Fara í efni
Mannlíf

Appelsínugult á „Lífið er núna“ deginum

Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Dagurinn í dag, 9. febrúar, er Lífið er núna dagurinn. Það er Kraftur, sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, sem stendur að verkefninu Lífið er núna og er dagurinn í dag tekinn sérstaklega í það að vekja athygli á starfsemi félagsins og öllu sem tengist ungu fólki og krabbameini, en ekki síður til að minna fólk á að njóta dagsins, njóta augnabliksins.

Starfsfólk Wise á Akureyri tók daginn alvarlega enda er fyrirtækið stuðnings- og samstarfsfyrirtæki Krafts og Lífið er núna og styrkir starfsemi félagsins, ýmist með beinum fjárframlögum eða öðrum hætti. Til dæmis má nefna að fyrirtækið keypti kökur frá Sætum syndum handa starfsfólki sínu í dag og styrkir þannig óbeint líka því Sætar syndir láta ákveðna upphæð af hverri köku renna til Krafts.

Fréttaritari Akureyri.net hitti á starfsfólk Wise upp úr hádeginu í dag þegar hópurinn skellti sér í appelsínugult og raðaði sér í kringum vélsleða með forstjóra fyrirtækisins, Jóhannes Helga Guðjónsson, undir stýri.

Eins og gengur fór starfsfólk Wise misjafnlega langt með verkefnið, einn var algallaður í appelsínugulum samfestingi, en öll voru þau í einhverju appelsínugulu, sem er litur Krafts og verkefnisins. Húfan Lífið er núna var á einhverjum höfðum, en kaup á húfunni er ein af þeim leiðum sem fólk og fyrirtæki hafa til að styrkja Kraft.

Á vef Krafts segir meðal annars um Lífið er núna daginn að tilgangur hans sé að minna fólk á að staldra aðeins við, njóta líðandi stundar og gefa sér tíma. „Einnig er tilvalið að nýta daginn og láta gott af sér leiða, hrósa fólki og sjálfum sér,“ eins og þar stendur. „Til að fagna þessum degi með okkur, hvetjum við fólk og vinnustaði að gera að gera appelsínugula litnum hátt undir höfði, brjóta upp daginn, skapa minningar með sínu besta fólki og minna hvert annað á að Lífið er núna.“

Kraftur býður upp á ýmsan varning sem hægt er að kaupa til að styrkja félagið og starfsemina – en það er þó engin skylda að kaupa neitt, eins og segir á upplýsingasíðunni, „bara nýta daginn til að brjóta upp stemninguna og hafa gaman.“