Fara í efni
Mannlíf

„Bía er algjör negla í lifandi flutningi“

Jóhannes Ágúst Sigurjónsson, einn af höfundum og framleiðandi lagsins Norðurljós, í Söngvakeppni sjónvarpsins. Mynd: aðsend

„Keppnin leggst vel í mig og það er sjúklega spennandi að sjá Bíu taka lagið á sviðinu á laugardaginn,“ segir Akureyringurinn Jóhannes Ágúst Sigurjósson, en hann er einn af höfundum lagsins Norðurljós, einu af tíu lögum í Söngvakeppni sjónvarpsins í ár. Hann hlakkar mikið til að sjá lagið sitt á sviðinu, en flytjandinn, Beatriz Roque Aleixo, kölluð Bía, var í Idolinu í fyrra. „Hún er algjör negla í lifandi flutningi, með svakalega kröftuga og nákvæma rödd. Mörgum finnst lagið vera með 'Disney' hljóm og innanhúss á Rúv er þetta kallað Frozen lagið! Þetta er alveg smá svona norðurljósa og prinsessu stemmning,“ segir Jóhannes.

  • Þrjú „Akureyrarlög“ taka þátt í Söngvakeppninni í ár; auk Norðurljós, eru það Eins og þú, í flutningi Ágústs Þórs Brynjarssonar og Þrá, sem Akureyringurinn Tinna Óðinsdóttir flytur og samdi ásamt Rob Price. 
  • Akureyri.net fjallar sérstaklega um lögin þrjú, Hér má finna umfjöllun um lag Ágústs, en lagi Tinnu verða gerð skil í næstu viku, þar sem hún stígur á svið á seinna úrslitakvöldi, þann 15. febrúar.
  • Ágúst og BIA keppa á fyrra undanúrslitakvöldinu næsta laugardagskvöld, 8. febrúar.

 

Jóhannes samdi lagið ásamt Bíu, Kristrúnu Jóhannesdóttur og Jóni Arnóri Styrmissyni. „Kristrún er líka frá Akureyri, en við höfum verið að vinna lög saman í stúdíói og erum að búa til R&B plötu fyrir hana,“ segir Jóhannes. „Hún er snilldarhöfundur og hefur meðal annars verið að semja hjá útgáfufyrirtæki í New York. Ég minntist á þetta verkefni við hana og hún gekk til liðs við teymið og skrifaði megnið af textanum.“

 

Kristrún Jóhannesdóttir er efnileg, ung tónlistarkona frá Akureyri, en hún er í höfundateymi lagsins Norðurljós. Myndir: T.v. Aðsend mynd/ Stefanía Linnet. T.h. Á sviði á Græna hattinum í júlí 2024 með sönghópnum Fused. Facebook/Björn Jónsson

„Bía heyrði í mér stuttu fyrir keppnina og spurði hvort ég gæti græjað með henni lag fyrir Söngvakeppnina,“ segir Jóhannes. „Hún var alveg klár á því að þemað í laginu yrðu norðurljósin. Mitt hlutverk sem framleiðandi og meðhöfundur var að reyna að halda í fegurðina í þemanu en stækka það um leið og gera þetta aðeins meira grand og öflugt. Auk okkar koma Kolbeinn Egill, kærasti Bíu og Jón Arnór, vinur þeirra, líka að textagerð lagsins og ensku þýðingunni.“

Hér má hlusta á lagið:

Lifandi flutningur: