.

10. júní 1850

Norðan gola og þoka í lopti. Eg skipti búum, skrifaði þínggjaldslista og fl. Havst. bað mig að vera hjá sér ef hann yrði amtm. og fara með ser norður í sumar

11. júní 1850

Norðan fúlviðri Eg samdi og skrifaði fjolda bréfa til amtmanns, syslumanna hreppstj. og fl. Havst galt mer það sem ogoldið var af kaupi mínu 30rbd í peníngum. Um kvöldið komu bréf til Havsteins fra Kmh. með skipi til Djupavogs fékk hann þarmeð veitíngabréf fyrir amtmanns embættinu.

13. júní 1850

Sama veður Eg sat við að semja ýmsa sýslureiknínga um dagin sem fljotlega þurfa að komast af. Í nótt ól husmóður mín meybarn og varð eingum svefnsamt her í húsi, þó gékk það allt fljótt og slisalaust.

3. júlí 1850

Norðan kulda gola og þokufullt lopt. Eg var ýmislegt að skrifa framanaf degi en seinni part dagsins sat eg með öllum höfðíngjum hér af Völlunum í Skýrnarveitslu, var dóttir Havsteins skýrð hér og nefnd Þórun hér var því mikið um dýrðir. Um kvoldið kom Oddur póstur Sverrisson að sunnan.

16. júlí 1850

Logn og sólskin. Eg var asamt Stepháni stúdenti á Úlfsstöðum að uppskrifa og virða bú Havsteins um dagin sem seljast á á uppboðsþíngi aður en hann fer.

21. júlí 1850

Norðan gola þikt lopt og úrkoma. Eg var ýmislegt að skrifa og bera saman með húsbonda mínum. Bréf komu híngað frá Petræus & Thomsen að þeir ætluðu að sigla norður á Eyafjörð á “Tvende Sostre„ og baðust þeir til að flytja Havst. með fólki og fé. Var því strax farið að undirbúa ferðina og pakka saman flutníng.

22. júlí 1850

Norðan stórrigníng, mest þegar áleið. Havstein reið og Gisli með ofaná Eskifjörð til að kveðja þar fólk. Eg var um d. að pakka niður flutníng og var bundið á 11 hesta sem flytja á ofan á Seiðisfjörð á morgun, var þarí flutníngur minn og borgaði eg 3 hestlán undir hann með 3rbd.

28. júlí 1850 - Miðsumar

Sunnan vindur. Eg starfaði af miklu kappi að heðanferð okkar, gat því ekki farið til kirkju eingan kunníngia minn kvaðt. Havst. og frú hans riðu til kirkju enn ég og Gísli urðum að fara með 7 aburðarhesta á undan á stað; fór ég svo alfarinn frá Kétilsstöðum á Völlum í glöðum hug, því þar hefir líf mitt með mörgu móti verið armæðusamt.

Havst og fjöldi vina hans sem fylgdu á leið náðu okkur Gísla á Fjarðarheiði; Við naðum öll háttum á Seiðisfjörð, og fór eg strax með flutnínginn fram í skip og tók til rúmföt okkar og kom fyrir farángrinum í lestinni. Undanfarna daga hefi ég næstum gengið framaf mer við erfiði til undirbúníngs ferðar þessarar.

Um nóttina Kl. 2 letti skipið – Tvende Söstre – atkérum í góðum bir úteptir firði, og fórum við þá öll að sofa. A skipinu vóru auk skipverja sjálfra, kaupmennirnir Petræus & Thomsen og Amtm. Havstein, frú hans, sonur hans og dottir, eg og vinnukonur 2 nl. Björg Hildibrandsdottir og Guðrun Asbjörnsdóttir.

Amtmaðurinn, frúinn og börninn voru í Káetunni, enn hinir passaserarnir, samt kapteinninn og stýrimaðurinn, í afþiljuðu dimmu herbergi fram úr henni.

Eg var þreittur og sofnaði vært, valt þó á ymsar hliðar af ruggi og heyrði bilgjuganginn við skipið.

29. júlí 1850 - Miðsumar

Norðvestan gola og alátta þegar á dagin leið. Eg vaknaði snemma, gékk uppa þilfar, og var þá skipið útaf Borgarfirði. Frúin, stúlkurnar og börnin var allt dauðveikt af sjósótt allan dagin með miklum uppköstum, og amtmaðurinn ekki heilbrigdur. Eg var heilbrigður og kölluðu skipverjar mig því af spaugi “Söhelten„. Við sáum mörg fiskiskip kríngum okkur, og eitt þeirra, franskt, sigldi við hliðina á Tvende Söstre, vóru þará margir menn sem heilsuðu uppá okkur. Um kvöldið sáum við Lánganes, og vórum útaf Strandaflóa þegar við fórum að sofa.

30. júlí 1850

Alátta optast gola á móti eða logn. Við vórum um morgunin utaf Þistilfirði, og komustum lítið áfram um daginn, sjósóttinn viðhelzt og mátti ég þjóna hinum veiku, svo ég ekki gat eins notið skémtunar þeirrar sem ég hafði af sjóferðinni, þó var verst að berjast við keipana í Hannesi litla. Við drukkum Sjampania og höfðum besta matarhæfi, drógum fjölda fiska á handfæri, Eg einn þekkti Valþjófsstaðafjall og Slettufjöllin og Gjeblu.

5. ágúst 1850

Sama veður. Eg lét af hendi flutníng á 10 hesta sem 2 menn foru með útað Frederiksgáfu; síðan reið ég með amtmanni, Jonassen, sýslum. Briem og miklu fl. höfðíngjum út þángað, og tók þá amtmaður Havstein móti embættinu af Jonassen, amtm. bað mig “paa sine Vegne„ að taka á móti archivinu, og afhendti Ari Sæmundsen mér það. Húsið var tekið út og lagt ofaná alla galla. Mer var fengið til íbúðar verelsi í norðurenda á loptinu, contóristavereli kallað. Við riðum aptur að Akureyri.

7. ágúst 1850

Hafgola og sólskin Eg var að leysa farángur okkar og bera inní hús. Amtmaður og fólk hans kom seint um daginn með flutníng á nokkrum hestum og vórum við að koma okkur fyrir í húsinu.

11. ágúst 1850

Sama veður Eg raðaði niður hlutum mínum. Eg og amtm. fóru í kirkju hér var morgum höfðíngjum boðið inn um kvöldið og var hér skémtilegt. Eg uni mér nú mikið vel, og hef ekkert fundið til óhreysti siðan eg fór að austan, og er nú allur bjúgur horfin af fótum mínum.

29. október 1850

Sunnan gola með drífu og hörku frosti. Eg byrjaði að smíða Rúllu og var því að skéra niður og hefla plánka um daginn. Séra Guðmundur í Litladunhaga var hér um kvöldið á tali við amtmann og sat ég því aðgjörðalaus inní í stofu. Eg fékk nýsmíðað rúm að sofa í, enn frúinn fór að sofa í beddanum. Stúlkur fluttu sig uppá loptkamers á suðurenda, og þókti íllt að verða að sofa í kuldanum.

31. október 1850

Sunnan frostgola, jörð hvít af snjóföli. Eg var að smíða Rúlluna um daginn, en skrifa ýmislegt um kvöldið, vakti með amtmanni lángt framá nótt; Hann sefur alla vökuna en þá aðrir fara að hátta vakir hann fram eptir og biður mig að vaka hjá sér.

15. nóvember 1850

Sunnan gola og hláka. Eg var ýmislegt að lagfæra og taka til handargagns um dagin. Contoirin voru öll þvegin. Amtmaður gékk útað Hofi, Sra Guðm. og Lárus á Hofi voru hér um kvöldið. Amtmaður spilaði á flautu, en þeir súngu.

18. nóvember 1850

Norðan gola og hríðarfjúk um kvöldið. Eg byrjaði að smíða borð á verelsi mitt og annað handa herra Hannesi litla. Amtmaður gekk útað Lóni. Eg skrifaði á vokunni.

1. desember 1850 - 1 S. í Jólaföstu, aðventa

Logn og þíða, í nótt hefir mikið tekið af svellum af jörðu og verið góð hláka. Eg málaði borð mitt og smíðaði mér rúllugardínustokka í kamers mitt, bjó til politúr á borð Hannesar og fl. Hannes litli var lasin og var því Olafur Thorarensen soktur til að lækna hann. Eg hljóp á skautum með oðrum hér á hlaðinu. BT A. Sæmundsens, sendi pilt og stúlku.

3. desember 1850

Sunnan gola og frostkali. Eg lauk við að smíða borð Hannesar, reyndi að pólera það en lukkaðist ekki. Hannes var vesæll, menn heldu af kvefi og kverkabólgu og vorum við Gísli því sendir að Hofi um kvöldið eptir meðölum og fékk ég við að gánga það sára tilfinníngu í bakið eins og fyrrum.

4. desember 1850

Sunnan þíðviðri og nokkur rigníng. Olafur Thorarensen var hér um dagin yfir Hannesi er fór vestnandi. Postur kom að sunnan og vóru hér opnaðar bréfaskrínurnar Eg byrjaði að journalisera; feikna mikið kom af embættisbrefum, víða frá. [...].

6. desember 1850

Sama veður. Eg journaliseraði allann daginn lauk því um kvöldið. Nú er ókljúfandi annríki við skriftir og sé ég ekki frammúr því. Magnús póstur var hér. Hannes er veikur og er nú O. Thorarensen að vitja hans að öðru hverju.

8. desember 1850 - 2 S í Jólaf.

Logn og blíðviðri og sumarhlýindi. Gísli var sendur fyrir dag inná Akureyri eptir lækni. Þeir komu um dagin, Læknir kvað barnaveikina (: angina polyposa) vera komna í Hannes og berst nú amtm. ílla af. Eg skrifaði og fæ nú af því mikinn ríg í ulfliðina. Það var messað.

11. desember 1850

Sama veður. Eg képptist við að skrifa og búa um bréf vestur, fékk hrós hjá amtmanni fyrir hvað miklu ég hefði afkastað þessa daga. Magnús póstur fór heðan. Hannes er nu dauðveikur af barnaveiki og eru allir hálfvitlausir útaf því. Olafur Th. var hér uppyfir honum.

12. desember 1850

Logn og frostkali. Eg skrifaði skíkkanir fyrir hreppstjóra í Skagafirði til að taka á móti augl. um dauðsföll. Hannesi er að vestna og var af flestum vakað yfir honum um nóttina.

13. desember 1850

Sunnan frostgola. Eg var að revidera landbúskapartöblur og ýmsa reiknínga. Hannes er nú aðfram komin og var O. Thorarensen her og læknir E Johnsen einnig sóktur. Eg vakti hjá amtmanni frameptir nóttinni sem berst mjög aumlega af.

14. desember 1850

Sama veður. Eg var að skrifa að öðru hverju um daginn. I nótt andaðist Hannes litli og er hér því mikill hrigðardagur í dag. Læknir fór heim til sín. Sjera Guðmundur var her um nóttina. Eptir bón amtmanns vaki eg nú í nótt einn yfir líkinu við stórum lampa meðan ég skrifa þetta.

Nú þykir mér bágt að sjá hvað ílla husbóndi minn berst af og hefir hann valla sinnu á neinu. Jafnvel þó barn þetta væri aðdáanlega vel gjört af höndum náttúrunnar þá gét ég samt valla hrundið frá mér þeirri hugsan, að drengurinn, ef hann hefði lifað, hefði orðið gjörspilltur af því óskynsamlega dálæti sem á honum var haft.

16. desember 1850

Sunnan frostgola. Eg sat við skriftir allan dag framá nótt, vakti svo einn, eptir bón amtmanns yfir líkinu um nóttina var að rita BT N.N.

18. desember 1850

Sunnan frostgola. Eg var svo vesæll af kverkabólgu og kvöl í mér öllum að eg lá í rúmi drakk “hylde the„ og tók inn kamfórudropa eptir ráðum Sra Páls - sem hér var um daginn - og var þakinn niður til að svitna. Briem Sýslum. gysti hér. Nú er mikil sorg her í húsi.

21. desember 1850

Sunnan kafalds hríð. Hannes var jarðsettur og erfi drukkið eptir hann, Hér voru flestir heldri menn úr nágrenninu og var vakað lengi frameptir. Eg var í veizlu þessari.

24. desember 1850 - Aðfangadagur, Jólanótt

Sunnan frostgola þikt lopt og hríðarlegt. Eg lauk við að afskrifa i Journalen. Um kvöldið var Sra Guðmundur hér og spiluðum við og lásum og drukkum púns. Hér í húsi er annars sorglegt og dauflegt. Amtmaður sefur á kvöldin og vaki ég hjá honum. Híngað sofnuðust margir af öðrum bæum og hríngdu um kvöldið, og gaf amtm. þeim 2 brennivínsflöskur. BF Kristj á Laxam. dags. 21 þ.m. mui Smunda-rai-taðasu-ölunase [um Asmundarstaða-söluna].

24. janúar 1851 - Þorri byrjar

Sunnan hláka tók upp mestallann snjóinn. Eg sat við skriftir. Nú er frúin lögst í landfarsótt, og sendt inní kaupstað eptir meðölum.

26. janúar 1851

Sunnan gola frostlaust og blíðviðri. Eg var að skrifa fyrir mig og skrifaði prívat bréf og fl. fyrir amtm. Briem syslum. kom og gysti hér. I vökulök var sendt eptir lækninum því frúnni er að þyngja. Þíngeyrapósturinn kom um kvöldið með ógrinni bréfa.

3. febrúar 1851

Sunnan ursyníngs stormur. Eg skrifaði af kappi allann daginn. Sæmundsen kom til að vera her nokkra daga því nú er annríki mikið, enn amtmaður hálfsturlaður útaf veikindum konu sinnar og sonarmissirnum.

25. febrúar 1851

Sama veður. Amtmaður er nú lagstur rúmfastur í augnveiki og annari vesold útaf sorg og næturvökum. Eg sat hjá honum og las framyfir miðjann dag skrifaði þá BT Factors Johnsens (: hmu atriðss=okattss-paliðm.) [um striðsskatts-malið.] og hljóp með bréf mín að Lóni kom þar í fyrsta sinni. Nú er verið að keyra hér heim svörð á Lóns vagninum.

26. febrúar 1851

Sunnan frostgola og sólskin. Eg var að innfæra í Kb. og lesa fyrir amtmann og fruna sem bæði liggja. - fór að sýna Gísla að lesa dönsku.

27. febrúar 1851

Sama veður Eg fór að smíða gángstól handa Tótu litlu. las um kvoldið.

17. mars 1851 - Fullt t.

Sama veður. Eg var að setja hjól í gangstól Þórunnar, géra að rókk og skrifa og leita að skjölum þess á millum. Sra Páll á Myrká kom aptur og var um nóttina.

20. mars 1851

Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg héldt áfram að skrifa lísíng og virðíng klaustra og konungsjarða úr jarðamatsbókum. Sra Páll var hér, han les sögur fyrir amtmann. Við drukkum púns um kvöldið og frameptir nóttu.

Frúin liggur með sama móti. Barnaveikin er enn að stínga sér niður víða.

24. mars 1851

Sunnan frostgola og sólskin. Eg var að skrifa úr jarðamatsbokum Amtm. reið með Sra Joni á Þrastarhóli inní kaupstað. BF Þ.G. Jónssyni. Amtm. kom heim um kvöldið, var þá frúin með lakara móti og Gísli því strax sendur eptir læknir, hann kom um nóttina og vöktum við eptir honum.

26. mars 1851

Sunnan gola, blíðviðri og solbráð. Eg var að skrifa dýrleika jarða eptir jarðamatsbókum og afskrifa i Journal. Læknir var sóktur framanúr Eyafirði og fór hann. Sra Páll var hér um daginn og nóttina. Frúin liggur enn, og nú þúngt og er amtmaður mjøg sorgbitinn.

17. apríl 1851 - Skýrdagur

Sama veður með smárigníngu. Messað. Eg ritaði BT. Kristj. á Laxamýri um Lagfa málið, sendi vitnisburði þá sem hjá mér hafa verið. Líka játandi svar um Mýrar-jarp. Eg var með skárra móti í dag. drekk nú Hylde-the sem ég keypti á apothekinu, enn ekkert kaffe. Frúin liggur nú þúngt og er sjúkdómurinn snuinn uppí Nervefeber að sögn annars læknisins.

19. apríl 1851

Sama veður lítið dauðafjúk um kvöldið. Eg var með sömu vesøldinni, innfærði í K.b. Johnsen og Skaptasen sátu uppyfir frúnni, sem meir og meir dró af þartil um kvöldið eptir háttatíma að hún andaðist. Hér var ekkert tekið til í húsinu og eru allir hlutir i Forvirring.

Um daginn sáum við hér skip sigla inn eptir fyrði, og um kvöldið fréttist, að það hefði verið Jagt frá Speculant Hansen híngað bárust líka ómerkileg tíðindi um, að Holsetumenn væru kúgaðir og þannig ákominn friður, og að Cholera væri allstaðar hætt að stýnga sér niður á norðurløndum.

20. apríl 1851 - Páskadagur

Norðan kulda gola. Messað; margt fólk. Eg var með sömu vesöldinni fór ekki í kirkju. Það var búið um líkið og borið inní géstastofu. Amtmaður bar sig ílla; hann bað mig enn að nýu að yfirgéfa sig ekki, og kvaðst hið fyrsta mundi flytja héðan búferlum inná Akureyri og bað mig sjá um allt sitt. Amtmaður og læknar báðir riður eptir messu inná Akureyri Gísli og Benidict í bænum vöktu yfir líkinu um nóttina. Hér vóru margir Akureyrarbúar við kirkju um daginn og voru nokkrir þeirra í drykkjuskaparslarki. Eg er nú að kénna Þorsteini Snorrasyni dönsku eptir bón hans.

22. apríl 1851

Norðan kulda gola. Eg lauk við að innfæra i kopíubækur. Skaptasen var her um daginn og nóttina. Mér er heldur að skána. Amtmaður var hreint frá sér numin af sorg. reið útað Lóni. Sra Jon Austmann kom og var um nóttina.

23. apríl 1851

Sunnan gola og sólskin, loptkuldi nokkur. Eg afskrifaði allt í Journalin um dagin. Skaptasen for héðan heimleiðis. Sra Jon Austmann og Sra Guðmundur voru hér um daginn og nóttina uppyfir amtmanni, sem nú verður ekki sansaður fyrir sorg og hjartveiki, og í nótt kom ekki dúr á augu hans og eru menn hræddir um að hann trublist eða verði veikur. Það er nú afráðið að hann hið fyrsta flytji inná Akureyri, og hefir hann leigt sér hús hjá Lækni Johnsen. Eg verð skrifari hans og legg mer til húsnæði fæði og allt hvað ég meðþarf.

24. apríl 1851 - Harpa. Sumard. fyrsti

Sunnan gola sólskin og blíðviðri. Amtmaður fór inní kaupstað og fóru prestarnir með honum, Þórun litla dóttur hans var flutt héðan alfarin inn til Johnsens læknir og for Sigurjóna Laxdahl alfarin með henni. Eg var um daginn að taka í burtu innri gluggana hér í húsinu og ýmislegt að taka til hyrðíngar hér var þvegið í húsinu verelsi um daginn.

25. apríl 1851

Sunnan gola og sólskin. Eg hafði ekkert að starfa nema líta til eins og annars. Amtm og Sra Jon Austmann komu innan úr kaupstaðnum í dag, og var amtmaður með hressara móti. Stúlkur voru að þvo húsið hér innan.

27. apríl 1851

Sunnan gola og sólskinshiti. Eg fór ekki í kirkju en las um daginn inni hjá amtmanni sem nú er farin að bera sig þolanlega. Sra Jón Austmann er altaf uppyfir honum. Eg gékk að Þrastarhóli um kvöldið, fékk af því gamla bakverkinn og innvortis kvölina, gat lítið sofið um nóttina.

30. apríl 1851

Sama veður. I dag var Frú Havstein jörðuð og gjørð vegleg útfaraveitsla, boðsmenn komu flest allir. Sra Guðmundur heldt húskveðju í stofunni yfir líkinu og opinni kistunni, þareptir var kistunni lokað eptir að amtmaður hafði tvívegis kyst líkið, síðan var kistan borin af nokkrum klerkum o.fl. í kirkju og helt Sra Guðmundur líkræðuna þar. Eptir greptrunina var haldin vegleg veitsla hér á salnum og vel drukkið. Um kvöldið fóru flestir boðsmenn heim til sín; Briem Syslumaður og Sra Jon Austm. voru hér eptir um nóttina. Mér batnaði øll vesöld sem ég hef haft að undanförnu í dag, og drakk þó fjarska mikið rauðvín.

2. maí 1851

Sunnan gola og sólskin. Eg bjó um og kom á stað bókaskápa, borð, Sópha, Rúmstæði og Bókakassa og fleyru, sem keirt var með heðan á vagni í tveimur ferðum útað Hörgárós og þaðan flutt sjóveg inní kaupstað og hafði eg mikið fyrir þessu umd aginn. Sigurður Bjarnason kom hér og afhenti ég honum Brún minn aptur og bað hann að koma honum út fyrir eitthvört verð.

Amtmaður er nú inní kaupstað og verður þar til helgar. Sra Guðmundur í Litladunhaga, Sra Jón Thorlacius og Benidict hér í bænum liggja í einhverri veiki og eru sumir hræddir um að það sé Nervefeber.

4. maí 1851

Sama veður. Eg var að lesa Scharlings Verdenshistorie mér til skémtunar. Amtmaður kom að áliðnum dégi, og pakkaði ég strax niður í kofort á 5 hesta af archivinu hið nýasta sem flytja á inneptir á morgun. Eg las framá nótt hjá amtmanni í Vallin; hann er nú farin að gjöra sig rólegann með að innræta sér kristilegt hugarfar, og hugga sig við kristilega trú.

7. maí 1851

Sama veður. Amtm. fór nú alfarinn héðan inná Akureyri og reið Benidict með honum; hann fól mer á hendur allann viðskilnað á húsinu og eigum hans sem eptir verða, samt að láta þvo öll verelsi og var ég með stúlkum í miklu stímabraki við það í dag. Af því Barometrið sé og loptið er regnlegt sendi ég flutníng minn á 2 hestum inná Akureyri í dag.

9. maí 1851

Sunnan vindur og hita sólskin. Eg, Gísli og stúlkurnar Björg og Guðrún fórum héðan alfarin, og læsti eg af húsinu og afhendti Benidict lyklana. Við forum síðan alfarin inná Akureyri. Eg flutti eigur mínar í hús Þorláks múrara, gat samt ekki fengið verelsi mitt, því Gunnarsen býr en í því og til 13 þ.m. sef eg því uppá lopti á meðan. Eg legg mér nú til fæði sjálfur kvöld og morgna, og gengur mér styrðt að kaupa matvæli og það sem þartil heyrir. Middagsmat kaupi ég í smiðjunni og kaffe á eptir fyrir 1m um daginn eða 60rbd 5m um árið og þjónustu a parti; hja Þorl. fæ ég kaffe á morgna 24 bolla ú hverju pundi sem eg legg til.

Guðrún Asbjörnsdóttir for til Havsteins í vist, en Gísli verður á vegum amtmanns hjá Johnsen til hausts og fer þá að læra smíði. Björg, sem ætlar sér að sigla og læra yfirsetukvennafræði, kom sér fyrir hjá Sæmundsen þetta árið til þess að læra danska túngu.

“Gaasen„ sigldi hér á höfn í dag; kom frá Húsavík.

2. júní 1851

Norðan stormur með miklum kulda og hríð svo snjóaði. Eg skrifaði um daginn. Amtmaður lá allann dag í rúminu í þúngsinni og sorg.

3. júní 1851

Norðan kulda stormur og fjúk að öðru hverju. Eg sat við skriftir. Sæmundsen sat lengi hjá amtmanni; menn eru nú hræddir um að hann verði sinnisveikur útúr sorg og leiðindum.

10. júní 1851

Norðan kulda gola. Eg var að afskrifa athugasemdir sýslumanns Arnesens um jarðamat og innfæra í kopíubækur. Amtmaður kom heim seint um daginn. Eg varð að sitja og lesa fyrir hann frameptir nóttu og krefst hann þess nú á hverju kvöldi.

20. júní 1851

Sama veður. Eg sat við skriftir. Þjóðfundarmenn og fl. komu að austan. Sra Jón var hér og mikið mannastapp. Eg frétti lát A. Þórðarsonar, (hann drekkti sér í á neðan Fremstafell trublaður í geði). Eg sókti straks munnl. um umboð hans. og bað Amtm. mig grátandi að hyggja af því og yfirgéfa sig ekki en lofaði mér ábúð á Friðriksgafu og öllu góðu gaf mer einnig hönd sína uppa það að veita mér næsta umboð sem losnaði.

22. júní 1851 - Sólstoður lengst d.

Norðan kuldi Eg sat við sama starf og í gjær hafði litla frítíma. Sra Hallgr. á Holmum kom og fl. Amtm. talaði lengi einilega við mig amo relvs-ordmi etc. [om selvmord etc.] BT m.m. (með Sophoniasi)

9. júlí 1851

Hafgola og sólskin. Eg átti mjög annríkt við skriftir Stephán frá Ulfsstöðum kom hér. Sæmundsen var um tíma settur yfir umboð Arna heitins. en Stepháni var heimugl. lofað því framvegis. Amtmaður lofaði mér jarðnæði framvegis á Friðriksgáfu og jafnvel að byggja mér nýann bæ í túninu.

12. júlí 1851

Sama veður. Eg sat á kontóri. Amtm. vildi fá mig til að sofa hjá sér neðra og gat eg ekki látið það eptir. BF m.m.

23. júlí 1851 - Hundadagar byrja

Sama veður. Amtmaður lá allann daginn í rúminu og vórum við þar því um kjurt og leiddist okkur Gísla mjög. Siggi ólmaðist fullur allann daginn.

29. júlí 1851

Logn hlíindi og molla. Eg var á kontóri að skrifa bréf og innfæra í kopíubækur. las þess á milli fyrir amtmann sem nú er halfsturlaður. - goi alaðita jögmu mua jalfssu-orðmu [og talaði mjög um sjalfsmorð].

 

Orðskýringar

Rd: ríkisdalur

Rbd: ríkisbankadalur

M: mark

S: skildingur

1 ríkisdalur (ríkisbankadalur) = 6 mörk = 96 skildingar

BF: bréf frá

BT: bréf til

M.m.: móðir mín

N.N.: Sigríður Jónsdóttir

þ.m.: þessa mánaðar