Fara í efni
Mannlíf

Bragðefnasprengja frá Mexíkó og franskt fínerí

Franskt bistro og mexíkóskur veitingastaður eru meðal þeirra staða sem opna í mathöllinni á Glerártorgi í haust. Myndir: La Cuisine og Fuego

Má bjóða þér bláskel með frönskum? Eða bragðmikla rétti frá Mexíkó? Hvorutveggja verður í boði í nýrri mathöll á Glerártorgi hjá erlendum veitingamönnum sem ætla að koma með ferska strauma til Akureyrar.

Akureyri.net hitti rekstraraðila tveggja veitingastaða sem senn munu opna í mathöllinni á Glerártorgi og fékk nasaþef af því sem þeir ætla að bjóða upp á í mathöllinni. Um er að ræða staðina La Cuisine sem er franskt bistro og Fuego Taqueria, sem býður upp á ekta mexíkóskt taco og quesadillas, en báðir staðirnir finnast nú þegar í Reykjavík. La Cuisine er í mathöllinni á Hafnartorgi og þar er Fuego Taqueria líka, en einnig í mathöllinni á Hlemmi.

Jeronimo og Chuy til vinstri en þeir standa á bak við mexíkóska staðinn Fuego Taqueria.  Til hægri eru Arthur og Javier sem eru mennirnir á bak við franska bistroið La Cuisine

Mathöllin staður þar sem fólk hittist

Hugmyndin á bak við mathöll er að skapa stað þar sem fólk kemur saman. Þar getur fólk sem er með ólíkan smekk hist og borðað saman undir sama þaki,“ segir Jeronimo Cudena, forstjóri Fuego Taqueria, þegar hann var staddur á Akureyri til að líta á aðstæður á Glerártorgi, ásamt meðeiganda sínum og yfirkokki staðarins, Chuy Zarate Espinosa. Báðir koma þeir frá Mexíkó, eru mágar, hafa verið búsettir á Íslandi í nokkur ár og með mikinn áhuga á mexíkóskri matargerð. Við bjóðum upp á alvöru mexíkóskan mat sem á rætur sínar í móðurætt Chuy en hann er maðurinn á bak við allar uppskriftirnar,“ segir Jeronimo. Staðirnir í Reykjavík hafa verið afar vinsælir og fengu eigendurnir nýlega viðurkenningu fyrir „authentic mexican food“ – ekta mexíkóskan mat – en þeir voru fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi til þess að hljóta þau. 

Okkur hefur alltaf langað til þess að stækka og kynna mexíkóska matarmenningu víðar. Þegar okkur bauðst þetta tækifæri til að koma norður fannst okkur það of gott til þess að sleppa því.Við höfum líka heyrt margt gott um Akureyri og fólkið hér, svo af hverju ekki?

Mathallir eru hentugar til hittinga hjá vinahópum því þar getur fólk með ólíkan matarsmekk snætt saman undir sama þaki eða hist í drykk. 

Líflegur matur með miklu bragði

Jeronimo og Chuy segja að Íslendingar séu nokkuð hrifnir af mexíkóskum mat og áhuginn sé í vexti, en þeir ætla að bjóða upp á sama matseðil á Akureyri og er í boði í mathöllinni á Hafnartorgi. Okkur hefur alltaf langað til þess að stækka og kynna mexíkóska matarmenningu víðar. Þegar okkur bauðst þetta tækifæri til að koma norður fannst okkur það of gott til þess að sleppa því. Við höfum líka heyrt margt gott um Akureyri og fólkið hér, svo af hverju ekki?“ segir Jeronimo en í ljós kemur að þeir hafa hvorugur áður komið til Akureyrar. Leist þeim mjög vel á aðstöðuna á Glerártorgi, bæinn í heild sinni og þá ekki síst veðrið, en það var glampandi sólskin þegar þeir hittu blaðamann.

Fyrir þá sem aldrei hafa smakkað mexíkóskan mat lýsa þeir félagar honum sem líflegum, en ekki endilega sterkum. Þá eru réttirnir mjög fjölbreyttir. „Þetta er mjög bragðgóð upplifun sérstaklega blöndurnar sem Chuy hefur búið til. Það er sönn bragðefnasprengja,“ segir Jeronimo. Spurðir að því með hverju þeir mæli af matseðli sínum nefna þeir réttina Al pastor og Gambas. Sá fyrrnefndi er svínakjöt marínerað í adobo, ananas, lauk og kóríander og er að þeirra sögn sá réttur á seðlinum sem er hvað mest mexíkóskur. Vinsælasti rétturinn í Reykjavík er hins vegar Gambas sem eru tempura-tígrisrækjur með ananas salsa, chipotle rjóma, rauðkáli og kóríander.

Fuego Taqueria fékk fyrr á þessu ári viðurkenningu fyrir ekta mexíkóska matargerð á Íslandi. 

Ræturnar í franskri matargerð

Eigendur La Cuisine voru líka staddir á Akureyri sama dag og mexíkanarnir en gaman er að segja frá því að staðirnir eru nágrannar í mathöllinni á Hafnartorgi. Veitingastaðirnir eru þó gjörólíkir því í La Cuisine ræður frönsk matargerð ríkjum með forstjórann Arthur Lawrence Sassi og yfirkokkinn Javier Mercado Alvarado í broddi fylkingar. Báðir hafa þeir búið á Íslandi í meira en áratug en eins og eigendur Fuego þekkja þeir Akureyri ekki sérlega vel, en sjá Iðunni mathöll sem spennandi tækifæri. Okkur fannst þetta spennandi tækifæri til þessa stækka og bæta sýnileikann á vörumerki okkar,“ segir Arthur.

Matseðilinn verður ekki alveg sá sami á La Cuisine á Akureyri og á Hafnartorgi. Arthur lofar því að einkennisréttur þeirra, bláskel og franskar, verði fáanlegur í Iðunni mathöll en reiknar með því að það verði meiri grillréttir í boði fyrir norðan en sunnan. Þessi staður sem við erum að opna hér er minni heldur en sá sem við erum með í Reykjavík svo við verðum að aðlaga okkur að því. Við höfum ræturnar í fínni franskri matargerð en við erum hrifnir af einföldum góðum hlutum” segir Javier.

Frönsk matargerð er fjölbreytt en á veitingastaðnum verður fókusinn settur á matarhefðir frá öllum hlutum Frakklands. Í Frakklandi þá ertu með norðrið með smjörinu og rjómanum, suðrið með ólífuolíunni og chillíinu og þar eru meiri spænsk áhrif heldur en í öðrum hlutum Frakklands. Svo er það riverian þar sem miðjarðarhafsmatur er áberandi og svo er það norðurhlutinn með bláskel og frönskum. Við erum hrifnir að einföldu hráefni en vinnum með andstæður á milli bragða sem gerir upplifunina flóknari,“ segir Arthur og bætir við að á bistro stað þeirra sé glæsileikinn við franska matargerð alltaf til staðar en á sama tíma er þeirra matseld aðgengileg og einföld. Þá sjá þeir einnig fyrir sér að auk fasts matseðils verði líka ýmsir pop up viðburðir hjá þeim á borð við ostruviku sem þeir hafa haldið í Reykjavík og rótering á matreiðslumönnum sem koma inn á staðinn með ferskleika frá Frakklandi eða frönskum veitingastöðum víðsvegar um heiminn. 

Það góða við að vera hér á Glerártorgi er að veitingastaðirnir eru nálægt hver öðrum sem gefur viðskiptavinum góða yfirsýn yfir það sem er í boði á öllum stöðum. Okkur fannst það kostur

Minni mathöll hefur sína kosti

Aðspurðir hvernig þeim lítist á húsnæðið í Iðunni mathöll samanborið við mathöllina á Hafnartorgi segja þeir að þó húsnæðið sé minna þá sé það að sumu leyti skemmtilegra. Á Hafnartorgi Gallery þarf fólk að hafa fyrir því að finna okkur þar sem við erum nokkuð langt frá aðalinnganginum, alveg út í horni svo við þurfum stöðugt að leggja vinnu í að minna á okkur, einfaldlega svo fólk gleymi okkur ekki þar sem við erum svolítið frá hinum stöðunum. Það góða við að vera hér á Glerártorgi er að veitingastaðirnir eru nálægt hver öðrum sem gefur viðskiptavinum góða yfirsýn yfir það sem er í boði á öllum stöðum. Okkur fannst það kostur,“ segir Arthur og Javier bætir við; Staðurinn okkar í Reykjavík er mjög fallegur, með stórum gluggum og við erum með höfnina beint fyrir framan okkur. En gestir okkar þurfa að ganga aðeins lengra til okkar frá aðalsvæðinu, sem hefur bæði kosti og galla, þetta er öðruvísi hérna á Glerártorgi.“ Áður en botninn er sleginn í spjallið við þá félaga er nauðsynlegt að spyrja þá út í með hverju þeir mæli af matseðlinum og stendur ekki á svari: Bláskel og franskar eru einn af mínum uppáhaldsréttum en síðan myndi ég segja steik með frönskum og heimagerði bernaise sósu. Kjúklingasalatið er einnig mjög gott en það er einn af okkar vinsælustu réttum í Reykjavík,“ segir Arthur og Javier tekur undir, og bætir fiski dagsins líka á listann.

Iðunn mathöll á Glerártorgi opnar á haustmánuðum. Þar verður fjölbreyttur matur í boði á sex veitingastöðum. 

Bláskel og franskar. Eigendur La Cuisine mæla með þessum rétti af matseðli sínum.