Afmælistónleikar Jóns á Græna hattinum
Jón Ólafsson hélt afmælistónleika fyrir troðfullum Eldborgarsal í Hörpu um síðustu helgi. Jón, sem varð sextugur í febrúar, heldur aðra afmælistónleika, öllu smærri í sniðum og persónulegri, á Græna hattinum næstkomandi laugardagskvöld.
„Tónleikarnir í Eldborg gengu vonum framar. Það var rosalega gaman að sjá þar framan í alls konar fólk, sumt sem ég hafði ekki séð árum saman, til dæmis gamla skólafélaga frá ýmsum skólastigum. Margir höfðu tekið sig saman og mættu í hópum. Það var yndislegt, ég varð satt að segja hálf klökkur!“ segir Jón við Akureyri.net.
Spilað á öllum stöðum bæjarins
„Í Hörpu voru margir gestir með mér á sviðinu. Ég söng ekki mikið þar en á Græna hattinum verða þetta meira Jóns Ólafssonar-tónleikar; ég syng sjálfur og Daníel Ágúst [Haraldsson] verður sérstakur gestur. Við tökum góðan Nýdönsk pakka líka,“ segir afmælisdrengurinn Jón. Þeir eru einmitt saman í þeirri vinsælu hljómsveit, Nýdönsk.
Jón og synir hans, Jökull og Kári Kolbeinn, á tónleikunum í Eldborg um síðustu helgi.
Jón hefur verið lengi í bransanum og margoft komið fram á Akureyri.
„Ég er búinn að spila reglulega á Akureyri í gegnum ferilinn. Akureyri er annar vinsælasti viðkomustaðurinn fyrir utan Reykjavík, þar sem maður býr. Ég hef sennilega spilað á öllum stöðum sem reknir hafa verið á Akureyri; Sjallanum, H-100, Uppanum, 1929 ... Svo hef ég auðvitað margoft spilað í Hofi. Það má segja að ég hef tekið þátt í skemmtistaðaþróun bæjarins,“ segir Jón og bætir við: „Svo var ég fyrsti maðurinn til að spila á Græna hattinum eftir að hann varð alfarið tónleikastaður.“
Ólöglegur með KA!
Jón hefur reyndar meiri tengingu við höfuðstað Norðurlands en að hafa spilað þar margoft. Fósturfaðir hans, Sigurður Friðrik, var elsti sonur hjónanna Haraldar M. Sigurðssonar og Sigríðar Kristbjargar Matthíasdóttur.
„Afi, Halli Sig, kenndi öðrum hverjum dreng á Akureyri leikfimi í gamla daga og ég kynntist ógrynni fólks þegar ég var hjá afa og ömmu á Byggðaveginum,“ segir Jón þegar hann hugsar til baka. Haraldur afi hans var formaður KA um tíma og Jón upplýsir um glæp sem er löngu fyrndur; óþarfi er hóa saman aganefnd Knattspyrnusambands Íslands á fund! Jón er gallharður Þróttari „en ég spilaði einhverja leiki með KA í yngri flokkunum – ólöglegur að sjálfsögðu – með Kidda frænda og fleiri góðum. Skoraði meira að segja einhver mörk ef ég man rétt.“
Kiddi frændi er Kristján Kristjánsson útvarps- og sjónvarpsmaðurinn kunni sem þessi misserin stjórnar þættinum Sprengisandi á Bylgjunni alla sunnudagsmorgna. Svo skemmtilega vill að Kiddi frændi er og hefur verið formaður knattspyrnudeildar Þróttar undanfarin ár.
- Tónleikar Jóns á Græna hattinum hefjast klukkan 21.00 á laugardagskvöldið.