„Alvöru veislumatur“ en ekki sænska borðið!
Gunnar Gíslason var á sínum tíma landsliðsmaður bæði í knattspyrnu og handknattleik. Hann hefur búið lengi í grennd við Gautaborg í Svíþjóð og er kvæntur sænskri konu, Míu. Gunnar, sem kennir íþróttir og stærðfræði í gagnfræðaskóla, skrifaði þessa grein að beiðni Akureyri.net. Þetta er níunda greinin í flokki sem Akureyringar erlendis skrifa um jólahaldið.
_ _ _ _
Eftir að hafa flækst svolítið á milli borga og landa (Reykjavík, Osnabrück í Þýskalandi og Moss í Noregi) endaði ég í Gautaborg 1989, og síðan hef ég búið í nágrenni borgarinnar að einu ári undanskildu, 1992, þegar ég var á Akureyri. Þar er ég fæddur og uppalinn og þar af leiðandi liggja ræturnar að sjálfsögðu mjög djúpt þar, í fallegasta bæ heimsins! Nú hef ég þó búið lengur erlendis en heima á klakanum – flutti út 1987.
Ég hef búið í bænum Stenkullen, rétt utan við Gautaborg, síðan 1993 ásamt sænska hluta fjölskyldu minnar en íslenski hlutinn býr heima á Íslandi; Alexander með fjölskyldu sinni á Akureyri og Ingólfur ásamt sinni fjölskyldu í Hafnarfirði.
Jólahaldið hér í Svíþjóð er að mestu leyti líkt því sem við þekkjum á Íslandi en þó ekki að öllu leyti. Hér er byrjað að telja af alvöru niður til jóla fyrsta sunnudag í aðventu – fjórða sunnudegi fyrir jól, og allt miðast við sunnudagana, en mjög mikilvægur dagur er líka Lúsíudagurinn, 13. desember, sem alltaf er haldið upp á og hefst með syngjandi börnum eldsnemma morguns.
Aðfangadagur er svo stóri dagurinn alveg eins og á Íslandi með pökkum og veislumat. Þann dag kemur jólasveinninn alltaf við hjá okkur með pakka.
Hvað varðar matarhefðir jólanna hef ég aldrei verið hrifinn af sænskum siðum; hér vilja menn hafa jólahlaðborð – julbord – á aðfangadag, þar sem m.a. er jólaskinka, síld, kjötbollur, rúllupylsa, lax og hrísgrjónagrautur – mest allt hversdagsmatur í mínum augum!
Mér tókst snemma (1993) að sannfæra fjölskylduna um gæði þess að hafa þriggja rétta veislumáltíð í staðinn, að hætti Íslendinga. Það sló náttúrlega í gegn og þannig við höfum við haft það síðan, og þykir sjálfsagt.
Þessi jól hafa verið svolítið öðruvísi vegna Covid 19. Við hér í Svíþjóð höfum verið í miklum vandræðum vegna faraldursins eins og allur heimurinn veit vel. Það hefur gert það að verkum að fólk hefur reynt að halda sig eins mikið heimavið og hægt er í desember. Ekki hefur síður verið erfitt að finna hina raunverulegu jólastemningu vegna veðurs; hér hefur eiginlega verið súld og hiti á milli fimm og 12 stiga síðustu tvo mánuði. Ég held að í nóvember og desember höfum við séð sólina í samanlagt fjóra klukkutíma!
Á aðfangadag var dagskráin þannig núna að við hittumst í jólamorgunmat klukkan 8.30, vegna þess að tvö barnanna voru hjá öðru foreldri um kvöldið en ekki hjá okkur. Síðan hittumst við aftur um kvöldið í hefðbundnu prógrammi með pökkum og jólamat. Um morguninn vorum við átta fullorðin og fjögur börn en átta plús tvö um kvöldið.
Það er misjafnt hvað við erum með í aðalrétt á aðfangadagskvöld. Í ár borðuðum við elgsteik, entrecote, í fyrra vorum með andabringur, en nautakjöt og humar – surf and turf – er líka í miklu uppáhaldi
Kær kveðja til allra Akureyringa!
Gunnar Gíslason
Gunnar steikir kjötið örlítið á pönnu áður en hann setur það inn í ofn. Jólasveinninn er árlegur gestur á heimili Gunnars og Míu á aðfangadag.
Mía, eiginkona Gunnars með dótturdóttur sína og til hægri er Leó sonur Gunnars.
Jólatréð í stofu stendur ... eftir að Gunnar sækir það út í skóg!
FYRRI GREINAR
Arnór Þór og Jovana Lilja í Haan
Lára Magnúsdóttir í Kaliforníu
Svanfríður Birgisdóttir í Örebro