Ævintýri líkast að fara á skíði í fyrsta sinn
Átta nemendur í Sjávarútvegsskóla GRÓ brugðu sér á skíði í Hlíðarfjalli á dögunum. Það sem er athyglisvert við þennan skíðahóp er, að fæst þeirra hafa nokkurn tíma séð snjó áður en þau komu hingað til lands í janúar, né hafa þau upplifað kulda.
Fjórir stúdentar við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri voru þeim til halds og trausts í þessari ferð, þau Hermann Biering Ottósson, Kristín Erla Guðmundsdóttir, Fanney Gunnarsdóttir og Dagur Benediktsson. Hreiðar Þór Valtýsson, dósent við Auðlindadeild og umsjónarmaður Sjávarútvegsskólans GRÓ var einnig með í för. Hann sagði í samtali við Akureyri.net að ferðin hefði verið ævintýri, mjög skemmtileg, og flest þeirra myndu vilja fara aftur.
Glaðbeittur hópur áður en fjörið hófst. Frá vinstri: Kristín Erla Guðmundsdóttir, Dagur Benediktsson, Benrina Demoh Kanu frá Sierra Leone, Chadwick Bironga Henry frá Kenya, Saúl Patricio Pacheco Reyes frá El Salvador, Martha Nakapipi frá Namibíu, Isaac P. Johns frá Líberíu, Hreiðar Þór Valtýsson, Zoe Yarwhere frá Líberíu, Geraldeen Hastings-Spaine frá Sierra Leone, João António Furtado Brito frá Grænhöfðaeyjum, Fanney Gunnarsdóttir og Hermann Biering Ottósson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Kannski aldrei aftur á skíði
Það viðraði sæmilega á hópinn í fjallinu; hitinn rétt yfir frostmarki. Hermann Biering, nemi í viðskipta- og sjávarútvegsfræði við HA sagði í samtali við Akureyri.net að það hefði verið frekar blautt, „ekkert spes skyggni og versnaði þegar leið á. Þau hafa ekki áður verið að upplifa kulda og eru að sjá þetta allt í fyrsta skipti.“ Hermann bætti við að stemningin hefði samt verið góð. Sum þeirra langaði að endurtaka ferðina í fjallið þegar þau áttuðu sig á að þau munu kannski ekki fara á skíði aftur á lífsleiðinni; eftir veru sína hér.
Skíðaiðkunin lá misvel fyrir fólki en það kom ekki í veg fyrir að öll skemmtu sér vel: „Það var mikið hlegið. Við hlógum að þeim og þau að okkur.“ Hann bætti við: „Þetta virkar svo einfalt fyrir manni þegar maður er búinn að vera lengi í þessu en svo er það kannski ekki málið alltaf“, en Hermann hefur verið á skíðum og snjóbretti frá því hann var sjö ára gamall.
Of spennt til að finna fyrir kuldanum
Zoe Yarwhere frá Líberíu er ein þeirra sem skellti sér í fjallið á skíði. Hún sagði að þetta hefði verið frábær og spennandi lífsreynsla, algjörlega ævintýri líkast. Allir voru glaðir og ánægðir, sagði Zoe, og langaði að vera lengur í fjallinu. Hún sagðist hafa verið of spennt til að finna fyrir kuldanum þó hún væri vön sólinni og hitanum í Afríku. Zoe bætti við að hún væri orðin frekar þreytt á snjónum. Hana og nokkra aðrir úr Sjávarútvegsskóla GRÓ langar þó mikið að fara í fjallið aftur en þau þyrftu aðstoð og auk þess væri ekki hægt að fara þangað uppeftir nema á bíl.
Koma tímar og koma ráð ...