Fara í efni
Mannlíf

Blóðþrýstingsmæling og hjól til hjartaverndar

Sigurjóna Ragnheiðardóttir og Andrea Björg Hlynsdóttir, nemar á öðru ári í hjúkrun við HA, blóðþrýstingsmæla gesti og gangandi á Glerártorgi. Mynd RH

Hjartavernd Norðurlands stóð fyrir vitundarvakningu, blóðþrýstingsmælingu og þrekhjólskynningu á Glerártorgi á föstudag, í samstarfi við Háskólann á Akureyri og hjólahópinn Akureyrardætur. Fyrir framan Lyfju var stillt upp borði með tveimur blóðþrýstingsmælum, sem nemendur á 2. ári í hjúkrun við HA sáu um, og þrekhjóli sem tveir fulltrúar frá Akureyrardætrum sáu um. „Viðburðurinn er hluti af 'Go red' átakinu, sem er alþjóðlegt árverkniátak fyrir hjartaheilsu kvenna,“ segir Hulda Pétursdóttir, gjaldkeri í stjórn Hjartaverndar á Akureyri. 

 

Hulda Pétursdóttir, gjaldkeri í stjórn Hjartaverndar á Akureyri, Þórdís Rósa Sigurðardóttir og Fanney Jónsdóttir, Akureyrardætur. Mynd RH

Oft er blóðþrýstingurinn aðeins of hár og þá er gott að leita svara, hvers vegna það er

„Akureyrardætur hafa verið ótrúlega duglegar að styrkja okkar samtök, þannig að við getum styrkt áfram, til dæmis með því að kaupa tæki fyrir sjúkrahúsið eða heilsugæsluna,“ segir Hulda „Svo er gaman að hafa þessar ungu konur frá háskólanum að mæla blóðþrýstinginn. Það er líka til þess að vekja fólk til umhugsunar um að spá í því hvað er í gangi í líkamanum. Sem betur fer eru flestir í góðum málum en oft er blóðþrýstingurinn aðeins of hár og þá er gott að leita svara, hvers vegna það er.“

Hjóla fyrir bættri heilsu kvenna

Þórdís Rósa Sigurðardóttir og Fanney Jónsdóttir stóðu vaktina með hjólið, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem Akureyrardætur taka höndum saman við Hjartavernd Norðurlands. „Við leggjum áherslu á að styrkja einhver samtök, og helst einhverja sem vilja stuðla að bættri heilsu kvenna,“ segir Þórdís. „Ein af bestu leiðunum til þess að halda heilsu, er að stunda hreyfingu, og við viljum benda á hjólið sem góðan kost fyrir konur. Oft er erfitt að komast af stað í að ganga eða hlaupa, þar sem þar þarf að bera allan þungann. Sumar konur á miðjum aldri eru kannski að glíma við gigt eða líkamlega sjúkdóma sem gera þeim erfitt fyrir. Þá er hjólið alveg kjörið, þess vegna hægt að byrja á rafmagnshjóli.“

Við leggjum áherslu á að allar geti verið með

„Við erum stundum með svokölluð styrktarhjól, þar sem fólk borgar svolítið fyrir að taka þátt og allt rennur til góðs málefnis,“ segir Fanney „Mottóið er að hjóla í gleði og láta gott af sér leiða. Oftast er mjög vel mætt hjá okkur, í síðasta styrktarhjól mættu á bilinu 60 til 70 manns, bæði konur og karlar.“ Akureyrardætur bjóða líka upp á samhjól, sem er bara fyrir konur. „Þá hjólum við allar saman, engin er skilin eftir. Ef einhver hjólar hægt, þá bara hjólar einhver vön hægt með henni. Við leggjum áherslu á að allar geti verið með.“ Besta leiðin til þess að fylgjast með félagsskapnum er að fylgjast með Facebook síðu Akureyrardætra.

„Mig langar að ítreka mikilvægi þess að hreyfa sig,“ segir Hulda Pétursdóttir hjá Hjartavernd Norðurlands að lokum. „Hjólið er frábær leið, en öll hreyfing er góð.“

Hjartavernd Norðurlands er hvorki með heimasíðu, né á Facebook, þó að Hulda segi að það standi vonandi til bóta.

Ef einhver vill styrkja starfið eru hér reikningsupplýsingar:
Reikn. 162-26-12160
Kt. 491089-1649