Fara í efni
Mannlíf

Allir velkomnir á blómlega Hríseyjarhátíð

Mynd af vef Akureyrarbæjar.

Árleg Hríseyjarhátíð hefst í dag, fimmtudaginn 7. júlí. Hún er ætíð haldin í júlí og er þá boðið upp á fjölskylduvæna dagskrá alla helgina. Allir eru allir velkomnir.

„Fastir liðir eins og venjulega“ eru á sínum stað, eins og það er orðað í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar: Garðakaffið og óvissuferðir á föstudeginum. Á laugardag verður kaffisala kvenfélagsins á hátíðarsvæðinu, leiktæki fyrir börnin, skemmtun á sviðinu, ratleikur og hópakstur traktora. Um kvöldið verður kvöldvaka, brekkusöngur og varðeldur.

Fyrsta hátíðin var haldin árið 1997 og hefur hún verið árlegur viðburður síðan. Það er Ferðamálafélag Hríseyjar sem stendur að hátíðinni.

Ferjan Sævar siglir til Hríseyjar allt að níu sinnum á dag. Siglingin tekur aðeins 15 mínútur frá Árskógssandi, sem er um 35 kílómetra frá Akureyri. Nánari upplýsingar um Hrísey, ferjuáætlun og þjónustu má nálgast á www.hrisey.is og hægt að skoða dagskrá hátíðarinnar hér.

Spáð er ágætu veðri fyrir helgina og vonast er til að sem flestir leggi leið sína út í Hrísey til að njóta dagskrár hátíðarinnar og alls þess sem þessi einstaka eyja hefur upp á að bjóða.

Hátíðin hefst í dag klukkan 17.00.