Fara í efni
Mannlíf

Ásta Júlía Aðalsteinsdóttir

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

13. desember – Ásta Júlía Aðalsteinsdóttir, viðburðar - og kynningarstjóri á Hlíð

Dýrmæt jólaminning þegar afi sat við orgelið

Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og fundist gaman að skreyta og gera fínt fyrir jólin. Ætli það komi ekki frá mömmu eða jafnvel föðurafa mínum, en þau voru alltaf dugleg að skreyta fyrir jólin. Ég elst upp með ömmu og afa í næsta húsi og á Þorláksmessukvöld fórum við fram í hús til ömmu og afa og hjálpuðum þeim að skreyta. Ég man aldrei eftir því að skrautið hafi verið komið upp fyrr, nema þá kannski seríur og aðventuljós.

Minningin um afa sitjandi við orgelið að spila jólasálma er ein af mínum uppáhalds. Ég sat oft og hlustaði á hann spila, truflaði hann reglulega til að spyrja út í orgelið og hvort ég mætti ekki sjá um að stíga eða spila því ekki gat ég náð bæði í einu. Oft sat ég á læri hans og fékk að ýta á nóturnar fyrir hann. Þegar ég varð eldri kenndi hann mér nokkur lög og í mörg ár alveg þangað til hann dó fór ég að orgelinu á Þorláksmessu eða aðfangadag og spilaði fyrir gömlu hjónin og hlustaði svo á afa spila.

Sennilega hefur stormsveipurinn hún mamma mín séð um öll verkin sem gera átti líka í herbergjunum okkar

Í minningunni var mamma á þönum um allt að klára að þrífa, taka til og baka. Alltaf var til fullt af mat og margar, margar sortir af smákökum og ég tala nú ekki um allt laufabrauðið sem hún nú stundum skar út ein þegar við vorum sofnuð því við nenntum ekki að hjálpa. Þegar við svo settumst við borðið á aðfangadagskvöld var allt hreint, engin óhreinn þvottur í körfunni og við búin að taka til, setja hreint á og búa um rúmin í herbergjunum okkar. Eða það er alla vega minningin, sennilega hefur stormsveipurinn hún mamma mín séð um öll verkin sem gera átti, líka í herbergjunum okkar.

Sátum svo stundum heldur súr á svip og gáfum pabba okkar ófagurt augnaráð því lifandi skelfingar ósköp sem hann gat verið lengi að borða.

Ég ólst upp á kúabúi og þar var aldrei sest niður að borða á aðfangadagskvöld fyrr en eftir að búið var í fjósi. Yfirleitt um átta leytið, stundum seinna. Enginn stóð upp frá borðinu fyrr en allir voru búnir að borða því þessi stund var fjölskyldustund þar sem við sátum og spjölluðum. Jah eða kannski meira við systkinin að gleypa í okkur matinn á methraða og sátum svo stundum heldur súr á svip og gáfum pabba okkar ófagurt augnaráð því lifandi skelfingar ósköp sem hann gat verið lengi að borða.

Það glaðnaði yfir okkur þegar hann kláraði kjötið því þá voru bara kartöflur, sósa og grænmetið eftir. En nei það var ekki hægt að borða það án kjöts svo það var bætt við kjöti, þá kláraðist sósan og þá þurfti meira af henni. Og svona gekk þetta fram og aftur að því er virtist í heila eilífð þangað til karlinn náði lokst að láta dæmið ganga upp og allt kláraðist á sama tíma. Þá hjálpuðust allir að við að ganga frá og eftir það var loksins hægt að opna pakkana.

Oft sat ég fram á nótt með pabba, afa og Bróa frænda eða einhverra bræðra minna að spila jóker eða kana.

Þegar ég var að alast upp var mikið gripið í spil um jólin. Oft sat ég fram á nótt með pabba, afa og Bróa frænda eða einhverjum bræðra minna að spila jóker eða kana. Mér fannst alltaf einhver hátíðarblær yfir því að sitja við eldhúsborðið, með jólaöl og mandarínu meðan snjónum kyngir niður fyrir utan.

Eftir að við maðurinn minn fórum að búa höfum við passað upp á það aðventan sé róleg og notaleg og að við verjum sem mestum tíma með börnunum okkar í stað þessa að vera á þönum út um allt. Því þegar upp er staðið er það samveran sem situr eftir í minningunum hjá okkur öllum.