Akureyri á Tenerife – gallalaus bær!
Akureyringurinn Pálmi Guðmundsson flutti til Tenerife árið 2019 og valdi sér bæ til búsetu sem minnir að miklu leyti á Akureyri. „Gallalaus bær,“ segir Pálmi um heimabæ sinn Los Cristianos.
„Það er höfn hérna, kirkja og göngugata, allt minnir þetta á Akureyri. Þá er stærðin þægileg en hér búa um 24 þúsund manns. Ég finn a.m.k. einhverja tengingu hérna og líður afskaplega vel. Ég get hreinlega ekki fundið neina galla, það er bara allt jákvætt við þennan bæ.“
Pálmi, sem er árgerð ´55, hefur búið og starfað á Akureyri mest alla sína tíð en var þó sestur að í Reykjavík áður en hann flutti til Tenerife. Hann hefur aðallega fengist við ljósmyndum mörg undanfarin ár og var með vinsæl ljósmyndanámskeið. Á árum áður vann hann mikið við tónlist; var lengi plötusnúður í Sjallanum, rak hljóðverið Stúdíó Bimbó á Akureyri, þar sem hann tók upp nokkrar hljómplötur, og þá rak Pálmi útvarpsstöð um tíma.
Spurður um ástæðuna fyrir því að hann flutti til Tenerife árið 2019 segir Pálmi að hann hafi langað til þess breyta til og komast í hlýrra veðurfar. Hann sjái svo sannarlega ekki eftir því en reyndar hafði hann ekki verið lengi úti þegar Covid skall á. „Covid var erfiður tími en þá var ég lokaður inn í íbúðinni minni með vinkonu minni í 70 daga. Herinn og lögreglan var hér á vappi og bærinn tæmdist. Þetta var mjög furðulegur tími.“
Los Cristianos er fallegur fiskimannabær á suðurhluta Tenerife. Þar er skemmtilega blöndu af heimamönnum og ferðafólki að finna. Ljósmynd: Pálmi Guðmundsson
Nýtur lífsins í gamla bænum
Los Cristianos hefur þó náð fyrri sjarma og Pálmi nýtur þess að ganga um gamla bæjarhlutann og drekka kaffi á kaffihúsum bæjarins og fylgjast með mannlífinu. „Ég bý beint á móti kirkjunni og það eru um 50 veitingastaðir í bænum svo það er úr nógu að velja. Þá er hér allt til alls, apótek, strönd og alls konar verslanir,“ segir Pálmi. Hann segir að í Los Cristianos ríki allt önnur stemming heldur en á Las Américas og Costa Adeje, þangað sem flestir ferðamennirnir halda. Þó er ekki nema hálftíma gangur þaðan í bæinn hans, en munurinn er mikill.
„Já, því hér búa Spánverjar á meðan það eru bara ferðamenn sem dvelja á Playa Américas. Þá er verðlagið líka allt annað hérna, miklu ódýrara að fara út að borða,“ segir hann. Auk þessa að sinna ýmsum verkefnum í gegnum tölvuna, en hann rekur m.a. vefinn fjarnamskeid.is þá er oft hóað í Pálma af Íslendingum á ferðalagi á Tenerife sem vilja festa augnablikið á filmu t.d. í tilefni stórafmæla, ættarmóta og annars.
Gengur með fólk um bæinn sinn
Þá hefur Pálmi einnig tekið að sér að ganga um sinn heimabæ með ferðafólk enda þekkir hann orðið Los Cristianos vel eftir búsetu sína þar og hefur viðað að sér alls konar fróðleik um uppbyggingu bæjarins. Hann var svo heppinn að komast nýlega inn í elsta hús bæjarins sem enn er búið í en það var byggt árið 1860. „Það er enginn sem trúir því að það sé enn búið í þessu húsi enda orðið hrörlegt. En ég get vottað það því ég fékk að fara þangað inn og það mjög áhugaverð upplifun. Húsið er lítið og þröngt með engum íburði og hlutirnir hanga meira uppi á minninu þarna. Salernið er utandyra og ef ég skyldi það rétt þá var það almenningssalerni sem fleiri notuðu og greiddu fyrir að nýta í gamla daga. Ég á þó eftir að fá þetta staðfest,“ segir Pálmi sem er mjög áhugasamur um sögu síns bæjar. „Íslendingum finnst líka gaman að fá að smakka á mat heimamanna, geitaosti, pálmatrés sýrópi, hráskinku og fleira,“ segir Pálmi sem tvinnar slíkt inn í göngutúrinn.
Næsta gönguferð sem ferðafólki er boðið að slást í með Pálma um Los Cristianos er á morgun, 4. október. Ljósmynd: Pálmi Guðmundsson
30-40 Íslendingar búsettir í Los Cristianos
Aðspurður hvort margir Íslendingar búi í Los Cristianos þá telur hann þá vera um 30-40 að staðaldri. Alla sunnudaga er Íslendingahittingur á sænska kaffihúsinu Ann & Annas Cafe. „Á þessa hittinga kemur bæði fólk sem býr hér fast í nokkra mánuði í senn eða allt árið sem og ferðamenn sem eru jafnvel að spá í að prófa að búa á Tenerife. Við sem erum reyndari í þeim efnum getum þá miðlað af reynslu okkar og gefið góð ráð.“ Spurður að því hvort hann sakni einhvers frá Íslandi þá kemur fátt upp í hugann. Hann á auðvitað vini, fjölskyldu og kærustu á Íslandi en að öðru leyti finnst honum lífið fullkomið í Los Cristianos. „Það kemur stundum Calima (sandstormur frá Sahara) og svo eru hér líka kakkalakkar, en það er vel hægt að lifa með báðu. Auðvitað eru svo margir aðrir flottir bæir hér á Tenerife sem ég heimsæki gjarnan en minn staður er Los Cristianos.“