Mannlíf
Dagatal prýtt myndum af eyfirskum brúm
13.12.2024 kl. 06:00
Arnór Bliki Hallmundsson, sem lesendur Akureyri.net þekkja af vinsælum og mjög fróðlegum pistlum hans um hús á Akureyri og nágrenni, hefur gefið út dagatal fyrir árið 2025, prýtt myndum af eyfirskum brúm.
Í fyrrahaust sendi Arnór Bliki frá sér bókina Brýrnar yfir Eyjafjarðará og segja má að hann fylgi bókinni eftir með dagatalinu. „Það var í desember í fyrra að það rann upp fyrir mér, að brýrnar yfir ána eru nánast jafn margar og mánuðir ársins, svo þetta væri upplögð hugmynd,“ segir Arnór Bliki. Þá var seint að huga að útgáfu dagatals fyrir yfirstandandi ár, „en ég dreif mig í að ná desembermynd af brú; því ekkert annað kom til greina, en að myndirnar væru teknar í viðeigandi mánuði!“ segir hann.
Dagatalið er gefið út í takmörkuðu upplagi og ekki fáanlegt í verslunum, en Arnór Bliki tekur við pöntunum á hallmundsson@gmail.com eða í síma 864-8417. Dagatalið kostar 3000 krónur, Arnór Bliki afhendir það kaupendum á Akureyri en sendir með pósti út fyrir Akureyrarsvæðið og þá bætist við sendingarkostnaður Póstsins.
HRINGMELSBRÚ
Á myndinni er Hringmelsbrú, 27 metra löng, byggð 1933. Þessi mynd er á forsíðu dagatalsins en önnur mynd af sömu brú er á september síðu dagatalsins. Arnór birtir fróðlegar og skemmtilegar upplýsingar um hverja brú, eins og hans er von og vísa. Um Hringmelsbrú segir hann:
Steinbogabrúin myndarlega á Hólavegi stendur skammt frá bænum Sandhólum vestanmegin og Gnúpufelli austanmegin. Á svipuðum slóðum var áður ferjustaður. Brýrnar tvær, sem reistar voru í Saurbæjarhreppi sumarið 1933, voru vitanlega mikil samgöngubót. Þær þóttu þó e.t.v. lítt gagnast íbúum fremst í hreppnum en það eru um 15 kílómetrar að fremstu bæjum sveitarinnar frá Hringmelsbrú.