Bráðum koma svo blessuð jólin ...
Þegar þú vaknar í dag, lesandi góður, munu 54 dagar þar til jólahátíðin gengur í garð.
Haustmyrkrið hefur verið áberandi undanfarið þegar enginn er snjórinn til að lýsa upp skammdegið og þá er gott að grípa til annarra ráða. Ljósameistarar Akureyrarbæjar hafa þegar fest stjörnur í staura við götur í grennd miðbæjarins og tveir gamlir kunningjar eru einnig komnir á sinn stað; stjarnan í Gilinu neðan við Akureyrarkirkju, og Amarostjarnan í Hafnarstræti, göngugötunni, þótt Amaro sé löngu horfið á braut.
Kveikt hefur verið á jólatré við Akureyrarkirkju og víðar í bænum er fólk farið að grípa til lýsinga af þessu tagi. Upplagt að drífa í því áður en allt fer á kaf í snjó; kalla má fegurðina skammdegisljós í bili, breyta heitinu í jólaljós þegar það á við og aftur í skammdegislýsingu eða jafnvel Þorratíru eitthvað inn í nýja árið ...