Bekkur á lóð HA í minningu Óla Búa
Fjölskylda Ólafs Búa Gunnlaugssonar, sem lengi starfaði við Háskólann á Akureyri, færði skólanum í gær forláta bekk að gjöf í minningu Óla Búa. Bekknum hefur verið komið fyrir á lóð skólans, steinsnar frá Íslandsklukkunni.
„Stundum var haft á orði hjá okkur í fjölskyldunni að Háskólinn á Akureyri væri þriðja barnið hans, svo umhugað var Óla um velgengni skólans. Óli naut þess að fara í vinnu á hverjum degi og hún gaf honum margar og góðar stundir. Og eins hafði hann oft á orði hve marga góða og trausta vini hann ætti hér,“ sagði Agnes Jónsdóttir, ekkja Óla Búa, þegar bekkurinn var afhentur.
Vann af ástríðu ...
„Til minningar um Ólaf Búa Gunnlaugsson sem vann af ástríðu að uppbyggingu og rekstri Háskólans á Akureyri,“ er grafið á bekkinn.
Óli Búi, sem lést 2019, var kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri, síðar kennari og fagstjóri við Verkmenntaskólann en lengst af starfaði hann við HA, fyrst sem framkvæmdastjóri og síðar forstöðumaður fasteigna.
Agnes sagði í gær að þegar fjölskyldan ákvað að kaupa bekkinn hafi ekki annað komið til greina en fá að setja hann niður við skólann, á stað þar sem væri útsýni að Íslandsklukkunni og yfir Eyjafjörð. Leyfi skólayfirvalda hafi verið auðfengið „og því erum við hér á þessum stað í þessu fallega veðri, til að heiðra minningu Óla Búa og búa til stað þar sem bæjarbúar og gestir okkar geta sett sig niður, hvílt lúin bein og notið útsýnisins. Eins er þetta upplagður staður til að setjast niður, hugsa til Óla og eiga notalegt spjall. Því eins og mörg ykkar vita þótti Óla afskaplega gaman að spjalla við fólk og ég hugsa að það hafi ekkert breyst,“ sagði Agnes.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, tók við gjöfinni og tók í sama streng og Agnes; Óli Búi hefði haft afar gaman af því að spjalla og ósjaldan hefði fundist lausn á viðfangsefnum af öllum mögulegum toga í slíkum samtölum. „Hér verður gott að setjast niður og spjalla – og leysa málin, að hætti Óla Búa,“ sagði rektor.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, ávarpar fjölskyldu Óla Búa og aðra viðstadda. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Kaffispjall! Ólafur Búi Gunnlaugsson og Haraldur Bessason, fyrsti rektor Háskólans á Akureyri, þegar starfsmenn HA kvöddu Harald árið 2003 áður en hann flutti til Kanada á nýjan leik. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson