Fara í efni
Mannlíf

Af sólarhringshvolpi og Kobba, Kobba og Kobba

Þegar ég var snáði dreymdi mig, eins og svo marga, um að eiga hund. Sá draumur rættist – í einn sólarhring. Ætli ég hafi ekki verið svona sex ára.

Þannig hefst Orrablót dagsins þar sem Orri Páll Ormarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, heldur áfram að rifja upp æskuárin á Akureyri.

Við erum að tala um hvolp sem kom frá Höskuldsstöðum í Eyjafjarðarsveit, þar sem hjónin Sigurður Snæbjörnsson, föðurbróðir minn, og Rósa Árnadóttir réðu húsum – og dýrum. Algjört eðalfólk, bæði tvö. Ekki man ég hverrar tegundar hvolpurinn var, fyrir mér var þetta bara hvolpur. Líklegast er þó að um íslenskan fjárhund hafi verið að ræða. Voru þeir ekki vinsælastir í sveitunum í gamla daga?

Ég man það ekki svo ofboðslega gjörla en eflaust hef ég verið búinn að suða í dágóðan tíma og að því kom að mamma og pabbi létu undan. Við bjuggum á þessum tíma á annarri hæð í raðhúsi í Heiðarlundi en með sérinngang á jarðhæðinni, þannig að þetta átti alveg að ganga upp.

En gerði það ekki.