Afríkudraumur úr æsku rættist í Búrkína Fasó
„Það var alltaf gamall draumur hjá mér að fara til Afríku, til þess að sinna hjálparstarfi og trúboði,“ segir Jóhanna Sólrún Norðfjörð, prestur í Hvítasunnukirkjunni. Hún heillaðist alveg sem barn, þegar hún var á samkomu hjá KFUM og -K í Keflavík og heyrði sögu kristniboða sem höfðu ferðast til Afríku. Áratugir hafa liðið, en í dag eru Jóhanna og eiginmaður hennar, Haraldur Pálsson, betur þekktur sem Haddi, að safna ýmsu dóti og hlutum í gám sem á að flytja til Búrkína Fasó, þar sem Jóhanna hefur látið drauminn rætast með hjálp góðs fólks, en þau hjónin hafa starfað sl. 10 ár í Búrkína Fasó.
Einn af þeim sem hefur heillast af hjálparstarfinu í Búrkína Fasó og tekið virkan þátt í verkefnum hjónanna undanfarin tvö ár, er Adam Ásgeir Óskarsson, fyrrum kennari í VMA og tölvuséní. Adam, Jóhanna og Haddi settust niður með blaðamanni Akureyri.net og sögðu frá ævintýrum sínum í Afríku.
Þetta er fyrsti hluti af þremur, af viðtalinu við Jóhönnu, Hadda og Adam.
Eftir tíu ára hjálparstarf við ABC skólann, eru Jóhanna og Haddi orðin framkvæmdastjórar skólans, en þau tóku formlega við af Hinriki Þorsteinssyni og Guðnýju Ragnhildi Jónasdóttur, stofnendum skólans, árið 2023. Frá vinstri, Hinrik, Guðný, Jóhanna og Haddi. Mynd: aðsend.
Æskudraumurinn dreginn upp úr tímans hafi
Lífið gerðist, eins og svo oft er sagt, hjá hjónunum Hadda og Jóhönnu. Haddi er pípulagningameistari og þau stofnuðu pípulagningafyrirtækið Áveituna árið 1998 og voru bæði að vinna þar, þegar æskudraumur Jóhönnu um Afríku bankaði aftur á dyrnar. „Árið 2010 fórum við hjónin á Alfa-námskeið í Sunnuhlíð, sem er svona námskeið um hvað er að vera kristin,“ segir Jóhanna. „Eitt af því sem við vorum spurð að, á þessu námskeiði, var hvað okkur hefði langað að verða, þegar við vorum börn. Og hvað við værum að gera í dag. Þá sagði ég að mig hefði langað að verða kristniboði og í hjálparstarfi í Afríku, en ég væri bókari í eigin fyrirtæki í dag.“
Jóhanna, af hverju kemur þú ekki með til Afríku?
Á leiðinni heim aftur, eftir námskeiðið, hefur Haddi á orði við konu sína að hann hafi nú aldrei heyrt um þennan Afríkudraum. „Ég sagði að það væri svosem ekkert mál, það væri orðið alltof seint hvort eð er,“ segir Jóhanna. „Haddi segir þá, að ef Guð vilji að ég fari til Afríku, þá opni hann leið.“ Það gerðist svo tveimur vikum seinna að hópur Biblíuskólanema kom til bæjarins og var að undirbúa ferð til Kongó árið 2011. „Við buðum þeim í mat, og ein stúlka í hópnum segir allt í einu; Jóhanna, af hverju kemur þú ekki með til Afríku?“
Jóhanna þurfti ekki að hugsa sig lengi um, og fyrsta ferð hennar til Afríku varð því til Kongó með þessum hóp. „Árið 2014 sér Haddi svo auglýsingu um Biblíuskóla í Fljótshlíð fyrir sunnan, þar sem innifalið væri að fara í þrjár vikur til Búrkína Fasó,“ segir Jóhanna. Þarna urðu svo ákveðin skil, þar sem hún vildi aðeins fara ef Haddi kæmi með. „Hann sagði að þetta væri minn draumur, að hann væri ekki að fara til Afríku. Honum fannst ég stilla sér svolítið upp við vegg, en hann samþykkti að fara með í eina ferð. Hann hefur svo farið í fleiri ferðir en ég síðan!“ Haddi glottir svolítið, en kannast auðvitað við það, að hafa sjálfur fallið fyrir Afríku þannig að ekki varð aftur snúið.
Hópur skólakrakka í ABC skólanum stillir sér upp á skólasvæðinu. Skólinn leit ekki alveg svona út árið 2015 þegar Jóhanna og Haddi komu fyrst. Hröð uppbygging hefur átt sér stað, en í dag eru 1.300 börn við nám í skólanum, sem hóf kennslu með 80 börn árið 2008. Mynd: aðsend.
Til vinstri: Oft er alltof heitt í Búrkína til þess að vera lokaður inn í skólastofu. Þá er best að læra úti í skugganum. Til hægri: Haddi hefur gjörbreytt aðgengi skólans að vatni, enda pípulagningameistari og lausnamiðaður með meiru. Myndir: aðsendar.
„Það var semsagt árið 2015 sem við komum fyrst til ABC skólans í borginni Bobo Dioulassou í Búrkína Fasó,“ segir Jóhanna. „Þessi skóli er stofnaður árið 2008 í samvinnu við ABC barnahjálp. Það voru þau Hinrik Þorsteinsson og Guðný Ragnhildur Jónasdóttir sem stofnuðu hann. Guðný ólst upp á Akureyri, en þau búa á Selfossi í dag.“ ABC skólinn hefur vaxið hratt síðan hann var stofnaður, en í dag eru þar 1.300 krakkar frá 4ra ára aldri. Þar er starfrækt forskóladeild, grunnskóli og menntaskóli.
Aðgengi að vatni er gríðarlega mikilvægt í heitu og þurru landi
Eins og áður sagði, er Haddi pípulagningameistari, en hann fór strax að vega og meta möguleikana og tækifærin til þess að bæta aðstæður skólans varðandi aðgang að vatni. Óhætt er að segja að það hafi verið rými til bætinga. „Það rignir bara einu sinni á ári í Búrkína. Þess á milli er skraufaþurrt og heitt,“ segir Haddi. „Heimamenn voru að sækja vatn ofan í uppsprettur eða brunna og bera það fleiri kílómetra. Þegar búið var að kanna grunnvatnsstöðu, reyndist vera mjög stutt niður og búið var að setja niður eina borholu þegar við komum að. Mitt hlutverk var að auka nýtingu á vatninu og setja niður stærri dælu sem knúin er með sólarsellum. Leggja lagnir til að dreifa vatninu um skólasvæðið, bæði til drykkjar og til að auka hreinlæti. Einnig höfum við komið að gerð tveggja ræktunarlanda sem eru nálægt skólanum og eru nýtt til að rækta mat fyrir nemendur.“
Til vinstri: Haddi og Jón Sverrir Friðriksson pípuleggja við örlítið breyttar aðstæður en heima á Íslandi. Til hægri: Hér er ekki komið með gröfu, heldur er allt grafið handvirkt. Myndir: aðsendar.
Þannig gjörbreyttist aðgangur fólksins að hreinu vatni, sem er gríðarleg búbót í svona heitu og þurru landi. „Í upphafi var drykkjarvatnið síað, en svo kom í ljós að það var bara óþarfi, það er svo hreint og gott,“ segir Haddi. „Búið er að taka vatn með til Íslands og greina það, og allt í besta lagi.“
Að geta einfaldlega skrúfað frá og fengið drykkjarvatn strax, er ómetanlegt í augum fólksins
„Á mjög fáum stöðum er rennandi vatn,“ segir Adam. „Það eru brunnar í landinu sem fólk sækir vatn í, oft um langar vegalengdir. Vatnið í brunninum kostar pening, en ekki hafa allir efni á því. Fólk leitar einhverra leiða. Börn eru oft send til þess að sækja vatnið. Það, að vera búin að koma fyrir dælum, leiðslum og krönum, þannig að krakkarnir í skólanum geta einfaldlega skrúfað frá og fengið drykkjarvatn strax, er ómetanlegt í augum fólksins þarna.“ Með auknum aðgangi að vatni fylgir aukið hreinlæti, en Jóhanna segir að það sé mikið lagt upp úr því, með svona stóran barnahóp. Heilsugæsla er einnig starfrækt í skólanum sem börnin hafa frían aðgang að.
„Vantar ykkur ekki gamlan tölvukarl?“
Adam kom inn í verkefnið seinna, eins og áður sagði. Hann tengist Jóhönnu og Hadda fjölskylduböndum, en þau eiga saman barnabörn. „Sonur minn og dóttir þeirra eru hjón,“ segir Adam. „Það var svo eiginlega bara grís að ég kom inn í þetta, í einhverju fjölskyldupartíinu þá segi ég svona meira í gríni en alvöru; hvort að þau vanti ekki gamlan tölvukarl með sér í Afríkuævintýrið, karl sem sé nýkominn á eftirlaun og þurfi ekkert kaup fyrir aðstoðina. Ég bjóst nú ekkert við alvöru viðbrögðum, en þau stukku á þessa hugmynd og það varð úr að ég fór með þeim í mína fyrstu ferð árið 2022.“
Adam hefur stórbætt aðstöðu skólans í tæknimálum. Til vinstri: Nemendur hæstánægðir með nýjar tölvur sem Adam hefur útvegað. Til hægri: Adam setur upp tölvurnar og sér um að allt sé eins og best verður á kosið í tölvustofunni. Myndir: aðsendar
„Fyrst bjóst ég nú bara við að verða handlangari í pípulögnum með Hadda,“ segir Adam, um væntingar til fyrstu ferðarinnar. „Ég sá svo fljótlega hvernig aðstaðan var, en það var tölvustofa á staðnum með tuttugu ára gömlum tölvum og það var hending hvort þær færu í gang eða ekki. Ekkert var nettengt og allt í skralli í raun og veru. Eftir heimkomuna fór ég á stúfana þar sem ég vissi að það stæði til að skipta út aragrúa af fínustu tölvum til þess að fartölvuvæða VMA.“ Það stóð ekki á stjórnendum Verkmenntaskólans og í næstu ferð tók Adam með sér tölvurnar. „Svo frétti ég af því að Vodafone væri að skipta út fartölvum fyrir starfsfólkið sitt og þar fengum við u.þ.b. 100 fartölvur sem fóru líka í ABC skólann.“
Það kemur alltaf annað slagið upp, eitthvað sem slær mann út af laginu
„Ég hafði áður komið til Afríku, til Suður-Afríku og Namibíu,“ segir Adam. „Þannig að ég hafði svolitla hugmynd um við hverju var að búast. Sjokkið var engu að síður talsvert þegar ég kom til Búrkína og þurfti að taka á þessu. Það vandist smám saman, en þó kemur alltaf annað slagið upp, eitthvað sem slær mann út af laginu.“ Adam rifjar upp þegar hann er á rölti fyrir utan skólann einhverju sinni og verður var við fatlaðan dreng sem er að elta hann í hópi annarra krakka. „Hann er mjög fatlaður, það vantar eiginlega á hann fæturna og hann gengur á höndunum. Hann var í svipuðum skólabúning og þeim sem er í ABC skólanum, var kominn þarna með bróður sínum og ætlaði að freista þess að fá að borða. Það var ekki til neinn matur heima hjá honum.“
„Neyðin er svo margvísleg og mismunandi“
Adam lætur vita af drengnum og með góðri hjálp komust hann og Jóhanna að því að ekki sé til peningur á heimilinu fyrir skóla, og hann hafi ekki heldur fengið að klára árið áður. Skólinn hans var í nokkurra kílómetra fjarlægð, hinum megin við ána. Þau semja við skólastjórann í grunnskólanum sem drengurinn á að vera í, en það kostaði 30.000 krónur íslenskar að koma drengnum aftur í skólann, borga skólagjöldin og bækurnar. „Barnið fékk að fara aftur í skólann, einungis vegna þess að við tókum eftir honum og gátum aðstoðað. Neyðin er svo margvísleg og mismunandi.“
Glaðlegur barnahópur í ABC skólanum. Uppvöxtur þeirra hefur verið mjög ólíkur því sem við eigum að venjast í vesturheimi. Mynd: aðsend
Jóhanna segir að það sé auðvitað þannig, að þau myndu vilja hjálpa öllum, en það sé slíkur mannfjöldi á svæðinu að það sé bara ekki hægt. „Við getum bara tekið eitt barn úr hverri fjölskyldu frá allra fátækustu fjölskyldunum inn í skólann,“ segir Jóhanna. „Nema ef um er að ræða tvíbura. Svo er í alveg einstaka tilvikum að við tökum inn systkini.“
Haddi segir að það sé rosalega erfitt oft á tíðum, að þurfa að vísa fólki frá. „Í október síðastliðnum, þegar skólaárið hófst, voru mæðurnar bókstaflega grátandi á skólalóðinni að reyna að koma börnunum sínum að. Þær reyna allt sem þær mögulega geta, eðlilega. Það er hræðilega erfitt að þurfa að vísa þessu fólki frá. Það er svo sannarlega pláss fyrir fleiri svona skóla í Búrkína.“
Næsti hluti viðtalsins verður birtur á morgun á Akureyri.net. Þá segir meira frá ástandinu í Búrkína Fasó o.fl.
- Á MORGUN – HÉLT EKKI AÐ SVONA AÐSTÆÐUR FÓLKS VÆRU TIL
Upplýsingar um styrki til ABC skólans
Til þess að styrkja barn í ABC skólanum í Búrkína Fasó, er farið inn á heimasíðu ABC barnahjálpar. Þar er val um að styrkja um 3.800 kr. mánaðarlega eða 5.800 kr. mánaðarlega. 3.800 kr. er kostnaðurinn fyrir eitt barn í Búrkína Fasó - það fær kennslu, skólabúning, skólagögn, heita máltíð daglega, heilsugæsluþjónustu, íþrótta- og tónlistakennslu og aðgang að tölvum fyrir þann pening.
Einnig er hægt að styrkja með eingreiðslum eða með matargjöfum. Allar upplýsingar á heimasíðu ABC barnahjálpar.