Albúmið – Malbikað með bros á vör
Fátt gleður fólk meira en gömul ljósmynd!
Sigurður Stefánsson, gjarnan kallaður Siggi Samba, tók þessa mynd út um eldhúsgluggann á heimili fjölskyldunnar í Norðurgötu 16. Eiríkur Sigurðsson, sonur hans, sem birti myndina á Facebook síðunni Gamlar myndir af Akureyri, telur að myndin sé tekin 1965 eða 1966.
Akureyri.net hefur birt gamla mynd frá Minjasafninu á Akureyri vikulega síðan vefurinn fór í loftið í núverandi mynd í nóvember 2020 við fádæma vinsældir.
Nú hefst nýr kafli með myndum úr albúmum bæjarbúa; yngri gamalli mynd og stefnt að því að birta eina slíka reglulega.
Maðurinn með gulu derhúfuna er Hilmar Gíslason – Marri Gísla – lengi bæjarverkstjóri, sem lést á síðasta ári. „Gott ef konan sem stendur þarna og dáist að framkvæmdunum er ekki Þorgerður Halldórsdóttir sem bjó á efri hæðinni í vesturendanum í no 16 mikil sómakona,“ skrifar Eiríkur á Facebook.
„Bílafloti húsanna í kring var á stæðinu sunnan við Norðurgötu 27. Þar stendur nú gæsluvallarhús. Gipsy og Skodi sjást en blái Buicinn hans Sigga er líklega í hvarfi bakvið númer 19,“ skrifar annar í athugasemd.
„Bjó einu sinn í Norðurgötu 16, þá voru hermannabraggar með kolakurlgötum, þar sem Eiðsvöllurinn er nú,“ segir í annarri athugasemd.
Þekkir þú, lesandi góður, aðra á myndinni? Lumarðu á skemmtilegri sögu af svæðinu, um fólkið, framkvæmdirnar, bílana eða annað? Lesendur eru hvattir til að senda sögur eða minningar til birtingar, á netfangið skapti@akureyri.net