Fara í efni
Mannlíf

Trölladans og skothríð í ævintýralegri flugferð

Avro Anson-flugvél, sömu tegundar og Jóhannes flaug í gegnum skothríð í Eyjafirði 1944.

Margir Eyfirðingar urðu vitni að ævintýralegri atburðarás í seinni heimsstyrjöldinni þegar þeim varð litið til himins einn góðan veðurdag í marsbyrjun árið 1944. Sagan um ókunnu flugvélina sem flaug inn fjörðinn og mætti þar skothríð herskipa sem lágu úti fyrir Akureyri var á allra vitorði í bænum og í nágrenni hans lengi eftir að stríðinu lauk. Mögulega eru einhverjir enn til frásagnar um þetta sjónarspil í háloftunum yfir Eyjafirði vorið 1944. Víst er þó að þeim fer fækkandi.

Ekki löngu áður en flugvélin nálgaðist Eyjafjörð hafði hún lent í miklum veðurhrakningum, svo mjög að hluti af þaki vélarinnar flettist af. Nokkru síðar mætti löskuð vélin, og skelfingu lostin áhöfnin, skothríð frá tundurspilli sem lá norðan Hríseyjar. Vélin komst í gegnum byssukúluregnið þrátt fyrir vængbrot eftir eina kúluna. Augnabliki síðar hófst önnur skothríð frá herskipi sem lá við Hjalteyri. Meðan á árás herskipanna stóð gerðu loftvarnaskyttur setuliðsins í Krossanesi sig klárar að hleypa af fallbyssum í átt að vélinni ef ske kynni að hún slyppi í gegnum skothríð skipanna.

Skipverjar á herskipunum tveimur og setuliðsmenn í herstöðinni á Krossanesi töldu að þarna væri um þýska Junkers 88 vél að ræða frá þýska hernum. Það sem þeir vissu ekki var að vélin og flugmaður hennar var úr þeirra eigin röðum, bresk af gerðinni Avro Anson. Tilgangur ferðarinnar var að sækja veika konu austur á firði. Annar flugmaður vélarinnar var Jóhannes R. Snorrason. Frásögn Jóhannesar af þessari örlagaríku ferð birtist í Degi á aðfangadag árið 1946 undir fyrirsögninni Eftirminnileg flugferð til Egilsstaða – í stormsveipum út af Siglufirði – í loftvarnaskothríð inn Eyjafjörð. Sagnalist skráir magnaða frásögn Jóhannesar eftir hinni upprunalegu heimild og miðlar til lesenda. Gefum Jóhannesi R. Snorrasyni orðið:

Jóhannes Snorrason á unga aldri og flugvél merkt TF - ISI á Reykjavíkurflugvelli um miðja síðustu öld. Ljósmyndir: Gunnlaug P. Kristinsson og Guðni Þórðarson.

 

„Hinn 6. marz 1944 var rigning í Reykjavík og drungalegt, suðvestan veður. Allar flugvélar hersins sátu í röðum á flugvellinum, vígalegar og tilbúnar til flugs um leið og þokuúðanum létti. Rauðka, eins og hún var oft kölluð, TF – ISI, eina flugvélin sem Flugfélag Íslands átti, sat austur á Egilsstöðum á Völlum með bilaðan hreyfil. Henni hafði verið ætlað að sækja sjúkling er þurfti að komast í skyndi til Reykjavíkur. Loftleiðin var eina hugsanlega leiðin til þess að koma sjúklingnum á áfangastaðinn og stykki í hinn bilaða hreyfil, TS – ISL. Nú voru góð ráð dýr.

Royal Airforce hafði fjölda flugvéla hér á vellinum í Reykjavík en flestar voru ekki beint sú gerð sem hentaði bezt til Egilsstaðaflugs. Afgömul og ósköp þreytuleg Avro Anson flugvél, sem sennilega var búið að margskjóta niður og líma saman aftur, sat með slapandi vængi sem glönsuðu í rigningunni sunnan undir vegg á flugvellinum og hefði hún aðeins getað talað örfá orð hefðu þau vafalaust orðið: „Leyf mér að hvíla í friði.“ Menn tóku að líta hýru auga til hennar og vappa í kringum hana eins og ef hún væri til sölu. Meiningin var að fara þess á leit við herinn að hann lánaði gripinn í ferðina til Egilsstaða. Það stóð víst aldrei á hjálp frá hernum ef um sjúkraflug var að ræða og þannig var það í þetta sinn.

Grána var lánuð, með áhöfn, til þess að inna þetta verk af hendi. Ég var fenginn til þess að sitja í annars-flugmanns sætinu og vísa leiðina þar sem ég hafði flogið þessa leið svo oft á Rauðku en hin enska áhöfn hafði aldrei komið út á land. Brandur Tómasson, vélamaður, slóst með í förina með stykki í TF – ISL og auk þess tvo þunga rafgeyma. Alls vorum við fimm um borð er við lyftum okkur upp af Reykjavíkurflugvellinum snemma morguns þann 7. marz. Mikil þoka var og dimmviðri og misstum við sjónar á landi svo að segja strax. Við þvældumst í blindþoku einhvers staðar úti á Faxaflóa í um eina klst. en urðum síðan að lenda aftur í Reykjavík. Þetta var sannkölluð fýluferð en þær þekkjum við sem fljúgum hér á slandi.

Næsta morgun var lagt af stað í býti og var veður all bjart en strekkingur af suðvestri. Það var ákveðið að lenda á Akureyri og bæta við eldsneyti, þar sem flugvélin hafði ekki nægan forða til beins flugs til Egilsstaða, ef einhverjar krókaleiðir þyrfti að fara. Það var lágskýjað á Holtavörðuheiðinni, eins og venjulega, og stýrði ég vélinni yfir hana og elti ýmist veg eða símalínur. Þegar kom að Miðfjarðarbotni var mér ljóst, að vindur var orðinn allhvass af suðvestri enda gekk nú allt á endum. Yfir Hópið flugum við í um 400 metra hæð og sátum allir hinir rólegustu og brezki flugmaðurinn stýrði vélinni.

Allt í einu heyrum við eitt heljarmikið skot, rétt eins og hleypt hefði verið af fallbyssu inni í vélinni og á eftir fylgdi ærandi hvinur, brestir og sog. Ég sá höfuð flugmannsins hverfa niður á milli herðanna og hann tókst næstum upp af stólnum, sjálfur vissi ég ekki hvort ég sat eða stóð en varð þess fljótt áskynja að þakið fyrir ofan sæti okkar hafði blátt áfram brotnað af og lent á loftskeytamastrinu og brotið það, en það sem ekki hafði Iosnað af dinglaði aftur með skrokk flugvélarinnar. Þetta var eitt heljarmikið gat og var sogið svo mikið að hárið stóð beint upp í loftið á höfðum okkar, sem sátum undir því. Flautið og hvinurinn var eins og væri verið að hengja hundrað ketti. Menn jöfnuðu sig fljótt eftir skotið en ég man, að er ég leit aftur fyrir mig, sá ég ekkert nema sex uppglennt og spyrjandi augu. Þetta gat í rauninni orsakað alvarlegt ástand ef stykki úr þakinu hefði lent á stýrum vélarinnar, brotið þau eða sett þau föst.

Nú tók að hvessa og er við flugum yfir Skaga, sá ég að rok var á Haganesvík og er við nálguðumst hana, sagði ég við flug manninn að nú myndi bezt að fara djúpt af Siglunesi og læðast inn með Eyjafirðinum austanverðum til þess að losna við vindsveiflur af Siglufjarðarhálendinu og fjöllunum við Ólafsfjörð. Undir þessum fjöllum, upp undir landi, var sjór alls ekki úfinn en svartar vindrósir óðu með ótrúlegum hraða frá landi og rauk sjó með köflum.

Flugmaðurinn ákvað að fljúga lágt meðfram fjöllunum að vestanverðu. Nú leizt mér ekki á blikuna þar sem ég vissi af eigin reynslu, að undir þessum fjöllum geta vindsveipar orðið ægilega snarpir og í veðri eins og þessu myndi erfitt að ráða við vélina. Það skipti engum togum að er við vorum um það bil út af Siglufirði byrjuðu loftköstin og þau ekki neitt smáræði. Nú reyndi hver að halda sér sem fastast og þar sem við Brandur vorum báðir óbundnir, gripum við báðum höndum niður fyrir stóla þá er við sátum á. Brandur slitnaði upp og flaug upp í þak og fékk við það kúlu mikla á hvirfilinn. Allt lauslegt var ýmist upp í þaki eða á gólfinu, jafnvel rafgeymarnir svifu fram og aftur og óttuðumst við að fá þá í hnakkann og svo sýrubað á eftir. Flugmaðurinn hékk í stýrinu svona álíka eins og ég í stólnum mínum og gluggakarminum. Ég mátti sannarlega ekki sleppa mínum tökum þar sem ég hefði svifið beint upp um gatið á þakinu og í sjóinn, hvílík hugsun! Ekki veit ég hvernig í ósköpunum vélin fór að hanga saman eða á réttum kili alla leið inn fyrir Ólafsfjörð. Ég held að allir hafi verið dauðfegnir er við loksins komumst út úr þessum trölladansi.

Við flugum nú í um 500 metra hæð og stefndum vestan vert við Hrísey. Töluvert lygndi er innar kom og á Akureyri var hægviðri. Eyjafjörðurinn blasti nú við, bjartur og fagur, eins og ég hefi svo oft séð hann. Stórir sólskinsblettir glömpuðu innar á firðinum og í einum þeirra sá ég skipið sem ávallt hélt vörð um Eyjafjörðinn; það var rétt norðan Hríseyjar. Við stefndum aðeins vinstra megin við varðskipið en er við áttum um það bil eina mílu eftir að því tók ég eftir því að það setti á fulla ferð og beygði ört til hægri. Ekki datt mér neitt óeðlilegt í hug fyrr en ég tók eftir því að bláan reyk lagði upp af afturenda skipsins. Ég hafði ekki horft á þetta nema fáeinar sekúndur þegar ég sá rauðglóandi kúlu þjóta upp með vélinni hægra megin. Nú var ástandið ekki glæsilegt. Ég æpti í flugmanninn að tundurspillirinn væri að skjóta á okkur. Hann yppti öxlum, eins og hann áliti þetta óhugsandi. Í sömu andránni þutu vélbyssukúlurnar öllum megin við vélina og mátti greinilega heyra brakið í byssunum yfir drunurnar í hreyflum flugvélarinnar. Okkur var vafalaust öllum ljóst að nú vorum við í hinum mesta háska, í 400 til 500 metra hæð, svo að segja beint fyrir ofan herskip sem var löðrandi í byssum og skaut úr öllum miskunnarlaust, á okkur bjargarlausa og bráðsaklausa! Það var óhugnanlegt að sjá þessar eldrákir rétt við nefið á sér, vitandi að fjöldi manna, með hin dauðlegustu vopn, gerði sitt bezta til þess að hæfa þetta auðvelda skotmark.

Allt í einu sáum við að ein kúlan hafði hitt hægri vænginn, rétt fyrir utan miðju, og stóðu dúktætlurnar út í loftið. Flugmaðurinn kallaði til mín að skjóta neyðarskotum. Ég lét ekki segja mér það tvisvar og nú þutu neyðarskotin upp um gatið á þakinu. Þegar þau rauðu voru búin, var gripið til þeirra gulu, hvítu og jafnvel grænu! Við flýðum allt hvað af tók og við það lækkuðum við flugið niður í um 200 metra. Stórar loftvarnabyssur voru komnar í gang og sprungu kúlurnar víðs vegar í kringum vélina. Skipið var eins og spúandi eldfjall er það hvarf aftur fyrir vænginn. Þvílík kveðja frá bandamanninum, hugsuðum við, og þvílíkar skyttur! Við lofuðum hamingjuna fyrir að vera sloppnir úr þessum háska. Öll loftnet höfðu slitnað og radiomastrið brotnað svo að við gátum engan veginn gert þessum veiðimönnum skiljanlegt að við vorum friðaður fugl.

Er við nálguðumst Hjalteyri sá ég annað skip út á firðinum af svipaðri gerð. Ég krossaði mig í bak og fyrir; skyldu þetta vera sama asnategundin og á fyrra skipinu? Ekki vorum við komnir nema í um mílu fjarlægð frá skipinu þegar það fór að spúa eldi og blýi og enn ákafar en það fyrra. Nú urðu öll andlit föl enda þaut ein kúlan undir stól loftskeytamannsins og önnur gegnum skottið, rétt aftan við festinguna á einu stýrinu. Þetta var æðisgengið „skytterí“! Ég hafði fallhlífina handbæra, ef ske kynni að rauðglóandi kúla hitti benzíngeyminn og allt færi í bál. Landvarnarliðið var líka komið til sögunnar og sprungu þeirra kúlur flestar í fjallinu austan fjarðarins. Ein þeirra hefði án efa tætt vélina og okkur alla í agnir ef hún hefði hitt.

Við lögðum á annan flótta og nú upp að landi vestan fjarðarins, við mynni Hörgár. Ég þóttist vita að við myndum skotnir niður í höfnina á Akureyri ef við flygjum þar yfir, svo að ég ráðlagði flugmanninum að fljúga lágt upp með Hlíðarfjalli og Súlum og síðan niður með Kristnesi og á flugvöllinn. Ekki tók hann það ráð en stefndi á Krossanes. Mig langaði mest til þess að henda mér út þar sem ég vissi að Bandaríkjamenn höfðu mikla herstöð einmitt í Krossanesi. Við flugum í um 50 metra hæð yfir þessa herstöð og sá ég þar menn á harða hlaupum. Ég átti von á kúlu í bakið þá og þegar þar sem allir voru að hlaupa að byssunum. Í þessari hæð læddumst við inn á flugvöll og var tekið þar með reiddum rifflum. Varðmennirnir þar höfðu fengið tilkynningu um að þýzk Junkers 88 væri á leið inn fjörðinn. Þeir biðu með allar byssur hlaðnar en hættu við að skjóta er við settum hjólin niður og lentum. Á Akureyri hefðum við vafalaust verið skotnir niður því að þar var mikill viðbúnaður á mörgum skipum. Mikil réttarhöld urðu innan hersins út af þessu atviki og veit ég ekki ennþá hver átti í rauninni sökina á þessum mistökum.

Við flugum til Egilsstaða daginn eftir en þá hafði verið gert við mest af því er skemmdist. Sjúklingurinn var lagður á gólfið og gengið eins vel frá honum og unnt var. Síðan var lagt af stað til Akureyrar en á þeirri leið hrepptum við rok og mjög ókyrrt loft. Hin sjúka kona var óbundin og óttuðumst við að hún myndi hendast upp í loft. Var því það ráð tekið að einn af áhöfninni skyldi halda henni niðri og reyndist það full erfitt þótt notaðar væru til þess hendur sem fætur.

Lendingin á Melgerði þann dag var erfið enda hvasst á suðvestan. Afgreiðslumaður Flugfélags Íslands á Akureyri hafði haft þar viðbúnað, þar eð hann áleit að illmögulegt væri að lenda þar í slíkum stormi. Flugvélin hafði næstum numið staðar á brautinni er vindsveipur greip hana á loft aftur og flutti hana út af brautinni, stjórnlausa, en lagði hana svo rólega niður aftur, að hún skemmdist alls ekkert; þótti það hin mesta furða. Vélin var nú bundin vel niður og hugsað til ferðar næsta dag.

Sá dagur rann upp heiðbjartur og Eyjafjörðurinn var allur eins og spegill á að líta. Mér datt í hug að nú hefði skaparinn iðrast þess, hversu illa hefði verið með okkur farið og nú myndi allt ganga að óskum sem eftir væri. Er við hófum okkur til flugs, gaus upp mjög mikill reykur inni í vélinni og svo dimmur að ég sá ekki aftur í aftasta hólfið þar sem sjúklingurinn lá. Ég var eiginlega hættur að verða undrandi hvað sem á gekk. Þetta var orðið svo hversdagslegt að enginn fáraðist um lengur þótt allt gengi á afturfótunum. Vélinni var beint til lendingar aftur hið snarasta en þá var amerísk flugvél búin að taka sér stöðu á brautarendanum svo að ekki virtist árennilegt að lenda. Ameríski flugmaðurinn, sem var General Keeth, sá að ekki var allt með felldu hjá okkur og hraðaði sér út af brautinni. Við lentum án þess að eldur yrði sjáanlegur og nú var farið að grafast fyrir um það, hvað hefði orsakað reykinn. Margar leiðslur voru klipptar sundur og brátt hætti reykurinn. General Keeth sendi einn af sínum mönnum til þess að bjóða sjúklingnum far í sinni vél til Reykjavíkur. Hin brezka áhöfn ljómaði af ánægju er hin sjúka kona sagði að hún vildi ekki heyra það nefnt að skilja við okkur, sér hefði liðið svo prýðilega á leiðinni!

Við flugum þennan dag suður Kjalveg, í ljómandi veðri og lentum á flugvellinum eftir um einnar klst. flug frá Melgerði. Gamla Grána var nú alveg að gefast upp enda flettist dúkurinn neðan af öðrum vængnum á stórum kafla rétt áður en við komum til Reykjavíkur. Þannig lauk þessari eftirminnilegu flugferð til Egilsstaða. Gamla Grána liggur nú einhvers staðar uppi í Bláfjöllum en þar fórst hún skömmu síðar og brann til ösku.“

Heimildir: Jóhannes R. Snorrason. (1946, 24. desember). Eftirminnileg flugferð til Egilsstaða – í stormsveipum út af Siglufirði – í loftvarnaskothríð inn Eyjafjörð. Dagur, bls. 16-17. 

  • Brynjar Karl Óttarsson, kennari og rithöfundur, skrifar margskonar áhugaverðar greinar og birtir á vef sínum, Sagnalist. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti reglulega efni af Sagnalist. Þetta er fjórða grein Brynjars Karls.

Fyrirsögnin úr Degi 24. desember 1946.