Akureyrarvaka afar vel heppnuð – MYNDIR
Afmæli Akureyrarbæjar var fagnað með Akureyrarvöku að vanda og var sú fallega menningarhátíð afar vel heppnuð að þessu sinni. Hún hófst á föstudaginn var og veislunni lauk á sunnudag.
Ljósmyndarar voru á ferð og flugi venju samkvæmt og Akureyri.net býður í dag upp á fallega veislu með 113 sýnishornum. Langflestar myndirnar eru úr smiðju Hilmars Friðjónssonar og eru honum hér með færðar þúsund þakkir fyrir framlagið.
Gaman var að fylgjast með hundaskrúðgöngu sem verslunin Gæludýr.is stóð fyrir á laugardaginn. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Metnaðurinn var mikill á Akureyrarvöku ársins. Fjöldi heimamanna bauð til margvíslegra viðburða og afburða utanbæjarmenn komu einnig við sögu – á frábærum tónleikum á Ráðhústorgi á laugardagskvöldið, sem kallaðir voru hápunktur hátíðarinnar, tróðu til dæmis upp bæði Emmsjé Gauti og Bubbi Morthens. Sá síðarnefndi lauk dagskránni ásamt hljómsveit sinni með perlum úr fjölbreyttu lagasafni og ótrúlegu að vöxtum. Bubbi fór á kostum við góðar undirtektir mannfjöldans sem fyllti torgið.
Akureyrarvaka er jafnan haldin sem næst afmælidegi kaupstaðarins sem er 29. ágúst og bar upp á fimmtudag að þessu sinni. Bærinn fallegi við fjörðinn ber aldurinn vel, ber líka af öðrum að sumra mati en samanburður af því tagi er í sjálfu sér óþarfur; hér una flestir glaðir við sitt, brosa hamingjusamir mót sólu og ræða um veðrið þegar svo ber undir en beina talinu að öðru þegar það á við ...
Áfram Akureyri og til hamingju með afmælið, Akureyringar!