Andri hyggst bæta metið frá því í fyrra
Andri Teitsson, hlaupa- og skíðagöngugarpur úr Skíðafélagi Akureyrar, bætti óformlegt Íslandsmet í skíðagöngu hressilega í aðdraganda páskahátíðarinnar á síðasta ári þegar hann gekk 238,9 kílómetra í einni lotu í Hlíðarfjalli. Hann endurtekur leikinn í ár; gekk af stað um klukkan 8.30 í morgun og verður þar til einhvern tíma á morgun. Andri ætlar að gera enn betur en í fyrra.
Að þessu sinni gengur hann til góðs; ætlar sjálfur að greiða 500 krónur fyrir hvern kílómetra í byggingarsjóð gönguskíðahússins í Hlíðarfjalli. Nái Andri 300 km, sem ekki er ólíklegt markmið, yrði hann að punga út 150.000 krónum og skorar á aðra að leggja einnig í púkkið – til dæmis að heita því að greiða 10 krónur í sjóðinn fyrir hvern kílómetra sem hann gengur.
Draumur gönguskíðafólks er að byggt verði við skálann eða að fengnar verði eininingar fyrir utan húsið til að bæta aðstöðuna.
Vinir Andra og fjölskylda gengu með honum um tíma í fyrra og hann skorar á fólk að mæta aftur núna og ganga með sér einhverja stund.
„Aðstæður eru ekki eins góðar og í fyrra; snjókoma, minna rennsli og minna skyggni,“ sagði Andri þegar Akureyri.net leit við í fjallinu eftir hádegið. Þá hafði hann gengið 57 kílómetra á rúmum fimm klukkustundum. „Ég held að það eigi að birta til seinni partinn og spáin fyrir morgundaginn er góð,“ sagði Andri glaður í bragði þrátt fyrir aðstæður.
Veðurspáin er ágæt fyrir nóttina, þegar Andri verður auðvitað á ferðinni, og sólin ætti að heiðra hann í fyrramálið skv. spánni.
Umfjöllun Akureyri.net um Andragönguna í fyrra:
Andri Teitsson gekk 238,9 kílómetra
Andri Teitsson í Hlíðarfjalli eftir hádegi í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson