Fara í efni
Mannlíf

Akureyri er kjörin blanda af borg og bæ

Söngvaskáldið Svavar Knútur er nýfluttur til Akureyrar úr höfuðborginni og er hæstánægður með lífið á Eyrinni. Á laugardagskvöldið heldur hann sína fyrstu tónleika sem íbúi í bænum á kaffihúsinu LYST í Lystigarðinum. Þar ætlar hann að syrgja sumarið en jafnframt að fagna haustinu á notalegri haustkvöldvöku.

„Við vorum oft búin að tala um það að komast í rólegra og fallegra samfélag þar sem ekki þarf að keyra í hálftíma til að komast í hinn enda bæjarins,“ segir Svavar Knútur þegar hann er inntur eftir því hvernig það hafi komið til að þau hjónin hafi ákveðið að selja íbúð sína í Hlíðunum í Reykjavík og flytja norður með þrjú börn á leik- og grunnskólaaldri. Hann segir að þau hjónin hafi mögulega fengið nóg af umferð og hamagangi og langað að einfalda lífið með því að flytja á stað þar sem boðleiðir væru styttri. Vissulega sé margt gott í Reykjavík en fátt sem hann saknar samt þaðan síðan hann flutti ef frá eru taldir góðir vinir og fjölskylda. „Svo er það nú þannig að ég er, eins og svo margir af mínu sauðahúsi með athyglisbrest, en ég er aldrei betri en úti á landi þar sem er ekki þetta óþarfa áreiti sem fólk er búið að skapa sér. Maður upplifir að fólk sé að bölva umferðinni í 40 mínútur fram og til baka, til að fara á núvitundarnámskeið, og ýmislegt annað viðlíka sem einhvern veginn er búið að spinna sig upp í að sé mikilvægt,“ segir Svavar Knútur. Hann heldur áfram; „Mér finnst Akureyri vera alveg kjörin blanda af stórum bæ og lítilli borg. Næstum allir innviðirnir eru hér sem borg þarf að hafa en samfélagið er bæjarsamfélag. Mér finnst það mjög góð blanda.“

Svavar Knútur og fjölskylda fluttu úr höfuðborginni með allt sitt hafurtask á Eyrina á Akureyri í sumar.

Hrifinn af Eyrinni

Kona Svavars, Líney Úlfarsdóttir sálfræðingur, er Akureyringur og sjálfur er Svavar Knútur alinn upp í Skagafirði, svo taugarnar norður voru sterkar. Svavar Knútur segist reyndar vera hrifinn af mörgum stöðum á landsbyggðinni, ekki síst Hólmavík og Ströndunum, en þangað fer hann gjarnan til þess að anda. „Líney sótti um vinnu hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands sem hún fékk og ég get unnið hvar sem er. Þá fundum við dáfallegt hús á Eyrinni sem við keyptum ásamt bróður Líneyjar sem býr á neðri hæðinni,“ segir Svavar Knútur og heldur áfram. „Við erum held ég bara hæstánægð með þessa ákvörðun. Eyrin er ótrúlega sjarmerandi hverfi. Ég kann vel að meta nálægðina við hafnarsvæðið og þennan alþýðlega sjarma. Ég hef alltaf verið kirfilega „working class“ og þetta hverfi á vel við mig.“

Reykjavík orðin óþægilega stór

Svavar Knútur er töluvert á ferðalögum vegna tónleikahalds og breytist það ekki með nýju lögheimili. Þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans var hann staddur í borginni Gütersloh í Þýskalandi þar sem hann hefur undanfarnar vikur unnið við leikhúsverkefni. Hann segir starf sitt minna á sjómannslíf að því leyti að hann fer í burtu í vinnuferðir, jafnvel nokkrar vikur í einu og er svo heima á milli verkefna. „Það getur auðvitað verið erfitt fyrir fjölskylduna þegar ég er lengi í burtu en með því að flytja norður þá verður lífið einfaldara að mörgu leyti þó ferðakostnaðurinn hækki. Mér finnst nærsamfélagið hér halda betur utan um fólk og það er það sem við þurfum almennt meira á að halda í heiminum. Í stærri borgum er það erfiðara og meira að segja í Reykjavík sem er ekki stórborg þá finnst mér hún stundum óþægilega stór.“

Blómstrar í myrkri og kulda

Aðspurður hvort verkefnum á Norðurlandi muni ekki fjölga nú þegar hann er fluttur norður þá útilokar hann það ekki. Hann er t.d. nú þegar búinn að heyra frá kórstjóranum og organistanum í Akureyrarkirkju en hann hefur áhuga á því að bjóða upp á að nýta ukulele í kórastarfi og draga fram hinn blíða hörputón sem lúrir í þessu litla og skemmtilega hljóðfæri. Þá kveðst hann heldur ekki kvíða hinum norðlenska vetri, enda fæddur til þess að blómstra í myrkri og kulda og líði aldrei betur en á þeim árstíma. Svavar Knútur tekur því komandi vetri fagnandi, eins og gestir á áðurnefndri kvöldvöku í Lystigarðinum munu fá að sjá og heyra en þar ætlar hann að bjóða upp á frumsamið efni og eftirlætis tökulög sín í bland við sögur og spjall. Sumarið verður þó í baksýnisspeglinum.

Einn nýjasti íbúi Akureyrar, söngvaskáldið Svavar Knútur tekur komandi vetri fagnandi. Hann heldur tónleika á kaffihúsinu LYST laugardagskvöldið 10. september.