Fara í efni
Mannlíf

Aðalsteinn Bergdal leikari

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

1. desember Aðalsteinn Bergdal, leikari

„Nafni minn, komdu aðeins með mér niður í bílskúr, ég held að þú eigir eitthvað þar“

Hjá mér, eins og öllum öðrum börnum, var alltaf viss spenna þegar nálgaðist jólin, en þó ef til vill ögn meiri hjá mér, þar sem Bergur vélstjóri á Sléttbak, einum af Akureyrar togurunum bjó á neðri hæðinni í Norðurgötu 50 þar sem ég átti heima. En togararnir fóru alltaf í siglingu til útlanda á þessum árstíma, og þá var hægt að nálgast sitthvað sem ekki var til hér heima. Mágur minn, sem var rafvirki, safnaði allt árið afgöngum af vírum, sem voru venjulegast úr kopar, og var þetta orðið talsvert mikið magn þegar rétti tíminn var kominn. En Kopar var góð söluvara í útlöndum, og tók Bergur vélstjóri koparinn með sér um borð og seldi hann svo þegar í útlandið var komið. Og fyrir peninginn sem fékkst fyrir koparinn var hægt að kaupa sitt lítið af hverju, svo sem ávexti, en slíkir voru af skornum skammti hér, og bara ekki til.

Macintosh nammi

Macintosh var orðið ómissandi á jólum, en slíkt var ekki til í búðum hér, og var ekki leiðinlegt að sjá stóru Macintosh dolluna frá Quality Street koma í ljós. Og svo voru það litlu, bleiku marsípan svínin sem Bergur keypti alltaf og var búinn að gera ómissandi á aðfangadagskvöldið og dagana þar á eftir. Nú, stundum voru einhver leikföng keypt sem ekki fengust á Íslandi, og fékk ég t. d. ein jólin fjarstýrðan batterís bíl.

Árið 1953 er ég ný orðinn fjögurra ára þegar þessi tími var kominn, á afmæli 1. desember, og lykt af eplum og appelsínum komin í kjallarann. Það var gegnt úr vaskahúsinu inn í íbúðina á neðri hæðinni þar sem Bergur og Lalla bjuggu, og þar var útlenski varningurinn fyrst eftir að Bergur kom heim úr siglingu. Nú voru heldur betur spennandi tímar og ég orðinn nógu gamall til að spá og spekúlera í hinu og þessu. Hvað ætli Bergur hafi nú keypt fyrir foreldra mína í þetta sinnið? Epli, appelsínur, Macintosh og marsípan svínin voru flutt í bílskúrinn okkar, sem var áfastur við húsið, og þar sniglaðist maður mikið um, án þess að mikið bæri á, til að reyna að komast að því hvort ekki væri eitthvað spennandi sem færi í jólapakka til mín.

Svona liðu dagarnir fram á aðfangadag, ég skildi bara ekkert í þessu og spennan alveg að fara með mig

Leitin bar engan árangur, nema hvað ég sá appelsínur og epli í kössum, Macintosh dolluna og kassann með marsípan svínunum. Þetta var mjög skrítið. Svona liðu dagarnir fram á aðfangadag, ég skildi bara ekkert í þessu og spennan alveg að fara með mig. Og eftir að pakkarnir voru komnir við jólatréð og ég búinn að grandskoða þá alla, jafnvel aftur og aftur, sá ég ekkert sem benti til að keypt hefði verið í útlöndum handa mér, þarna voru bara mjúkir pakkar til mín, sem væntanlega innihéldu bara hreinræktaða íslenska ullarvettlinga, ullarsokka og líklega var þarna vesti eða peysa.

Ég vildi ekki valda mömmu og pabba leiðindum með því að spyrja út í þetta, svo að ég steinþagði í minni gremju. Jólamaturinn var borðaður kl. 18:00 og var áhugi minn á honum frekar takmarkaður, þar sem hugur minn var allur við, Berg, útlandið og útlandapakkaleysið til mín, en ég hafði fengið harðan pakka jólin áður, og það var pakki keyptur í útlöndum. Hvernig stóð eiginlega á þessu? Þegar búið var að vaska upp eftir matinn, var komið að því að taka upp pakkana og var ég eiginlega búinn að missa áhugann á þeim, þegar pabbi, nafni minn, en við kölluðum hvorn annan alltaf bara, nafna, af því að við hétum það sama, sagði: „Nafni minn, komdu aðeins með mér niður í bílskúr, ég held að þú eigir eitthvað þar.“ Ég var ekki seinn af stað. Og viti menn, þegar við komum niður í bílskúr, stendur þá ekki á miðju gólfi þessi líka skínandi flotti bíll, og það enginn smá bíll, og þetta var bíll úr járni sem ég gat sest upp í og keyrt, og það stóð á hliðinni á honum silfruðum stöfum, Station Wagon.

Svona græju átti enginn krakki á Eyrinni í þá daga, enda varð bíllinn vinsæll í hverfinu og langt út fyrir það, og var stundum röð í garðinum, strákar og stelpur sem biðu eftir því að fá að prófa hann.

Jólunum var heldur betur borgið hjá mér, og var áhuginn fyrir mjúku pökkunum sem biðu mín við jólatréð ekkert sérlega mikill, en nafni minn bar bílinn upp í íbúðina og kom sér vel að holið var stórt og þar gat ég keyrt og keyrt. Svona græju átti enginn krakki á Eyrinni í þá daga, enda varð bíllinn vinsæll í hverfinu og langt út fyrir það, og var stundum röð í garðinum, strákar og stelpur sem biðu eftir því að fá að prófa hann. Og þessi bíll er til enn í dag, 70 árum seinna. Njótið hátíðarinnar.