Fara í efni
Mannlíf

Anna Skagfjörð söngkona

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

2. desember Anna Skagfjörð, söngkona

Jólin græjuð á einum degi!

Ég á mér ótrúlega margar uppáhalds jólaminningar, enda mikið jólabarn.

Eftir að ég eignaðist barn sjálf fór ég að upplifa jólin á allt annan hátt eins og svo margir aðrir foreldrar. Ég í raun endurupplifi hvernig það er að vera barn þegar jólin eru að skella á. Svo mikil tilhlökkun og spenna.

Í minni fjölskyldu hefur alltaf verið mjög sterk jólahefð. Allt þrifið, skötuveisla á Þorláksmessu, hlustað á sömu jólaplötuna, keypt jólatré af Flugbjörgunarsveitinni, bakað og skreytt svo eitthvað sé nefnt. Það var mér þess vegna mjög erfitt þegar ég flutti til Akureyrar og byrjaði að halda jól án fjölskyldunnar minnar. Þá ákvað ég að byrja strax eftir að ég eignaðist son minn, að halda okkar eigin jól á Akureyri, búa til okkar hefðir, og það höfum við gert í 5 ár.

Gat það nú verið, lasinn! ,,Jæja kannski verður hann betri á morgun“ var það sem ég hugsaði, alltaf að vona það besta.

Mín uppáhalds jólaminning gerist nefnilega bara í fyrra, jólin 2022.

Þá ætluðum við að breyta til og fara suður til Reykjavíkur yfir jólin og vera með minni fjölskyldu. Fjölskylda unnusta míns býr hér á Akureyri svo mér fannst rétt að prófa eitthvað öðruvísi. Við vorum búin að skipuleggja allt og ætluðum að keyra af stað 21. des., allir voðalega spenntir og sérstaklega litli 4 ára guttinn okkar.

Svo tók lífið bara viðsnúning daginn fyrir brottför þegar sonur minn vaknaði með 39 stiga hita. Gat það nú verið, lasinn! ,,Jæja kannski verður hann betri á morgun“ var það sem ég hugsaði, alltaf að vona það besta. En hann varð bara ekkert betri.

Svo héldum við að við gætum frestað ferðinni og farið bara á Þorláksmessu. En ég hugsaði líka með mér að ef hann verður ekki betri þá þarf ég að græja jól hérna heima á einum degi.

Við vorum ekki með jólatré eða neitt því við ætluðum að halda jólin í Reykjavík. Gjafirnar frá fjölskyldu minni voru líka allar í Reykjavík, engin jólainnkaup þar sem það þurfti ekki neitt, við ætluðum að halda jólin í Reykjavík.

Þetta leit ekki vel út og við tókum þá ákvörðun um kvöldið þann 22. des. að það yrði ekkert úr þessu, jólin yrðu haldin heima fyrst að litli er lasinn.

Þá hófst verkefnið: græja jól á einum degi!

Það var svo seint um kvöldið sem ég átta mig á því að við þurfum tré!

Mamma mín kemur öllum gjöfunum á flug í Reykjavík í öllu jólastressinu sem á sér stað þar, ég hljóp út í búð að kaupa allan mat sem þurfti og jólasteikina. Það var svo seint um kvöldið sem ég átta mig á því að við þurfum tré! Við höfum farið saman að velja alvöru tré en það var ekki tími til þess og ekkert gaman ef barnið kemst ekki með. Þá hringdi ég í vinkonu mína sem var að fara út á land að halda jólin og hún lánaði okkur gervitré sem hún á og bjargaði því.

Eftir öll ósköpin fór ég, á Þorláksmessu, að sækja pakkana á flugvöllinn og ákvað að koma við í Hagkaup. Mér fannst nefnilega ekkert varið í það að klæða strákinn í spariföt svona lasinn, svo ég keypti jólanáttföt eða kósýgalla á okkur öll. Þetta voru svo bara yndisleg jól hjá okkur þremur. Við hlustuðum á kirkjuklukkurnar hringja inn jólin, borðuðum jólamat, opnuðum pakka og höfðum það náðugt saman.

Þegar ég hélt að þessi jól yrðu glötuð, því að planið okkar gekk ekki upp, þá eru þetta í dag ein bestu og fallegustu jól sem við höfum átt saman hingað til.

Það er líklega bara best að halda jólin heima á Akureyri.