Fara í efni
Mannlíf

AK Extreme: „Þetta er alltaf geggjað!“

Eiki Helgason á AK Extreme fyrir nokkrum árum. „Þetta er alltaf geggjað, árshátíð snjóbrettamanna á Íslandi!“ segir hann. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Nú er hátíðin AK Extreme að bresta á; hún hefst í dag og stendur til 3. apríl. Undirbúningur var á lokametrunum þegar Akureyri.net ræddi við Eika Helgason brettasnilling með meiru í gærkvöldi. Eiki sagði að nokkrar breytingar verði gerðar frá því sem áður hefur verið. Gámastökkið verður ekki í Gilinu að þessu sinni, heldur verður pallurinn fluttur upp í Hlíðarfjall og railmótið (handriðamótið) verður í Skátagilinu á laugardagskvöldið.

King of the Mountain

Dagskráin verður fjölbreytt og spennandi og Eiki tekur dæmi: „Það er viðburður á föstudeginum í Hlíðarfjalli, King of the Mountain. Þá fara allir keppendur upp í Strýtu og renna sér niður haldandi á orkudrykk í glasi! Sá sem er fyrstur niður og með mest í glasinu – vinnur.“

Eiki sagðist ekki taka þátt í undirbúningi Ak Extreme nema frá hliðarlínunni en var staddur í bíl með félaga sínum Hilmari Þór Sigurjónssyni, einum af sex framkvæmdaaðilum hátíðarinnar. Þeir voru á leið upp í fjall að skoða snjóinn og undirbúa. Svo þarf að flytja snjó úr fjallinu og niður í Skátagilið. „Þar er honum sturtað, svo mokum við honum til og setjum upp handrið og rör“, segir Eiki.

Allir geta tekið þátt

Hilmar Þór sagði að það þyrfti ekki að skrá sig til keppni heldur bara að mæta. Undantekningin frá þessu eru þeir sem eru yngri en 15 ára. Þeir þurfa að skrá sig hjá Brettafélaginu.

Að lokum er Eiki spurður hvort hann sé ekki orðinn spenntur og hann svarar: „Þetta er alltaf geggjað, árshátíð snjóbrettamanna á Íslandi!“

Nánar um hátíðina, tímasetningar og fleira, til dæmis fjölbreytta tónlistardagskrá, má finna í Dagskránni, AKX2022 og facebook-síðunni akextreme - Search Results | Facebook