„Allar ferðirnar í ár voru uppseldar“
Efri árin eru tilvalin til þess að ferðast, ef heilsa og efni eru til. Ferðanefnd Félags eldri borgara á Akureyri hefur skipulagt fjöldan allan af ferðum í gegnum tíðina, en það er algjör sprenging í þáttöku á árinu sem er að líða. Akureyri.net sló á þráðinn til Halldórs Sigurgeirssonar sem er formaður nefndarinnar og rútubílstjóri hjá SBA. Kristín Aðalsteinsdóttir tók allar myndirnar í ferð félagsins til Færeyja fyrr á árinu.
Kristján Davíðsson og Halldór Sigurgeirsson, til hægri, í Færeyjaferðinni.
Stór hópur á Tenerife
„Við reynum að hafa ferðinar okkar sem allra fjölbreyttastar. Við skipuleggjum alltaf eina stóra ferð að hausti sem er gjarnan sólarlandaferð,“ segir Halldór. „Núna eru um 170 manns á Tenerife og komust færri að en vildu“. Eftirspurnin eftir ferðum hefur verið mjög mikil, að sögn Halldórs og virðist útþráin og ferðagleðin í hópnum vera að aukast. Hópnum á Tenerife er dreift á þrjú hótel, sem eru stutt frá hvert öðru. Þar er skemmtidagskrá fyrir áhugasama og vel haldið utan um hópinn.
Mikill áhugi á Færeyjum
Hvítasunnuhelgina á þessu ári var farið í fjórar nætur til Færeyja með Norrænu. „Færeyjaferðin sprengdi alla skala, þvílík var eftirspurnin,“ segir Halldór. „Við erum þegar farin að skipuleggja aðra ferð í maí á næsta ári. Ferðanefndin heldur kynningar á ferðunum sem eru í boði í félagsmiðstöðvum eldri borgara, Birtu og Sölku. „Þarna hefur verið fullt út úr dyrum,“ segir Halldór. „Oft er hægt að skrá sig í ferðirnar sem eru klárar þarna. Til dæmis fylltist Færeyjaferðin á tuttugu mínútum í Birtu.“
Innanlandsferðir vinsælar
„Við skipuleggjum mikið af innanlandsferðum. Bæði dagsferðir og líka lengri ferðir, gjarnan fjögurra nótta ferðir,“ segir Halldór. „Við sjáum sjálf um fararstjórn að mestu í ferðum innanlands. Reyndar fáum við oft heimamann til þess að koma upp í bílinn og segja aðeins frá, sem er alltaf skemmtilegt.“ Halldór hefur mikla reynslu af því að vera rútubílstjóri fyrir SBA, og þrátt fyrir að vera kominn á eftirlaun keyrir hann ennþá fyrir fyrirtækið á sumrin. „Það er nú gaman að segja frá því, en ég keyrði einmitt fyrstu ferð fyrir Félag eldri borgara á Akureyri, þegar ég var ungur. Þetta var fjögurra nátta ferð og mikið ævintýri fyrir þau sem tóku þátt,“ rifjar Halldór upp. „Það var farið vestur í Lauga í Sælingsdal og ég man sérstaklega eftir þremur konum sem höfðu aldrei komið vestur fyrir Öxnadalsheiði. Þetta var mikil upplifun fyrir marga.“
Mikill undirbúningur og þakklátt starf
„Það er orðið vandamál að skipuleggja ferðir í eigin landi,“ segir Halldór. „Ef það á að gista með stóran hóp þá þarf eiginlega að panta gistinguna með árs fyrirvara.“ Halldór segir að mikill áhugi sé í félaginu fyrir að skoða Vestfirði til dæmis. „Það verður ferð um norðanverða Vestfirði á næstunni, en það er ómögulegt að hafa hana mjög stutta, þannig að það er mikil skipulagning sem fylgir.“
Halldór er í nefndinni ásamt Helga Jónssyni, Snjólaugu Sigurðardóttur, Pétri Haraldssyni, Hólmfríði Guðmundsdóttur og Önnu Guðmundsdóttur. „Anna starfaði á ferðaskrifstofu á fjórða áratug,“ segir Halldór, en þar er mikill reynslubolti á ferð. Auk þess nýtir Halldór sína krafta sem rútubílstjóri og keyrir sjálfur í sumum ferðum. „Það er mjög gefandi að starfa í ferðanefndinni og heilt yfir finnst mér mikill gangur í starfi eldri borgara í bænum,“ segir hann. „Þetta er sérstaklega dýrmætt fyrir fólk sem er kannski orðið eitt og treystir sér miklu frekar til þess að ferðast í hóp. Við fáum mikið þakklæti og njótum þess að sinna þessu starfi,“ bætir Halldór við að lokum.