Baðstofustemning á Tenerife
Akureyringarnir Snæfríður Ingadóttir og Matthías Kristjánsson lifa hálfgerðu útilegulífi á Tenerife þar sem þau eru að gera upp gamalt hús. Stutt er síðan þau fluttu inn í húsið, sem er þó langt frá því að vera tilbúið.
Akureyri.net hefur fylgst reglulega með gangi mála í vetur hjá þeim hjónunum sem keyptu hús í niðurníslu á norðurhluta Tenerife sem þau hafa verið að koma í stand í vetur.
FYRRI GREINAR:
- Keyptu hús sem ekki er til á Tenerife
- Hústökufólk- martröð allra húseiganda
- Gamlir hlutir og ósvaraðar spurningar
Vaskað upp utandyra. Það er enn útilegubragur á lífinu í húsi Akureyringanna á Tenerife.
„Eins oft vill verða í framkvæmdum þá standast tímaáætlanir ekki alltaf, þannig að þegar við fluttum hér inn fyrir rúmum mánuði síðan þá var til dæmis enn ekkert heitt vatn hér né sturta. Nú erum við reyndar komin með gashitara fyrir vatn og komumst í sturtu en við eldum aðeins á einum gasloga og uppvaskið fer fram utandyra svo það er enn þó nokkur útilegubragur á þessu hjá okkur,“ segir Snæfríður þegar Akureyri.net heyrði í henni hljóðið.
Matthías hlóð sturtuklefa á baðherbergið og Snæfríður flísalagði hann með fjörugrjóti.
Sofa öll í einu herbergi
„Svo er þetta líka eins og í baðstofunni í gamla daga, þar sem allir sváfu saman í einu herbergi. Þannig er þetta hjá okkur í augnablikinu, við sofum öll í kojum í litlu herbergi. Það hefur kannski verið ein stærsta áskorunin,“ segir Snæfríður og bætir hlæjandi við að þau hjónin hafi sagt við dæturnar að þau muni taka þátt í sálfræðikostnaði ef á þarf að halda síðar á lífsleiðinni. „En að öllu gamni slepptu þá hefur þetta alls ekki verið eins hræðilegt og þetta hljómar, en vissulega höfum við hjónin fengið meira en ráðlagðan dagskammt af unglingaveiki. Fyrri kynslóðir lifðu þó svona nálægð vel af og við reynum að segja dætrunum það þegar þær hafa fengið nóg af nálægðinni við okkur foreldrana. Við erum að vinna í öðru svefnherbergi svo þetta er bara tímabundið ástand.“
Fjölskyldan sefur öll í sama herbergi í augnablikinu og hefur það reynt á fjölskyldulífið. Annað svefnherbergi er þó í vinnslu.
Allt unnið með handafli
Hvað varðar framkvæmdirnar í húsinu almennt þá segir Snæfríður að nánast allt hafi farið á annan veg en upphaflega var áætlað. Engu að síður hefur ferlið þokast áfram og verið mjög lærdómsríkt. „Við ætluðum upphaflega að byrja á því að taka gestahúsið, um 20 fermetra rými, í gegn, en þegar byrjað var að eiga við húsið kom í ljós að það vantaði sökkla á parti og gustaði undir veggina. Það þurfti því að steypa ekki bara nýtt gólf í húsið heldur líka sökkla. Þá var í millitíðinni farið í það að breyta gamla eldhúsinu í aðal húsinu í svefnherbergi til þess að við gætum flutt inn. Helstu breytingar á upphaflegum áformum okkar eru þær að við héldum við að við myndum vinna hér meira með vélum en raunin hefur orðið sú að Matthías hefur meir og minna unnið allt sem við höfum gert með handafli.“
Sement og steypumöl í pokum. Fjölskyldan hefur fengið ófáar sendingar af svona pokum á lóðina sem nýst hafa við framkvæmdir í gestahúsinu.
Snæfríður heldur áfram; „Við höfum ekki getað fengið hlass af möl eða sandi á lóðina eða pantað steypu í bíl, aðgengið að lóðinni býður bara ekki upp á það. Húsið stendur í mikilli brekku og það er þyngdartakmörkun á götunni. Við höfum því hrært alla steypuna í lítill steypuhræru og fengið möl og sement hingað í pokum. Það hefur líka verið mikið verk að hreinsa lóðina og tæma húsið sem er fullt af rusli. Við höfum reynt að fá litla vörubíla og bíla með grabba til að taka þátt í þessari ruslaförgun. Matthías hefur fengið nokkra karla hingað, sem allir eru góðir á sínu sviði, en þeir hafa bara ekki verið nógu lausnamiðaðir fyrir þetta verkefni. Það hefur því endað með því að Matthías hefur nú þegar keyrt tæplega 50 ruslaferðir á okkar Land Rover með múrbrot og annað rusl. Hann smíðaði þunga og góða rennu til að láta fötur með múrbroti renna niður af lóðinni sem hefur gefist vel og auðveldað verkið. Þetta hefur verið tímafrekt en miðar allt í rétta átt.“
Gestahúsið var upphaflega bara áhaldaskúr sem bætt hefur verið við og náðu sumir veggirnir ekki niður fyrir gólfplötuna sem var ekki mikið meira en smá steypuskæni með flísalögn.
Heitur vetur
Veturinn á Tenerife hefur verið óvenju heitur í ár og þó það hafi verið ljúft að sumu leyti þá viðurkenna hjónin að það sé betra að vinna í aðeins kaldari loftslagi. „Það hafa verið þambaðir ófáir bjórarnir hérna síðustu mánuðina en það er nauðsynlegt að skipuleggja daginn rétt, byrja snemma og taka pásu yfir miðjan daginn og byrja svo aftur þegar sólin fer að ganga niður.“ Þá segir Snæfríður að alls konar ferðalög og gönguferðir hafi líka sett strik í framganginn í húsinu. „Já, því þó Matthías sé aldrei meira í essinu sínu en þegar hann er að leysa einhver húsavandamál þá þarf að gera fleira í lífinu. Það þarf líka að vera leikur og við höfum því reynt að jafna þessar framkvæmdir út með alls konar skoðunarferðum og hjólatúrum um eyjuna og á næstu eyjar og fleira sem stelpurnar okkar hafa gaman af.“
Þegar ekki er verið að vinna í húsinu fer fjölskyldan gjarnan í göngur um eyjuna en Snæfríður var að gefa út handbók með 33 gönguleiðum um alla eyju. Bókin fæst á lifiderferdalag.is
Matthías útbjó rennu í garðinum í því skyni að geta látið fötur fullar af múrbroti renna þar niður svo hægt sé að farga innihaldinu.
Hárþvottur utandyra úr köldu vatni. Fyrst þegar fjölskyldan flutti í húsið voru aðstæðurnar nokkur frumstæðar. Heitt vatn og sturta eru nú til staðar og líka þvottavél.
Fjölskyldan á nýafstöðnu karnivali. Bæði börn og fullorðnir klæða sig upp og taka þátt í vikulöngum hátíðarhöldum.
Hjónin á góðri stund í höfuðborg Tenerife, Santa Cruz.