Ákvað að koma, vitandi að ég væri öðruvísi
„Við fáum augnatillit. Ekki neina fyrirlitningu eða neitt slíkt, bara þannig að fólk er forvitið,“ segir Hilal Sen við Akureyri.net, en hún og eiginmaður hennar, Mehmet Harma fluttu til Akureyrar frá Tyrklandi árið 2020.
- Viðtalið við hjónin Hilal og Mehmet birtist í þremur hlutum. Fyrsti í gær, annar í dag og lokahlutinn á morgun, laugardag.
„Fólk veltir fyrir sér hvaðan við komum og hvað við erum að gera hérna. Það gerir sér stundum upp hugmyndir um það, hvað við ætlum okkur að gera og spyr kannski, hvenær við ætlum að flytja aftur heim.“ Hilal segir að þau hjónin finni mun á viðmóti fólks, en hún er ljós yfirlitum og það er ekki auðvelt að sjá hvaðan hún kemur. „Það var auðveldara fyrir mig að kynnast fólki, heldur en Mehmet, sem er dekkri á hörund. Það er leitt að segja það, en svoleiðis er það bara. Hann finnur meira fyrir fordómum heldur en ég.“
- Í GÆR – „Það er margt líkt með okkur öllum, þvert á uppruna“
- Á MORGUN – Erum að skapa samfélagið á Akureyri saman
Það, að streitast gegn því að samfélagið verði fjölþjóðlegt, er úrelt, þó að einhverjir haldi fast í það að Ísland sé fyrir Íslendinga
Íslenskt samfélag er sífellt að verða fjölþjóðlegra. Hérna á Akureyri verður flóra mannlífsins fjölbreyttari með hverju árinu. Dóttir Hilal og Mehmet, Piraye, útskrifaðist úr fyrsta bekk í Oddeyrarskóla í byrjun júní og á skólaslitunum sagði skólastjórinn frá því að í ár hafi skólinn notið þess að kenna börnum frá 22 mismunandi löndum. „Það, að streitast gegn því að samfélagið verði fjölþjóðlegt, er úrelt, þó að einhverjir haldi fast í það að Ísland sé fyrir Íslendinga,“ segir Hilal. „Í fyrsta lagi er samfélagið hérna sífellt að eldast, það þarf meira fólk sem getur unnið. Þetta á við um öll lönd reyndar. Samfélög eru að blandast allsstaðar, þetta er þróun sem mun bara aukast. Í staðinn fyrir að þrjóskast við, er brýnt að standa saman og bjóða alla velkomna. Fólk vill leggja sitt af mörkum og vera þáttakendur í samfélaginu.“
Hilal, Mehmet og Piraye, dóttir þeirra, í göngu skammt frá Dalvík. Íslenska náttúran heillar þau mjög. Mynd úr einkasafni.
„Að komast inn í kerfið á Íslandi, var auðvelt fyrir okkur, þannig séð,“ segir Hilal, en þau hjónin starfa bæði við kennslu og rannsóknir í sálfræði við Háskólann á Akureyri. „Við vorum komin með vinnuna í háskólanum áður en við fluttum, sem gerði okkur auðveldara fyrir, en það var samt svolítil áskorun vegna þess að hér er ekkert tyrkneskt sendiráð og öll samskipti þurftu að fara í gegn um Danmörku. Þetta er náttúrulega ákveðinn lúxus hjá okkur, að koma svo beint inn í háskólasamfélagið, þar sem venja er fyrir því að starfsfólkið sé oft á tíðum frá öðrum löndum. Það var því ekki þannig að okkur þætti erfitt að komast inn í samfélagið í vinnunni.“
Við leggjum okkur fram við að vera partur af samfélaginu og mætum á viðburði sem vekja áhuga okkar og hægt og bítandi kynnist maður fólki
„Við höfum reyndar gert mikið í því að kynnast fólki,“ segir Hilal. „Við nálgumst fólk sem við hittum, til dæmis foreldra annarra barna í skóla dóttur okkar eða fólk sem við hittum á bókasafninu. Við leggjum okkur fram við að vera partur af samfélaginu og mætum á viðburði sem vekja áhuga okkar og hægt og bítandi kynnist maður fólki sem er svipað þenkjandi og við.“
Innflytjandi er ekki það sama og innflytjandi
Ein af lykiltilgátum félagssálfræðinnar, þegar kemur að inngildingu ólíkra hópa, er svokölluð 'contact theory', upp á enskuna. „Hún felur í sér, að til þess að geta sett sig í spor annarra og kynnst þeim í raun og veru, þarf að komast í bein tengsl við viðkomandi hóp,“ segir Hilal. „Tala við fólkið, spyrja það spurninga, heyra skoðanir þeirra og hugmyndir. Þeirra lýsingu á því, hver þau eru og hvaðan þau koma. Ekki að hlusta bara á þínar hugmyndir um það, hver þau eru.“
Mehmet lýsir því, að þegar hópur eins og heimamenn, við Íslendingar í þessu tilfelli, setjum okkur ekki í samband við fólk af erlendu bergi brotið sem kýs að setjast að í bænum okkar, þá sé hætta á því að allir innflytjendur og þá flóttafólk líka, sé sett í einn hóp í huga okkar, sem utanaðkomandi fólk. Við sjáum þau þá ekki sem ólíkt fólk frá ólíkum stöðum með ólíka menningu, eins og raunin er að sjálfsögðu.
„Þegar þú ferð að upplifa samtöl við fólk, ferðu að sjá öll mismunandi blæbrigðin í fari hvers og eins,“ segir Hilal. „Þú finnur sameiginlega fleti og getur líka forvitnast um það sem þú þekkir ekki.“
Ég sakna félagslífsins heima, þar sem útlit mitt og tungumál stóðu ekki í vegi fyrir neinu
„Ég vil ekki vera dramatískur, eða viðkvæmur, en ég hef upplifað mismunun hér á landi,“ segir Mehmet. „Ég ákvað að koma hingað, vitandi að ég hefði öðruvísi húðlit og andlitsfall en fólkið hérna, vitandi að það myndi setja mig í viðkvæma stöðu og að fólk sem ég hitti gæti mætt mér með fordómum. Ég hef líka búið í Japan, þar sem ég var í háskólanum í Kyoto. Það er líka eyja með mjög einsleita íbúa. 95% íbúanna eru innfæddir. Þar upplifði ég það, sem var mjög áhugavert, að eftir að Hilal kom til mín, breyttist viðmót fólks. Upplifunin er reyndar svipuð hér; fólk er vinalegra við mig þegar það sér að ég er með henni.“ Mehmet segir að hann reyni að láta þetta ekki á sig fá, en það geti verið erfitt að mæta augnatillitum. „Ég sakna félagslífsins heima, þar sem útlit mitt og tungumál stóðu ekki í vegi fyrir neinu.“
„Burtséð frá mismunandi útliti, þá er tungumálið líka hindrun,“ segir Mehmet. „Það, að geta ekki til fullnustu deilt hugmyndum mínum, hamingju og tjáð tilfinningar mínar, gerir það að verkum að ég upplifi mig stundum einangraðan. Ég hef verið að reyna að finna mér tómstundir sem vekja áhuga minn og þar kynnist ég gjarnan fólki. Ég fór til dæmis á gönguskíðanámskeið og svo hafði ég áhuga á siglingum þegar ég bjó heima í Tyrklandi. Þar var ég að róa á svona bátum fyrir fleiri en einn, en hérna eru þeir ekki til. Ég hafði samband við Siglingaklúbbinn Nökkva og fékk að prófa kajak hjá þeim, eitthvað sem kom nálægt því sem ég þekki. Það var ekkert mál að leyfa mér að prófa, ég gat bara komið og skellt mér á kajak. Ég bjóst við því að fá einhverjar leiðbeiningar en mér var bara kastað út í, bókstaflega. Það var myrkur og kalt. Úti á miðjum Polli hvolfdi ég kajakinum og þetta var ekki mjög góð upplifun.“
„Þetta reddast“ er kannski ekki svo frábært mottó
Þessi reynsla Mehmets á kajakinum tónar vel við eitt af lykilatriðunum sem hjónin hafa tekið eftir, að einkenni Íslendinga. Þau segja að á Íslandi sé ekki svokölluð 'prevention culture', eða fyrirbyggjandi menning, heldur 'intervention culture', eða viðbragðsmenning. Blaðamaður er kannski ekki að nota rétt hugtök, en í grunninn þýðir þetta að við byrgjum gjarnan brunninn eftir að barnið er dottið í hann. Eða kennum útlendingnum á kajakinn eftir að hann er búinn að blotna.
„Hvað er aftur þetta orðatiltæki sem þið notið svo mikið?“ Hilal og Mehmet líta hvort á annað og endurtaka nokkur orð sem reynast vera 'þetta reddast'. Frasinn sem hefur orðið að hálfgerðu þjóðarmottói og við hlæjum gjarnan að því. „Kannski, bara kannski,“ segir Hilal, „er þetta ekki svo frábært mottó.“ Við hlæjum að þessu, en blaðamaður getur ekki varist því að viðurkenna að hún hafi rétt fyrir sér og að við höllum okkur kannski fullmikið að þessum orðum, oft á tíðum.
Við vorum í sambandi við einhverja áður en við fluttum og komumst að því að það var löglegt að myrða tyrkneskt fólk á Íslandi þangað til fyrir stuttu
„Það er margt mjög jákvætt við að búa á Íslandi, fyrir okkur,“ segir Mehmet. „Kerfið hérna er réttlátt að mestu leyti. Það er í lögum að fólk skuli fá jöfn laun fyrir sömu vinnu, til dæmis. Það er ekki þannig allstaðar. Hvort að allir fari eftir því er svo erfitt að segja, en lögin eru til staðar. Einnig getum við náttúrulega alltaf talað ensku. Það er gríðarlega mikilvægt, hérna skilja allir ensku og langflestir tala hana mjög vel.“ Hilal bendir á annað, sem kemur svolítið á óvart. „Hérna á Íslandi, eru í raun engar stereótýpur til, af Tyrkjum,“ segir hún. „Kollegar okkar sem hafa flutt til Þýskalands og Hollands til dæmis, eru að lenda í því að fólk er með fordóma.“ Mehmet bendir á að það sé reyndar atburður í Íslandssögunni, þar sem Tyrkir hlutu ekki miklar vinsældir og á þá auðvitað við Tyrkjaránið.
„Þeir voru ekki einu sinni Tyrkir, þeir voru frá Alsír,“ segir Mehmet. „Við komumst að því að það eru um það bil 250-300 manns frá Tyrklandi á Íslandi, flest í Reykjavík. Við vorum í sambandi við einhverja áður en við fluttum og komumst að því að það var löglegt að myrða tyrkneskt fólk á Íslandi þangað til fyrir stuttu. Okkur fannst þetta nú bara svolítið skondið.“
- Síðasti hluti viðtalsins við Hilal og Mehmet birtist á morgun. Heyrum meira um það sem innflytjendur með gráður í þroskasálfræði og félagssálfræði taka eftir í fari Íslendinga. Glöggt er gests augað.