„Bára, hvað varst þú eiginlega að panta?“

Plöntuáhugafólk á ferð um Tenerife smyglar gjarnan afleggjara af plöntu til landsins sem gengur undir nafninu Paradísarfuglinn. Þessi fallega planta lenti hins vegar alveg óvart inn á gólfi hjá blómabúðinni Býflugan og blómið á Akureyri. Þar hefur hún vakið mikla athygli enda þriggja metra há og með glansandi trópískum blöðum.
„Það eru margir sem kannast við þessa plöntu, einmitt frá Tenerife, og þess vegna fórum við að selja fræ af henni því fólk var svo mikið að spyrja um hana. Ferðalangar hafa líka verið að taka afleggjara með heim á ferðalögum sínum, en fólki tekst alls ekki alltaf að koma slíku til,“ segir Bára Magnúsdóttir þegar blaðamaður Akureyri.net heimsótti hana og eiginmanninn Stefán J.K. Jeppesen í blómabúð þeirra hjóna, Býflugan og blómið, til að forvitnast um þriggja metra háa trópíska plöntu sem stendur út á gólfi í miðri blómabúðinni. Hjónin viðurkenna að þau hafi aldrei haft jafn stóra plöntu í búðinni en í rauninni endaði hún hjá þeim fyrir algjöra slysni.
Strelitzia plantan vex víða á Tenerife og margir ferðalangar smygla afleggjara af henni með sér heim. Mynd: SNÆ
- Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Skattsins, skatturinn.is, er innflutningur blóma og annarra plantna almennt háður því að þeim fylgi heilbrigðisvottorð frá opinberum aðila sem hefur eftirlit með plöntusjúkdómum í ræktunarlandinu, auk þess sem leyfi Matvælastofnunar er áskilið.
- Þó er ferðamönnum heimilt að hafa meðferðis vönd með afskornum blómum og greinum, blómlauka og rótar- og stöngulhnýði frá Evrópu í órofnum verslunarumbúðum og einstakar pottaplöntur frá Evrópu.
Dýr mistök
„Við gerum oft mistök en þetta eru kannski okkar stærstu mistök stærðarlega og verðlega séð,“ segir Stefán og hlær. „Við kaupum blóm og plöntur beint af uppboðsmörkuðum í Hollandi og fáum daglega lista yfir það sem er í boði hverju sinni. Ég var að vinna við blómapöntun þegar ég hlýt að hafa verið truflaður. Ég hakaði a.m.k. í vitlausa línu án þess að gera mér grein fyrir því og þrátt fyrir að þurfa að staðfesta valið nokkrum sinnum gerði ég mér ekki grein fyrir mistökunum. Þegar ég mætti út á flugvöll til að ná í blómasendinguna var ég alveg grunlaus og vissi ekkert hvað var í þessum stóra kassa sem stóð langt út úr bílnum en ég varð að taka hann með,“ segir Stefán og Bára tekur við; „Honum datt ekki í hug að hann hefði gert mistök heldur reyndi að koma þessu á mig því það fyrsta sem hann segir þegar hann kemur til baka með sendinguna var: „Bára, hvað varst þú eiginlega að panta?“ Þegar við opnuðum kassann kom svo þessi netta stofuplanta í ljós“.
Mistök geta verið skemmtileg. Stefán segist í fyrstu hafa vonast til þess að selja plöntuna á vinnustað með góðu plássi en svo hafi plantan, sem þau kalla í gríni Feilhildi, gert svo mikla lukku í blómabúðinni að þau hafi ekkert verið að ýta á eftir því að hún seldist. Mynd: SNÆ
Blómin eins og fuglshaus
Umrædd planta heitir Strelitzia. Hún kemur upphaflega frá Suður Afríku og gengur undir nafninu Paradísarfuglinn (Birds of paradise) vegna blómanna sem hún ber. „Einu sinni á ári, yfir háveturinn blómstrar hún appelsínugulum blómum sem eru eins og fuglshaus í laginu. Hver blómstrandi leggur er um 1,20 m á hæð og umfang blómsins getur verið um 15 cm frá goggi og niður að legg. Hvert blóm blómstrar eiginlega tvisvar þannig þú þarft að hjálpa til við að ná í seinna blómið inn í gogginn. Blómið stendur lengi, alveg í góðan mánuð en það er þó ekki fyrr en á sjötta eða sjöunda ári sem plantan fer að blómstra,” segir Bára.
Paradísarfuglinn er fallegur í blómvendi og á konudaginn, sunnudaginn 23. febrúar, verður blómið fáanlegt hjá Býflugunni og blómið. Mynd: SNÆ
Hefur gert mikla lukku
Þegar plantan kom í verslunina til Stefáns og Báru síðasta sumar, var hún um 2,5 metra há en er komin upp í 3 metra núna og búin að bæta við sig blöðum. „Ég sá fyrir mér að ég myndi reyna að losna við hana á einhvern stóran vinnustað með góðu plássi, kannski í nýju flugstöðvarbygginguna eða álíka, en allavega þá hefur hún bara gert svo mikla lukku hér inn á gólfi hjá okkur að við höfum alls ekkert verið að ýta á eftir því að losna við hana. Hún gefur versluninni svip og fólki finnst gaman að sjá svona stóra framandi plöntu. Þannig að mistök geta alveg verið skemmtileg,“ segir Stefán. Plantan virðist líka kunna vel við sig í versluninni þrátt fyrir að vera þar ekki í beinni birtu. „ Hún þarf góðan loftraka svo við erum svolítið að úða hana og svo fær hún nokkra lítra af vatni á viku. Hún virðist sátt við aðstæðurnar og hefur sprottið hratt í versluninni, þó ekkert gróðurljós sé á henni. Hún er hins vegar ekkert farin að gera sig líklega til að blómstra, kannski eru birtuskilyrði ekki næg,“ segir Bára.
Á MORGUN – PLÖNTUR ERU ALLTAF PUNKTURINN YFIR I-IÐ