Fara í efni
Mannlíf

Bensín í olíutankinn föstudaginn þrettánda

Tómas Leifsson býður konfekt, Ari Gunnar Óskarsson brosir til viðskiptavinanna. Þjónustulundin fær útrás. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Annar er þekktur skíðakappi sem nú er kominn á eftirlaun, Ólympíufari úr fortíðinni sem fer auðvitað í fjallið til að njóta þess að skíða og þeim ferðum fjölgar örugglega núna þegar hann hefur lokið störfum. Hinn er ástríðufullur og fórnfús faðir með alvarlega hokkíbakteríu, liðsstjóri eða tækjastjóri sem fylgir hokkíliðunum frá Akureyri og einhverjum af landsliðum Íslands út og suður, tryggir að búnaðurinn virki og sinnir öllu því sem þarf í kringum hokkílið.

Versluninni lokað

Þeir hafa verið vinnufélagar við Hörgárbrautina í um fjögur ár, en nú hefur versluninni þar sem þjónustulund þeirra fékk útrás verið lokað. Tíðindamaður Akureyri.net leit við í spjall og nokkra konfektmola hjá Tómasi Leifssyni og Ara Gunnari Óskarssyni síðasta daginn sem verslunin í hinum endanum hjá AK-inn var opin. Ari skellti í lás kl. 18 fimmtudaginn 30. nóvember.


Tommi Leifs lagði sig fram við að koma konfektinu út. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Annar þeirra verður áfram í vinnu við alls konar þjónustu í kringum Orkustöðvarnar, en hinn er farinn á eftirlaun og verður að líkindum enn tíðari gestur í fjallinu, „ef það verður einhver vetur, það þarf náttúrlega snjó,“ eins og Tommi orðar það þegar talið berst að því hvað hann muni taka sér fyrir hendur.

Skíðakappi og hokkífaðir

Tómas Leifsson er vel þekktur meðal Akureyringa og víðar því hann var einn besti skíðamaður landsins á áttunda og níunda áratug liðinnar aldar, fulltrúi Íslands á Ólympíuleikunum í Innsbruck í Austurríki 1976, svo eitthvað sé nefnt. Tommi hefur starfað við Hörgárbrautina í fjögur ár. Hann kvíðir engu þótt starfsferlinum sé lokið, reiknar með að vera tíður gestur á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli og leggja sitt af mörkum eftir því sem þörf er á. „Já, ég held það, ég verð í einhverju sjálfboðaliðastarfi ofar í firðinum,“ segir hann. „Ég hef aldrei starfað neitt sem þjálfari, en það er alltaf þörf fyrir hendur í alls konar störf,“ segir Tommi. Hann hefur til dæmis unnið við alla Andrésarleikana og ætlar sér að halda því áfram.

Ari Gunnar Óskarsson hefur starfað við Hörgárbrautina frá 1998, hjá nokkrum vinnuveitendum, hefur fylgt með þegar breytingar hafa orðið og nýir rekstraraðilar tekið við. Starfsaldur hans í eldsneytisbransanum er reyndar orðinn um það bil 27 ár því hann vann hjá Skeljungi í Reykjavík 1996-98, áður en hann hóf störf við Hörgárbrautina. „Ég er búinn að hrekja af mér ansi marga,“ segir Ari um dvölina við Hörgárbrautina. „Ég hef verið með fjóra vinnuveitendur, það eru Skeljungur, 10-11, HP veitingar og Hörgárbraut.“

Toppmenn, toppþjónusta

Það virðist vera einróma álit viðskiptavina að þarna séu fyrirmyndar starfsmenn á ferð, tveir höfðingjar heim að sækja og þjónustulundin upp á tíu. Þegar Akureyri.net sagði frá því á fimmtudagskvöld að versluninni hafi verið lokað í síðasta sinn og deildi fréttinni á Facebook voru athugasemdirnar á einn veg.


Á meðan á heimsókninni stóð bar að garði fyrrum starfsmann við Hörgárbrautina, Árna Arnsteinsson fyrrum bónda í Stóra-Dunhaga. Fagnaðarfundir, konfekt og spjall. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Toppþjónusta hjá þessum piltum.

Var alltaf gaman að koma þarna og hitta þessa höfðingja.

Frábærir starfsmenn.

Brjálaður ... 27 ára viðskipti.“

Topp menn alltaf gott að versla þarna.

Fékk dísel, borgaði fyrir Ópal

Rúmur aldarfjórðungur er langur tími í viðskiptum og breytingarnar á þjónustunni eru ansi margar. „Þá dældi enginn sjálfur,“ segir Ari um starfið fyrir aldarfjórðungi. „Þú dældir á alla bíla. Það komu dagar sem við dældum sjálfir yfir 20 þúsund lítrum af eldsneyti. Þá vorum við líka að selja rafgeyma, viftureimar, þurrkublöð og vorum að setja saman gasgrill og fleira dót.“

Yfirleitt voru þó aldrei fleiri en tveir á vakt í einu, mest þrír yfir stórar ferðamannahelgar. Lengi vel bara einn afgreiðslukassi. Einn inni að afgreiða og tveir úti að dæla þegar mikið var að gera. Á þeim tíma var líka slegið inn í kassann magn, eða lítrafjöldi, og svo hvaða tegund af vöru var verið að afgreiða. Auðvitað urðu einhvern tíma mistök og Ari minnist þess að hafa fengið símtal frá manni í Reykjavík sem hafði verið að kaupa hjá þeim eldsneyti, en var ekki sáttur við reikninginn.

Upphæðin var reyndar næstum rétt, en sá sem var að afgreiða hafði stimplað inn 30 einingar, sem áttu að vera lítrar af olíu, en óvart skráð og rukkað manninn fyrir 30 Ópalpakka. Það var nánast sama verð á olíunni og þessari vöru þannig að við skulduðum honum 30 kall,“ segir Ari. Maðurinn var hins vegar á því að það þýddi lítið fyrir hann að fara með nótu upp á 30 Ópalpakka í bókhaldsdeild fyrirtækisins.

Horfði of mikið á konuna

Það hafa allir lent í því,” segir Ari þegar spyrillinn játar að hafa á unglingsaldri lent í því að dæla bensíni á díselbíl og reyndar haft þær málsbætur að bílnum hafði verið lagt við rangan tank og óskað eftir dælingu. Ari fullyrðir að nánast allir sem hafa unnið hjá honum í gegnum tíðina hafi lent í því að dæla röngu eldsneyti, „kannski einn eða tveir sem hafa ekki gert það,“ bætir hann við.

Tommi horfði kannski of mikið á konuna og dældi bensíni á dísilbílinn, þó ekki þennan. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

„Fljótlega eftir að ég byrjaði var þjónustulundin alveg að yfirkeyra mann,“ segir Tommi. „Kannski horfði ég of mikið á konuna og setti bensín á díselbílinn hjá henni. Hún komst hérna rétt fyrir hornið. Það var alveg skelfilegt.“

Föstudagurinn þrettándi

Svo kom einu sinni fyrir að olíubílstjórinn afgreiddi vitlaust eldsneyti, hann setti bensín á díseltankinn,“ segir Ari. „Það var þannig, þetta var föstudaginn þrettánda, föstudaginn 13. júlí 2001. Þá var hringt í mig og sagt að það kæmi bara bensín úr díseldælunum,” segir Ari. Fyrstu viðbrögðin voru: „Strákar, það á að láta mann hlaupa 1. apríl, ekki föstudaginn þrettánda!“

Þetta óhapp gerðist þannig að olían kláraðist úr tankinum við Hörgárbrautina, Ari hringdi í umboðið og sá sem sá um að redda málunum fór einfaldlega í rangan stút eða rangan tank í Krossanesi, fyllti tankbílinn af bensíni og setti í díesltankinn við Hörgárbrautina. „Þetta var sumarstrákur, nýbyrjaður. Hann tók bara vitlausan stút,“ segir Ari.


Olían kláraðist úr tankinum, Ari Gunnar þurfti að hringja í umboðið og panta meira, en það gekk ekki snurðulaust fyrir sig enda föstudagurinn þrettándi þann dag. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

En mistökin uppgötvuðust ekki strax, fyrst um sinn væntanlega vegna þess að einhver díselolía var eftir í leiðslunum, en síðan eftir 20-30 afgreiðslur kom hið sanna í ljós. „Þarna urðum við bara að loka, það varð að dæla upp úr tankinum. Við fórum bara að finna út hverjir voru að versla og hringja í þá. Einn var kominn í Staðarskála og svaraði: „Það er ekkert að mínum bíl.“ Þá hefur hann verið framarlega í röðinni og það hefur verið díselolía í leiðslunum.“

Traustvekjandi menn

Það eru svo margir, bæði karlar og konur, sem maður þekkti og kynntist og fólk bara afhendir manni kortið og segir manni leyninúmerið á kortinu og maður bara dælir. Það er ótrúlega mikið traust sem fólk sýnir manni, segir Tommi.

Margir komu við í kaffi og spjall hjá þeim félögum, hvort sem fólk átti erindi til að kaupa eitthvað ákveðið eða ekki. Þeim er treyst og trúað fyrir ýmsu og taka undir það þegar þeir eru spurðir hvort þeir hafi líka verið í hálfgerðu sálfræðistarfi eins og barþjónar. „Fólk trúir okkur fyrir ansi mörgu sem við viljum kannski ekki nefna,“ segir Ari að lokum og það er góður tímapunktur til að ljúka spjallinu.