Akureyrardætur styrktu Hjartavernd og KAON
Akureyrardætur slá ekki slöku við, hvorki í hjólreiðunum né í því að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Á dögunum afhentu þær Hjartavernd Norðurlands og Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis styrki upp á 150 þúsund krónur handa hvoru félagi. Í tengslum við afhendingu styrkjanna er einnig á dagskrá vitundarvakning um sjúkdóma sem tengjast þessum félögum, krabbamein og hjartasjúkdóma hjá konum, og hve mikilvæg hreyfing er sem forvörn.
Hér er um að ræða afrakstur frá Stelpugleðinni sem Akureyrardætur héldu í ágúst í fyrra, en það er hjólagleðikeppni þar sem hjólað er um nágrennið, og Nýársgleðinni sem haldin var í janúar.
Akureyrardætur eru alls ekki af baki dottnar, ef þannig má orða það, og munu að sögn halda áfram að hjóla til góðs og hvetja konur til að hjóla og mæta í samhjól í sumar. Haldið var svokallað laugardagspartí á Bjargi um liðna helgi þar sem Akureyrardætur héldu áfram að safna og notuðu tækifærið og afhentu áðurnefndum félögum styrkina.