Fara í efni
Mannlíf

„Búðarfundur“ að hætti KEA á Minjasafninu

Frá búðarfundi KEA á árum áður. Vilhelm Ágústsson, starfsmaður félagsins – einn Kennedy-bræðranna svokölluðu – skenkir kaffi í bolla. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri.

Áratugum saman stóð Kaupfélag Eyfirðinga (KEA) fyrir svokölluðum búðarfundum þar sem hópi viðskiptavina hverrar búðar, oftast húsmæðrum, var boðið að koma í búðina eftir lokun þar sem leitað var eftir „áliti þeirra á þeirri þjónustu, sem búðin veitir, og tillögum um það, á hvern hátt megi bæta hana,“ eins og sagt var í þá daga. Þarna voru einnig kynntar nýjar vörur og spjallað yfir kaffibolla.

Starfsmenn Minjasafnsins á Akureyri ætla að bregða á leik í dag og halda búðarfund á ljósmyndasýningunni Hér stóð búð sem nú stendur yfir í safninu. „Á honum ætlum við að segja frá myndunum en ekki síður að hlusta á gestina. Hefur þú sögu að segja okkur?“ er spurt á heimasíðu safnsins.

Fundurinn hefst klukkan 17.00.

„Í leiðinni segjum við frá starfsemi safnsins. Hvað varðveitir safnið marga gripi eða ljósmyndir? Hvað er á döfinni? Þá viljum við heyra hvað safnið gæti gert betur og hvað gestir vilja sjá.“

Aðgangur ókeypis. Að sjálfsögðu verður boðið á upp á kaffi, og meira að segja kleinur!