Fara í efni
Mannlíf

Ætla að „hala“ inn 5 milljónir vegna Eddu

Listakonan Beate Stormo í Kristnesi vinnur nú að gerð óvenjulegs verks. Stjórn Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar réðst í það stóra verkefni að láta smíða sameiningartákn fyrir Eyjafjarðarsveit og eftir vel heppnaða hugmyndavinnu var ákveðið að fá Beate, margfaldan Íslands- og Evrópumeistara í eldsmíði, til að smíða risastóran járnskúlptur af kú. Gríðarlega mikil mjólkurframleiðsla er í Eyjafjarðarsveit og því var ákveðið að tákn sveitarinnar yrði mjólkurkýr.

„Hún er afskaplega vandvirk og fer alla leið í því sem hún tekur sér fyrir hendur,“ segir um Beate á vef Eyjafjarðarsveitar. „Hún er búin að hanna kúna og verður hún hol að innan með víravirkismynstri á hliðunum, sem vísa í víravirkið á íslensku þjóðbúningunum til dæmis. Einnig verða borðar með textum úr sögum og ljóðum um kýr. Kýrin heitir Edda en Edda þýðir formóðir og er það tilvísun í Eddukvæðin okkar, sem er ættmóðir allra ritverka okkar Íslendinga. Á sama hátt er kýrin Edda frjósöm og allt um vefjandi móðir sem hefur fætt okkur í gegn um aldirnar.“

Ákveðið var að ráðast í hópfjármögnun vegna Eddu, nokkur fyrirtæki hafa styrkt verkefnið en betur má ef duga skal, segir á vef sveitarfélagsins. Þar kemur fram að markmiðið sé að „hala“ inn fimm milljónar króna og um miðja vikuna höfðu safnast tæplega 1,4 milljónir.

Smelltu hér til að sjá meira á Facebook síðu verkefnisins.