Búið að bera kennsl á strákana á hjólinu
Ljósmynd af tveimur ungum drengjum á mótorhjóli sem birtist á Akureyri.net á föstudaginn – Gamla myndin frá Minjasafninu á Akureyri – vakti mikla athygli lesenda.
Nú er staðfest að myndin er tekin á Tjörn í Svarfaðardal skömmu eftir 1930 og drengirnir eru Þórarinn Pétursson og Páll Axelsson.
Dóttir Þórarins, Hallfríður, hafði aldrei séð myndina fyrr en á föstudag en þegar í stað þekkt föður sinn. Hún sendi Akureyri.net eftirfarandi bréf með margskonar fróðleik. Hallfríður gaf góðfúslegt leyfi til að það yrði birt í heild.
„Sæll Skapti.
Það gladdi mig ósegjanlega að sjá myndina af drengjunum sem þú birtir á akureyri.net í fyrradag og birtist líka á FB síðunni Gamlar ljósmyndir.
Hafði aldrei séð þessa mynd áður en þekkti um leið föður minn, hann er sá sem situr aftan á mótorhjólinu. Hinn drengurinn vafðist örlítið fyrir mér. Faðir minn Þórarinn Pétursson (f. 7. des. 1926 d. 27. apríl 1996) er uppalinn þar sem myndin er tekin, á Tjörn í Svarfaðardal, hjá móðursystur sinni Sigrúnu Sigurhjartardóttur og eiginmanni hennar Þórarni Eldjárn bónda og barnakennara. Pabbi fór til þeirra merkishjóna aðeins fjögurra ára að aldri, en þá missti hann móður sína, Þórunni (f. 5. maí 1890 og d. 18. desember 1930) Þær systur voru frá Urðum í Svarfaðardal. Amma mín dó úr lungnabólgu aðeins fertug að aldri frá átta lifandi börnum, sem voru á aldrinum fjögurra til sextán ára.
Pabbi minn var yngstur systkinanna, en þau ólust upp í Skagafirði með foreldrum sínum, síðast á Brúnastöðum í Fljótum. Þau systkinin tvístruðust við móðurmissinn og fóru flest til nákominna ættingja. Föðurbróðir minn Pálmi, sem var þremur árum eldri en pabbi fór líka í Svarfaðardalinn til annarrar móðursystur, sem bjó á Hofi og hét Arnfríður Sigurhjartardóttir (móðir Gísla Jónssonar menntaskólakennara). Ég hélt fyrst að hinn drengurinn á hjólinu væri Pálmi, en var samt efins því aldurinn stemmdi ekki alveg.
Þegar þarna var komið - í ágiskunum á FB - hafði frænka mín Steinunn Hjartardóttir frá Tjörn, giskað á að annar drengurinn væri pabbi minn. Það voru nokkrar vangaveltur um hinn drenginn, svo gerðu aðrar frænkur mínar útslagið. Önnur frænka mín í föðurætt Björg Kofoed Hansen - ekki ættuð úr dalnum – giskaði á þetta væri móðurbróðir hennar Páll Axelsson 2. sept. 1927 - 27. des. 2012. Páll var borinn og barnfæddur Akureyringur, sonur Axels Kristjánssonar og Hólmfríður Jónsdóttir, sem var systir Péturs föðurafa míns. Páll Axelsson og pabbi voru systkinasynir og miklir vinir alla tíð. Mér þykir sennilegast að Hólmfríður og Axel hafi skroppið út eftir í heimsókn á Tjörn og myndin hafi verið tekin við það tækifæri. Þess má geta að elsta systir föður míns María, sem fædd var 1918, dvaldi eftir móðurmissinn hjá Hólmfríði og Axel á Akureyri.
Ég giska á að þessi mynd sé tekin á bilinu 1931 til 1933.
Ef það eru fleiri myndir sem þú heldur að geta tengst þessari væri gaman að hafa spurnir af því.
Með bestu þökkum og kveðju,
Hallfríður Þórarinsdóttir.“
- Akureyri.net birtir vikulega gamla mynd frá Minjasafninu á Akureyri og lesendur hafa sent upplýsingar um langflestar þeirra 156 mynda sem birst hafa til þessa.
- Smellið hér til að sjá allar gömlu myndirnar.