Fara í efni
Mannlíf

Afslöppuð í Svíþjóð: Heldur ekki fast í hefðir

Freyja Dögg er fyrrverandi svæðisstjóri RÚV á Akureyri og fyrrum verkefnastjóri í menningarhúsinu Hofi. Í dag býr hún í Svíþjóð ásamt maka og þremur dætrum og starfar við samskiptamál og upplýsingagjöf hjá Ikea.

Freyja Dögg Frímannsdóttir, fyrrum verkefnastjóri í menningarhúsinu Hofi, fluttist til Svíþjóðar ásamt maka og þremur dætrum fyrir sex árum síðan. Akureyri.net hafði samband við Freyju til að forvitnast um sænskar jólahefðir, sem og jólahaldið á hennar eigin heimili.

Áður en rætt er um sænskar jólahefðir er við hæfi að byrja á því að spyrja Freyju út í það hvernig það kom til að fjölskyldan fluttist til Svíþjóðar og hvað þau séu að fást við þar.

„Við fluttum út vorið 2016 og fyrsta árið vorum við í Lundi en keyptum okkur svo hús í Höllviken sem er lítill bær um 20 kílómetrum suður af Malmö. Við höfðum áður búið í Svíþjóð, ég í háskólanámi í Stokkhólmi og maðurinn minn, Orri Gautur Pálsson, ólst upp í Västerås sem barn og fór svo í háskóla í Gautaborg. Einnig bjuggum við í nokkur ár í Kaupmannahöfn áður en við svo fluttum heim til Akureyrar á sínum tíma. Þannig að við höfum haft sterka tengingu við Norðurlöndin og þá sérstaklega Svíþjóð og þó okkur hafi liðið mjög vel á Akureyri vorum við alltaf opin fyrir því að flytja aftur til Svíþjóðar. Þegar dæturnar voru orðnar þrjár og sú elsta byrjuð í skóla ákváðum við að við yrðum að taka stökkið ef við ætluðum okkur það, áður en þær væru orðnar of stórar og erfitt að rífa þær upp frá vinum og félagslífi. Við sækjum bæði vinnu í Malmö, Orri vinnur sem forritari hjá sænsku fyrirtæki (Adpro) og ég vinn við samskiptamál og upplýsingagjöf hjá IKEA.“

Heimasæturnar þrjár eru Dísa 13 ára, Kata 10 ára og Mæja 6 ára. Myndin er tekin á jólunum í fyrra en fjölskyldan hefur alltaf varið jólunum í Svíþjóð síðan hún flutti út árið 2016.

Stríðnir jólaálfar

Aðspurð út í sænskar jólahefðir þá segir Freyja að margt sé líkt okkar jólahefðum á Íslandi, eins og svo sem á öllum Norðurlöndum. „Það sem er kannski sænskasta jólahefðin er Lúsíu hátíðin sem haldin er í aðdraganda jólanna, þann 13. desember. Þessi hátíð er tekin mjög hátíðlega í skólum og jafnvel á vinnustöðum. Börnin klæðast gjarnan í hvíta kjóla með ljósakórónur á höfði og stjörnudrengir [stjärngossar] eða sem piparkökufólk og svo eru sungnir sérstakir Lúsíu söngvar í bland við jólalög. Á mínum vinnustað hafa mismunandi deildir skipst á að skipa Lúsíukór og sungið lög yfir sameiginlegu morgunkaffi. Einnig eru þennan dag sjónvarpsútsendingar frá Lúsíutónleikum í sænska ríkissjónvarpinu sem er mjög hátíðlegt. Það er líka sérstakt bakkelsi tengt Lúsíuhátíðinni svokallaðar Lúsíubollur [Lussebullar] sem er sætt saffransbrauð,“ segir Freyja. Þá eru engir þrettán jólasveinar í Svíþjóð en skógjöfum hefur samt sem áður verið viðhaldið á heimilunum og verður svo á meðan yngsta dóttirin trúir enn á jólasveinana. „Við reynum líka að lesa fyrir dæturnar um íslensku jólasveinana og Grýlu og mér finnst mikilvægt að þær þekki þessar íslensku hefðir og menningu,“ segir Freyja. Svíarnir hafa í staðinn sænska jólálfa [Nissar] sem mæta til mannabyggða í desember og eru þeir algjörir stríðnispúkar. „Þeir skilja eftir sig spor í hveiti sem hefur einhverra hluta verið stráð á gólfið og eiga það til að færa hlutina í skólastofum yngstu barnanna á skrýtna staði á nóttunni og þeir skilja jafnvel eftir bréf með kveðju til barnanna. Mér skilst að þeir láti jafnvel á sér kræla heima hjá fólki, þó ekki hjá okkur Íslendingunum.“

Bakað fyrir Lúsíuhátíðina.

Óspennandi sænskur jólamatur

Önnur jólahefð sem er öðruvísi í Svíþjóð en á Íslandi er að Svíar skreyta jólatréið mjög snemma að sögn Freyju, margir jafnvel fyrsta í aðventu. „Fyrsta árið okkar í Svíþjóð vorum við mætt að kaupa jólatré viku fyrir jól og við vorum hreinlega heppin að finna tré því Svíarnir voru flestir löngu búnir að kaupa tré og búið að loka allflestum jólatréssölum. Nú kaupum við tréð snemma og geymum úti þar til um það bil viku fyrir jól þegar að við skreytum yfirleitt. Svo er eitt sem flestum Svíum finnst algjörlega ómissandi á aðfangadag og það er þegar að sænska ríkissjónvarpið sendir út (í línulegri dagskrá) gamlan Disney barnatíma með stuttmyndum með Andrési Önd, Mikka Mús og félögum, þetta horfa allar (eða a.m.k. mjög margar) fjölskyldur á saman klukkan þrjú á aðfangadag. Svo verð ég að nefna jólamat Svíanna sem er í raun hátíðarmatur þeirra sama hvaða hátíð er, hvort sem það eru jól, páskar eða jónsmessuhátið þá er alltaf einskonar hlaðborð með síld, kjötbollum, gröfnum og reyktum laxi, pylsum og á jólunum er jólaskinkan borin fram. Mér finnst þetta ekki sérstaklega spennandi matarhefð, og manni líður svolítið eins og allt sem borið er fram sé keypt í matvörubúðinni í IKEA.“

Risaeðlur, kafbátar og lamadýr í piparkökuformi

Aðspurð út í þeirra eigin jólahefðir þá segir Freyja að þau séu frekar afslöppuð. „Við bökum og skreytum yfirleitt piparkökur í desember og ein hefðin sem hefur myndast undanfarin ár er sú að við kaupum nokkur ný piparkökuform fyrir baksturinn. Í nágrenni við okkur er stór blómabúð sem selur frumleg og skemmtileg piparkökuform og við höfum reynt að fara í byrjun desember og velja einhver skemmtileg form. Við eigum til dæmis kafbát, lamadýr, kind og risaeðlu. Það er misjafnt hvenær við skreytum jólatréð, sem við kaupum yfirleitt frá sveitaverslun í nágrenninu en við borðum alltaf möndlugraut í hádeginu á aðfangadag. Yfirleitt koma tengdaforeldrar mínir með laufabrauð frá Íslandi sem við skerum, oftast með mágkonu minni og fjölskyldu sem býr í 40 mínútna akstursfjarlægð frá okkur í Kaupmannahöfn. Áður en við fluttum til Svíþjóðar eyddum við alltaf aðfangadagskvöldi hjá tengdaforeldrum mínum en eftir að við fluttum út hafa þau verið hjá okkur, að undaskyldum Covid jólunum tveimur 2020 og 2021. Þegar að ég var lítil fengum við systkinin alltaf að opna einn pakka fyrir matinn og það höfum við líka leyft okkar stelpum að gera. Það róar aðeins stemninguna sem er oft orðin ansi rafmögnuð seinnipartinn þegar að þær eru búnar að horfa á pakkahrúguna undir trénu allan daginn.“

Mæja klædd upp í tilefni Lúsíuhátíðarinnar.

Hamborgarar á aðfangadag

Hvað jólamatinn varðar þá hefur sú hefð skapast hjá Freyju og Orra að það er alls ekki sami jólamatur á borðum á milli ára. „Við metum það yfirleitt þegar að nær dregur hvað það er sem okkur langar í. Það skal þó segjast að oft hefur það verið lamb og stundum bernaissósa sem er mjög vinsæl í minni fjölskyldu. Hinsvegar ein jólin í Covid þegar að ein dóttirin var að ganga í gegnum slæmt matvendistímabil ákváðum við að leggja áherslu á að elda eitthvað sem öllum fyndist gott. Niðurstaðan var sú að það voru grillaðir hamborgarar á aðfangadag. Lúxusútgáfa fyrir okkur hjónin með allskonar meðlæti en börnin voru sátt við tómatsósu á sína borgara og allir voru glaðir,“ segir Freyja og bætir við að jólamaturinn í ár sé lambakóróna en þegar þetta var skrifað var enn verið að ræða innan fjölskyldunnar hvort boðið yrði upp á rauðvínssósu eða bernaise með kjötinu!

Ný piparkökuform eru alltaf keypt fyrir piparkökubaksturinn. „Í nágrenni við okkur er stór blómabúð sem selur frumleg og skemmtileg piparkökuform og við höfum reynt að fara í byrjun desember og velja einhver skemmtileg form. Við eigum til dæmis kafbát, lamadýr, kind og risaeðlu,“ segir Freyja.

Notalegur fjölskyldutími

Eins og áður segir þá vinnur Freyja hjá IKEA og þar er mikið að gera fyrir jólin eins og í flestum verslunum en þar sem hún er í skrifstofuvinnu finnur hún minna fyrir jólaálaginu. Hún segir að í vinnunni sé alltaf boðið upp á Lúsíukaffi þann 13. desember og svo er jólahlaðborð í hádeginu einhvern tímann í desember. Vikuna fyrir jól reynir hún að stytta vinnudaginn og gera eitthvað með fjölskyldunni. Það þarf ekki að vera flóknara en bara að eyða meiri tíma saman, stússast saman í eldhúsinu eða horfa saman á sænska sjónvarpsdagatalið. „Annars eru líka alls konar viðburðir í tómstundum stelpnanna í desember, tónleikar, dans og fimleikasýningar, þannig að það er alltaf nóg að gera. Mér finnst annars jólin vera notaleg hátíð og góður tími til að eyða með fjölskyldunni. Stundum finnst mér pakkastressið taka aðeins yfir en ég reyni að láta það ekki gerast og eins og ég segi þá höldum við ekki fast í einhverjar hefðir og erum alveg róleg þó að eitthvað sem við ætluðum að gera náist ekki eða ef plönin breytast vegna anna.“

Að lokum er ekki hægt að sleppa Freyju án þess að spyrja hana út í hennar jólaósk. „Mig langar helst að svara eins og alheimsfegurðardrottningar svara „friður á jörð“ en kannski óska ég þess bara að allir leggi sig fram um að vera góðir við sjálfan sig og aðra allt árið um kring. Þannig held ég að heimurinn verði betri ... og hver veit, kannski það leiði til friðar á jörð að lokum.“

Jólaálfar gera usla víða í Svíþjóð í kringum jólahátíðina.