Fara í efni
Mannlíf

Afmælistónleikar Helga Björns í Hofi á föstudag

Helgi Björnsson á tónleikum í Hörpu í Reykjavík. Mynd: Mumma Lú

Söngvarinn Helgi Björns heldur tónleika í Hofi á föstudagskvöldið og marka þeir upphaf afmælistónleikaveislu þar sem farið verður yfir 40 ára tónlistarferils þessa þekkta leikara og söngvara.

„Árið 2024 markar tímamót á ferli Helga Björnssonar, þegar hann fagnar 40 árum í íslensku tónlistarlífi. Til að fagna þessum áfanga mun Helgi halda stórtónleika í Hofi á Akureyri á föstudagskvöldið. Þeim tónleikum verður svo fylgt á eftir í Eldborg í Hörpu helgina 22.-23. nóvember þar sem áhorfendur fá að upplifa öll hans þekktustu lög,“ segir í tilkynningu frá tónleikahöldurum.

Með Helga á tónleikunum kemur fram einvalalið hljóðfæraleikara. Hópurinn er hér á æfingu í vikunni, frá vinstri: Bergur Einar Dagbjartsson, Magnús Jóhann Ragnarsson, Matthías Stefánsson, Hrafn Thorodd­sen, Ingólf­ur Sig­urðsson, Jakob Smári Magnússon, Ómar Guðjónsson, Stefán Magnús­son og Helgi Björnsson. Mynd: Einar Birgir Einarsson

Rigningin er enn góð!

„Árið 1984 birtist Hið helga Bé sem fullsköpuð stjarna á himnafestingu íslenskrar rokktónlistar,“ segir í áðurnefndri tilkynningu. „40 árum síðar hefur Helgi Björnsson gert heila þjóð að vini sínum, kynslóð fram af kynslóð. Jafnvel tíminn er vinur hans, enda hefur tíminn slípað þennan gimstein í áranna rás meðan Helgi hefur blygðunarlaust látið tímalausum perlum rigna yfir þjóð sem þyrstir eftir snertingu við hjartað. Íslendingum finnst þessi rigning góð og það rignir enn.“

Rétt er að nefna, yngri lesendum til upplýsingar, að í laginu Húsið og ég, einu þekktasta lagi Helga á fyrstu árum ferilsins, er hið ódauðlega viðlag sem margir hafa sungið í gegnum tíðina: Mér finnst rigningin góð. Textann samdi eiginkona Helga, leikkonan Vilborg Halldórsdóttir, og lagið kom út á plötunni Get ég tekið séns sem hljómsveitin Grafík sendi frá sér árið 1984.

„Árið 2024 fögnum við 40 ára sígrænum ferli sem tímabundin trend ná aldrei að hagga. Maðurinn sem fer alla leið; jafnvígur á grátur, hlátur, öskur, stans, dans, stendur Hólí Bí á skýi og skýtur þig með ástarörvum í hjartað. Segðu já og við ríðum sem vindurinn í sumar og haust.“

Í tilkynningu segir að í tilefni 40 ára starfsamælis Helga kemur út þreföld vínylplata og tvöfaldur geisladiskur með vinsælustu lögunum á ferli hans. Á plötunni eru lög frá sóló ferli Helga, Grafík, SSSÓL og Reiðmönnum vindanna.