Aðstæður eins og úr pöntunarlista! - MYNDIR
Aðstæður í Hlíðarfjalli í dag eru eins og þær verða allra bestar. Sólin hefur skinið skært, himininn er heiður og blár svo langt sem augað eygir og ekki bærist hár á höfði.
„Þvílík dýrð! Ef ég gæti valið bestu aðstæður í heimi úr pöntuntarlista þá væru það þessar!“ sagði einn þeirra sem naut lífsins á gönguskíðasvæðinu, í samtali við Akureyri.net, og horfði dreyminn út fjörðinn, þar sem Kaldbakur blasti við í allri sinni dýrð. Snéri sér svo í hálfhring, þar sem Súlur voru á sínum stað – hugsanlega aldrei fallegra á að líta. Ekki að undra. Besta veður í heimi var staðreynd – ekki þarf einu sinni að beita því lymskulega bragði sem sumir kalla Akureyrarlygi þegar vér norðanmenn ræðum um veðrið!
Þúsundir nytu lífsins á skíðasvæðinu á „hefðbundnum“ laugardegi, en nú eru sannarlega óvenjulegir tímar eins og öllum er ljóst. Skíðasvæðið er formlega lokað, vegna sóttvarnarreglna, nema göngusvæðið þar sem var einmitt var fjölmennt í dag. Lyfturnar steinþögðu og í brekkunum vinsælu voru fáeinar kempur sem röltu upp í móti til þess að renna sér niður aftur, annað hvort á sleða eða skíðum, án efa flestir á fjallaskíðum, sem svo eruð kölluð, og þá lá leiðin sennilega eins hátt upp og mögulegt er, svo hægt væri að renna sér sem lengst.
Starfsmenn skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli hafa haldið brekkunum við, þótt einungis sárafáir njóti, og eins og stundum áður tróðu þeir leiðina sem margir kalla Heimþrá, frá skíðasvæðinu og niður undir Hálönd, orlofsbyggðina ofan Akureyrar. Leiðin hefur verið mjög vinsæl undanfarið og var áfram í dag; fólk á skíðum og sleðum renndi sér en einn úr fjölskyldunni gegndi hlutverki skíðalyftu, hleypti þeim heppnu út á bílastæðinu við gönguskálann og ók síðan að neðri mörkum Heimþrárinnar, fyllti bílinn af fólki og skíðum eða sleðum og hélt upp á ný. Sá leikur var svo leikinn aftur og aftur. Og allir brostu út að eyrum. Nema veðurguðinn, sem ritstjóra Akureyri.net sýndist brosa hringinn...