Fara í efni
Mannlíf

„Akureyringar eiga eigin ísgerð“

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Ásdís Elva Rögnvaldsdóttir rekur Ísgerðina í Kaupangi og segir viðskiptaumhverfið vera áskorun, óstöðugt umhverfi, hækkanir og fleira. Á 12 árum í rekstri hefur hvarflað að henni að hætta, en hún segir dýrmætt að hafa gaman af því sem maður gerir. Í dag birtist þriðji og síðasti hluti viðtals Akureyri.net við Ásdísi.

Viðskiptaumhverfið er áskorun

Ásdís Elva nefnir hönnunarþáttinn, það að búa eitthvað til frá grunni og gera út frá eigin hugmyndum. En hverjar eru stærstu áskoranirnar? Tengjast þær þá rekstrinum sem slíkum?

„Já, óstöðugt umhverfi í rekstri fyrirtækja í dag er mikil áskorun. Stöðugar launahækkanir, vaxtahækkanir, hækkanir á hráefni og umbúðum, fasteignagjöld og húsgjöld hækka líka þannig að þetta er vissulega áskorun. Rekstrarhliðin er áskorun, en ekki eintóm leiðindi. Mér finnst þessi hlið skemmtileg að vissu leyti, en samt mjög erfið. Ég veit ekki hvernig ég á að orða það öðruvísi,“ segir hún.

Hefur hvarflað að mér að hætta

Er það þá hönnunin, vöruvinnslan, að búa til ís, það sem heldur áhuganum við?

„Já, ætli það ekki. En á þessum 12 árum hefur alveg hvarflað að mér að hætta þessu en mér finnst þetta ennþá mjög gaman. Það er ótrúlega dýrmætt að hafa gaman af því sem maður er að gera og hlakka til að mæta í vinnu á hverjum degi. Verkefnin eru mjög fjölbreytt og misjöfn eftir dögum en það má alveg segja að ég sé framkvæmdastjóri, fjármálastjóri, mannauðsstjóri, markaðsstjóri, sölustjóri, framleiðslustjóri og vöruhönnuður í mínu fyrirtæki. Það er ekki hægt að láta sér leiðast í þessu starfi.“ 

Hún segist hafa lært á þeim árum sem hún hefur verið í þessum rekstri að láta samkeppni, tilboð hjá öðrum og þess háttar ekki trufla sig. „Ég held að það sé mun betra að einbeita sér að því að gera vel það sem maður er að gera frekar en að eyða orku í að skoða hvað aðrir eru að gera og elta þá.“

Fólk þarf alltaf að borða ís

Það væru þó ýkjur að segja að hún geti þá verið á leiðinni í frí í fyrsta skipti því þau hjónin hafa nýtt sér rólegan tíma að haustinu til að fara í frí. Eftir að skólarnir byrja róast hjá þeim og traffíkin minnkar og þá er farið í sumarfrí. Fólk sem rekur ísbúð á Íslandi tekur sér sennilega ekki mikið frí á sumrin enda er það mesti álagstími ársins. Hápunktur ársins er fyrsta helgin í júlí þegar N1 mótið í fótbolta er í gangi.

„Við erum alveg við hliðina á N1 mótssvæðinu þannig að hér er bara röð út úr dyrum í góðu veðri. Og þó það sé rigning, eitt sumarið var alls ekki sumarveður og nánast slydda og fólk kom í vetrarfötum til okkar til að kaupa sér ís. Þá vorum við bara með heitt á könnunni og fólk kom inn í hlýjuna og fékk sér ís. Það er ekki alveg sama traffíkin og í góðu veðri, en fólk þarf alltaf að borða ís sama hvernig viðrar.“

Akureyrskt fjölskyldufyrirtæki

Ísgerðin er líka fjölskyldufyrirtæki í þeim skilningi að þegar mjög mikið er að gera kemur eiginmaður Ásdísar Elvu, Sigurpáll Árni Aðalsteinsson, einnig og hjálpar til. Synir þeirra hafa svo líka allir unnið í búðinni á einhverjum tíma.

„Þetta er bara eins og eitt af börnunum mínum og hefur alltaf verið það. Ég á sjö börn, sex drengi, mína drengi og tvo stjúpdrengi, og svo þetta fyrirtæki sem krefst mikillar athygli og umhyggju eins og barn. Hér hafa allir í fjölskyldunni unnið, meira að segja litli gaurinn sem er 11 ára, hann er farinn að biðja um að fá að vinna í afgreiðslunni. Þeir hafa allir unnið hérna með einum eða öðrum hætti, bæði sá elsti sem er þrítugur og sá yngsti sem er 11 ára. Meira að segja báðir foreldrar mínir og tengdaforeldrar hafa aðstoðað okkur við ýmis verkefni og stokkið inn á álagstímum og fjölmargir aðrir sem standa okkur nærri sem er í raun ómetanlegt. Það óhætt að segja að Akureyringar eiga sína eigin ísgerð þar sem öll framleiðsla fer fram á Akureyri og er síðan dreift héðan til höfuðborgarsvæðisins og um allt land,“ segir Ásdís Elva Rögnvaldsdóttir, eigandi Ísgerðarinnar í Kaupangi.