Fara í efni
Mannlíf

Akureyri – nýtt VMA lag frumflutt á árshátíðinni

Á árshátíð Verkmenntaskólans á Akureyri fyrr í þessum mánuði var einn af hápunktunum frumflutningur nýs VMA-lags sem ber einfaldlega heitið Akureyri. Lagið er aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum – t.d. Spotify, Boomplay.com og Youtube. Sagt er frá þessu á vef skolans.

„Lag og texta sömdu JóiPé og strákarnir í Sprite Zero Klan – Kolbeinn Sveinsson og Daníel Óskar. Auk þeirra syngja lagið Hafdís Inga Kristjánsdóttir, sem hefur lengi verið áberandi í tónlistarlífinu í VMA, og Sigurður Einar Þorkelsson, skemmtanastjóri Þórdunu, kemur einnig við sögu,“ segir í fréttinni.

„Steinar Bragi Laxdal, formaður Þórdunu, segir að fljótlega eftir að hann tók við formennskunni haustið 2022 hafi hann viðrað þá hugmynd að hljóðrita nýtt VMA-lag en af því hafi ekki orðið fyrr en nú. Í millitíðinni vann Ársæll Gabríel lag sem var frumflutt á árshátíð VMA í fyrra en svo var rykið dustað af samstarfi við JóaPé og Sprite Zero Klan og útkoman var Akureyri sem hér má heyra. Lokið var við vinnslu lagsins um mánaðamótin febrúar-mars. Lokaupptökur voru í hljóðverinu Tónhyl í Reykjavík og JóiPé sá síðan um eftirvinnslu og hljóðblöndun. Steinar Bragi segist vera mjög ánægður með útkomuna og höfundar lagsins ekki síður.“