Álfatrú, náttúruvernd og þjóðararfurinn
Trúa Íslendingar á álfa og huldufólk? Hvað eru álfar og huldufólk? Hver er tenging álfatrúar við náttúruvernd, þjóðararfinn og verðmæti landsins? Þetta, og margt fleira verður til umfjöllunar á ráðstefnunni 'Álfar og huldufólk í heimabyggð', sem verður haldin í Hofi þann 20. apríl. Huldustígur stendur fyrir ráðstefnunni og fjölmörg erindi úr ýmsum áttum verða á dagskrá. Katrín Jónsdóttir, svæðanuddari í Sunnuhlíð á Svalbarðsströnd, er ein af frummælendum ráðstefnunnar.
Teikning Erlu Stefánsdóttur af náttúruvættinum í Norðri, sem svífur yfir Kaldbak, er einkennismynd ráðstefnunnar 'Álfar og huldufólk í heimabyggð'. Mynd: Erla Stefánsdóttir
„Ég ætla að segja frá kortunum hennar Erlu Stefánsdóttur,“ segir Katrín. „Ég átti þátt í að þau yrðu gefin út og Erla var mikil vinkona mín. Erla Stefánsdóttir var sjáandi og helgaði stórum hluta lífsins því að koma tilveru álfa og huldufólks á framfæri. Leiðir Erlu og Katrínar lágu saman þegar Katrín sótti námskeið Erlu árið 1981. Námskeiðið var í skólanum „Lífssýn“, sem Erla stofnaði með manni sínum. „Tenging okkar er reyndar mörg þúsund ára gömul, en förum ekkert nánar út í það,“ segir Katrín.
„Námskeið voru umbreytandi og opnuðu nýjan heim fyrir mig,“ segir Katrín. „Hún kenndi okkur að treysta okkar skynjun og upplifun, okkar tengingu við náttúruna. Ekki afskrifa það sem ímyndun.“ Eftir að Katrín og Erla urðu vinkonur, fór Erla að koma árlega í heimsókn norður og tók yfirleitt nokkrar vinkonur með. Hún tók ástfóstri við Eyjafjörðinn og þótti gott að dvelja í návígi við eina helstu orkustöð landsins, Kaldbak.
Kortin hennar Erlu. Íslandskort með orkulínum og vættum, og svo kortið af Akureyri með teikningum á ljósmyndir.
„Erla var alltaf teiknandi, sá alls staðar líf og liti,“ segir Katrín. „Blómálfa, dverga í litlum húsum sem okkur sýndust steinar, álfa, huldufólk, tröll, fjallatíva og engla. Hún sá látið fólk og hún sá aftur og fram í tíma, en sagði ekki mikið um það. Hún einbeitti sér að mannfólkinu, náttúruverum og sambýli okkar við móður jörð. Það var svo skemmtilegt að vera með Erlu, við vinkonurnar nánast sáum eða allavega skynjuðum náttúruna lifandi, Erla virkaði þannig eins og magnari og það var alltaf sól þegar Erla kom.
Ein af myndunum í kortinu af Akureyri. Mynd: Erla Stefánsdóttir
Erla sagðist alls ekki vera listamaður, en hún reyndi að teikna sýn sína. Kortið 'Huliðsheimar Akureyrar' kom út árið 2009. Þar er hægt að sjá kort af bænum, þar sem merktir eru inn staðir þar sem verur úr öðrum víddum halda til. „Ég sé ekki sjálf,“ segir Katrín. „En ég skynja, og við gerum það öll. Ég tók það að mér að aðstoða Erlu við að koma kortinu á framfæri, og það vakti mikla athygli.“ Katrín segist hafa aðeins misst dampinn síðustu ár, við að kynna sýn Erlu, en nú sé orðin vakning í þessum málefnum.
Ferðaþjónustan hefur líka gagn af þessu, en ýmsir ferðaþjónustuaðilar á svæðinu kynna tengsl við álfa og huldufólk, og laða ferðamenn að staðnum
„Fólk sér verðmætin í tengslum við náttúruvernd og menningararfinn okkar,“ segir Katrín. „Ferðaþjónustan hefur líka gagn af þessu, en ýmsir ferðaþjónustuaðilar á svæðinu kynna tengsl við álfa og huldufólk, og laða ferðamenn að staðnum.“ Gott dæmi um það er einmitt Huldustígur, sem heldur ráðstefnuna í apríl, þar sem Bryndís Fjóla Pétursdóttir, sjáandi, er drifkrafturinn. Hún hefur látið gera kort yfir huliðsheima Lystigarðsins og fjölmargir erlendir og innlendir ferðalangar hafa sótt garðinn til þess að ganga Huldustíginn.
„Ég lít svo á, að við séum að styðja við náttúruvernd og virðingu fyrir hinni lifandi móður jörð,“ segir Katrín. „Og það er dásamlegt að eiga þátt í því.“
Opið er fyrir skráningu á ráðstefnuna. Hér er hægt að kaupa miða.
Það var gaman að heimsækja Katrínu. Erindi hennar, 'Lífssýn og hulduheimar Erlu Stefánsdóttur' verður á dagskrá á ráðstefnunni 20. apríl í Hofi.