Andlitsmynd Margeirs og strætóskýlið að Prikinu
Eigendur Priksins, vinsæls kaffihúss í miðborg Reykjavíkur, fengu í vikunni strætóskýli til varðveislu og komu því fyrir í portinu við kaffihúsið; skýli sem lengi var við Njarðargötu og er merkilegt fyrir þær sakir að þar er að finna andlitsmynd eftir Margeir heitinn Sigurðarson.
Margeir, sem ólst upp á Akureyri og notaði listamannsnafnið Dire, gerði myndina árið 2017. Hann lést í Berlín árið 2019, aðeins 34 ára.
Portið við kaffihúsið hefur verið óformlegur sýningarsalur veggjalistar í miðborginni undanfarinn áratug, að sögn eigenda Priksins. Margeir var vinur þeirra og fastagestur á staðnum. Það, að verkið er ekki löngu horfið má þakka Hafberg Magnússyni, starfsmanni Reykjavíkurborgar, sem sendur var til að mála yfir myndina á sínum tíma.
„Ég var beðinn um að fara og mála yfir krot sem sagt var að væri á skýli. Og svo mæti ég á staðinn, horfi á myndina og mér fannst hún bara svo falleg að ég tímdi ekki að mála yfir,“ sagði Hafberg við Jóhann Bjarna Kolbeinsson fréttamann RÚV í vikunni.
Smellið hér til að sjá frétt Ríkissjónvarpsins um strætóskýlið í Reykjavík.
Strætóskýlið þar sem það stóð lengi við Njarðargötu.