Fara í efni
Mannlíf

Akureyrarmessa á ný í Bústaðakirkju

Akureyrarmessa í Bústaðakirkju fyrir nokkrum árum.

Akureyrarmessa hefur verið haldin árlega í Bústaðakirkju í Reykjavík í rúman áratug. Hún féll að vísu niður á síðasta ári vegna Covid faraldursins en þráðurinn verður tekinn upp að nýju eftir rúma viku – sunnudaginn 6. nóvember. Messan hefst klukkan 13.00.

Upphafsmaður viðburðarins var sr. Pálmi Matthíasson og hugmyndin einföld; þarna hittast brottfluttir Akureyringar og norðanfólk til að njóta góðrar samveru og rifja upp sameiginlegar minningar. Eftir messu er samverustund í safnaðarheimili kirkjunnar þar sem drukkið er kaffi og spjallað – og gjarnan bragðað á Lindukonfekti!

Helena Eyjólfsdóttir og Kristján Jóhannsson sungu í Akureyrarmessunni árið 2019, bæði saman og hvort í sínu lagi.

Messurnar hafa venjulega verið haldnar snemma að vori en brugðið er út af þeim vana nú; menn geta hreinlega ekki beðið til vors, segja þeir sem að samkomunni standa.

Akureyrarmessan hefur jafnan verið vel sótt og greinilegt að mikil þörf er til staðar til að hittast, rifja upp gömlu kynnin og sögur að norðan.

Séra Pálmi Matthíasson tekur á móti hjónunum Bernharð Haraldssyni og Ragnheiði Hansdóttir fyrir eina messuna.

Sr. Pálmi fékk með sér nokkra gamla Akureyringa í undirbúningsnefnd og hefur sá hópur hist reglulega á mörgum, löngum en skemmtilegum fundum til undirbúnings, að sögn viðmælanda Akureyri.net. Í föstu undirbúningsnefndinni eru auk sr. Pálma, eiginkona hans Unnur Ólafsdóttir, hjónin Davíð Jóhannsson og Þórdís Ósk Sigtryggsdóttir, systkinin Anna Þorbjörg og Magnús Ingólfsbörn og systkinin Ólafur Þór, Inga Jóna og Jóhann Björn Ævarsbörn og Grímur Sigurðsson. Fleira gott norðanfólk hefur komið að undirbúningnum eftir þörf.

Önnur skemmtileg hefð er að Kristinn G. Jóhannsson myndlistamaður hefur árlega málað og gefið mynd með fallegu myndefni að norðan til að nota í prentaða messuskrá og til kynninga.

Akureyri.net mun fjalla nánar um þessa skemmtilegu hefð þegar nær dregur.

Messuskrána hefur ætíð prýtt listaverk eftir Kristin G. Jóhannsson. Þetta er forsíða skrárinnar árið 2018.